Rotþró, seyra – Lífræn klósett

Heimild: 

.

Apríl 2006

Víðs vegar á landinu er mikið líf í prentmiðlum, þessum miðlum sem jafnvel áttu ekki að lifa af útvarpið og engan veginn sjónvarpið. En prentmiðlarnir lifa sem betur fer, margir berjast í bökkum en aðrir virðast lifa ágætu lífi.

Meiri hluti þjóðarinnar, sá sem býr á höfuðborgarsvæðinu, sér aldrei þessi héraðsblöð en þau eru þeim mun betur lesin í heimabyggð.

Á Suðurlandi koma út hvorki meira né minna en þrjú blöð sem er dreift víða, Sunnlenska fréttablaðið, Glugginn og Dagskráin. Svo eru einnig blöð sem eru staðbundnari, svo sem Bæjarlíf í Þorlákshöfn.

Í einu þessara ágætu blaða var frétt af seyrumálum í Tungum, eða því sveitarfélagi sem nú heitir Bláskógabyggð og nær að sjálfsögðu yfir fleiri sveitir en Biskupstungur. En þar var fjallað um seyruskatt og þéttbýlisbúar skulu uppfræddir nokkuð um hvað seyra er og hvernig þetta fyrirbæri getur orðið skattstofn.

Flestir vita að í þéttbýli eru skólplagnir í götum og við það kerfi eru öll hús í viðkomandi þéttbýli tengd. Talsvert hefur verið deilt um það hvort skólpkerfið eigi að vera skattastofn eða það sem menn vilja víst heldur kalla þjónustugjald; það þarf að borga fyrir þá þjónustu sem skólpkerfið veitir, að taka við því sem frá fólki kemur eða með öðrum orðum því sem frá klósettum, vöskum og öðrum slíkum tækjum rennur.

En þar sem byggðin er strjálli er ekki um sameiginlegt skólpkerfi að ræða. Það verður að leysa skólpmálin við hvern sveitabæ, við hvert sumarhús og jafnvel við hvert hús í minnstu þorpum. Það er gert með rotþró og í framhaldi af henni situr lögn sem dreifir því sem ekki er í föstu formi út í jarðveg sem til þess er sérstaklega gerður.

En í rotþrónni er stöðug vinnsla, þar brotna niður þau föstu efni sem þangað berast en þó ekki að öllu leyti. Sumt sest til botns í rotþrónni, þar verður til það sem nefnist seyra og seyruna verður að hreinsa úr rotþrónum áður en í óefni er komið. Þannig verður seyran skattstofn sveitarfélagsins eða er réttara að tala um þjónustugjöld eða hvað? Niðurstaðan er þessi; til að losna við skólp hérlendis eru farnar tvær mismunandi leiðir. Í fyrsta lagi með skólpveitum í götum í þéttbýli, sem víðast hvar er svo látið renna sem lengst út í sjó, ýsum og öðrum hræætum til óblandinnar ánægju. Í öðru lagi með rotþróm sem eru þá sérstök rotþró við hvert hús, en þó geta menn sameinast um stærri rotþró er hús standa í þyrpingu.

En eru ekki til fleiri leiðir til að losna við skólp? Lífræna salernið er að vinna á. Einu sinni var það slagorð hjá íslenskum stjórnmálaflokki að segjast vilja fara „hina leiðina“ en lagnamenn ættu meir en áður að benda á „þriðju leiðina“ í skólpmálum, ekki aðeins til að losna við það sem frá klósettinu kemur, heldur einnig til nýta það.
Í Flóanum er búið að skipuleggja mjög áhugavert hverfi í landi Kaldaðarness. Ef einhver er ekki sáttur við þessa landafræði þá er hér gengið út frá því að Flóinn nái frá Þjórsá vestur að Ölfusá, ekki meira um það.

Þetta byggðahverfi er nefnt búgarðabyggð og þar getur hinn sanni Íslendingur nálgast sína hugsjón. Eins og öllum ætti að vera augljóst hafa landsmenn aldrei viljað byggja borgir heldur mismunandi þétt strjálbýli. Þarna er í hnotskurn óskadraumur landans, ekki nokkur vafi. En þá kemur að kjarna málsins; hvernig ætla menn í Tjarnarbyggð, en það mun hverfið heita í framtíðinni, að leysa skólpmálin. Tæplega verður farið að leggja skólpkerfi um byggðina á þessu marflata landi, eða verða settar rotþrær við hvert hús? En þá er komið að þriðju leiðinni og það er lífræna salernið. Ekki er sú tækni með öllu óþekkt hér á landi en algengt er það ekki.

Flestum finnst ekki koma til greina annað en salerni sem sturtað er úr með vatni en svo er ekki alls staðar. Tæknilega hefur orðið mikil þróun í lífræna salerninu og svo er nú komið að í heilu sveitarfélögunum í Svíþjóð, þar sem er gisin byggð, er vatnssalernið útlægt, lífrænt skal það vera. Fyrir þá sem munu byggja og búa í Tjarnarbyggð eru ekki einungis skólpmálin leyst með lífrænu salerni heldur verður öllu sem frá mannfólkinu kemur umbreytt í umhverfisvænan, lyktarlausan áburð, já einhvern magnaðasta áburð sem völ er á. Í það má einnig setja grænmetisleifar og flestan matarúrgang, jafnvel kaffikorg. Allt mun þetta svo umbreytast í safntanki lífræna salernisins.

En þá er von að spurt sé; hvernig lítur salernið sjálft út, er ekki lykt frá því eða annar óþrifnaður? Nei engan veginn, að sjálfsögðu er „mublan“ sjálf svolítið frábrugðin en ekkert sem mælir gegn því að hún geti sómt sér í hinu flottasta baðherbergi.

Og þar með eru engin vandamál með seyru né seyruskatt. Þetta er algjörlega einkamál þess sem húsið á og landið yrkir, sveitarfélagið getur á engan hátt krafist neins konar skatts eða þjónustugjalds, þetta er einkamál hvers og eins.

Fleira áhugavert: