Fráveitulagnir – Ólykt og óhljóð

Grein/Linkur: Ólykt og óhljóð

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

thakrennur

.

Febrúar 2007

Ólykt og óhljóð

Stundum er hollt að staldra við og hugsa sem svo: Hvers vegna er þetta svona en ekki einhvern veginn öðruvísi? Máttur vanans er ótvíræður og árum saman gerum við eitthvað sem okkur finnst samt sem áður ekki besta leiðin. Engum virðist detta í hug að ruslafatan eigi að vera annars staðar en undir vaskinum. Er þetta heppilegasti staðurinn fyrir alla matarafganga sem til falla á heimilinu?

Það má færa rök fyrir því að svo sé alls ekki. Undir vaskinum er oft æði heitt og jafnvel rakt, það gefur augaleið. Mikið af heitu vatni rennur í vaskinn, stálið hitnar, sá hiti hækkar hitastigið í skápnum.

Ýmislegt rakakennt lendir í ruslafötunni, rakinn eykst. Þarna er komin gróðrarstía fyrir ýmiss konar örverur, og lyktarsterkur úrgangur, svo sem afskurður af fiski, getur farið að verða til ama.

En stundum verður vart við öllu hvimleiðari lykt undir vaskinum og það er skólplykt. Það gerðist einmitt á einu sómakæru og hreinlegu heimili og tilkallaður kunnáttumaður fann ekki út hvað var að, sá enga missmíði á leiðslum. Húsmóðirin skellti reglulega einhverju súperefni í vaskinn sem stöðugt var kynnt í sjónvarpinu í einni af þessum óþolandi, amerísku auglýsingum. En allt kom fyrir ekki, lyktin var staðreynd. Ómenguð skolplykt var í vaskaskápnum en þó mismunandi mikil. Stundum megn, stundum engin. Hvað var að gerast?

Stundum standa læknar ráðþrota yfir sjúklingi en í flestum tilfellum geta þeir skoðað inn í hans innstu afkima með nútímatækni og fundið orsök meinsins. Svo langt eru lagnamenn ekki komnir, þeir hafa hvorki röntgenaugu né þau tæki sem sjá í gegnum holt og hæðir. Það var því ekki annað að gera en að taka í sundur skólpleiðslur undir vaskinum og viti menn; þar var ekki allt eins og það átti að vera.

olyktPlaströrin, sem nú eru allsráðandi í skólplögnum, eru þannig sett saman að í falsi múffunnar er gúmmíhringur sem þéttir að rörinu þegar því er skotið inn í múffuna. En í einni samsetningu hafði þéttihringurinn farið að hluta úr falsinu og þar var engin þétting milli rörs og múffu. Þótt þröngt væri átti eimur úr skólplögn hússins möguleika á að þröngva sér upp og inn í skápinn.

En hvers vegna aðeins stundum, því ekki alltaf? Það getur stafað af því að í skólpkerfinu getur verið mismunandi þrýstingur. Hann getur farið eftir sjávarföllum eða vindátt, stundum er undirþrýstingur og engin lykt, stundum yfirþrýstingur og þá kemur lyktin.

Annað hvimleitt fyrirbrigði sem stundum stafar frá lögnum eru hljóð eða smellir. Að finna orsökina getur verið þrautin þyngri en hana verður að finna. Áður fyrr hefðu öll slík hljóð verið talin yfirnáttúruleg eða draugagangur og líklega hefði presturinn oftast verið kallaður á vettvang enda stétt pípulagningamanna ekki orðin til.

En draugatrúin hefur dvínað þótt langt sé frá því að hún sé útdauð, enn lífgar hún upp á grámósku hversdagsins. En hljóð og smellir frá lögnum geta verið svo óbærilegir til lengdar að fólk hefur hreinlega hrakist úr íbúðum og fundið sér aðrar vistarverur. Jafnvel hefur þetta haft skaðleg áhrif á geðheilsuna, það eru engar ýkjur.

Í háhýsi einu í Reykjavík voru slíkir smellir nánast að eyðileggja tilveru þeirra sem bjuggu á neðstu hæð, nálægt upptökum óværunnar. Óprestlærður pípulagningamaður var fenginn til að finna orsökina og lengi vel gekk hvorki né rak. Þó þótti augljóst að þarna væri um þenslusmelli í málmrörum að ræða og beindist því athyglin að stofnum hitakerfisins sem lágu í stokk upp allar hæðir.

Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að svo var ekki. Orsökin var í tveggja tommu stálröri sem var niðurfall frá hellulögðu þaki. En hvernig mátti það vera að þakvatn gæti framkallað slíka þenslusmelli? Vatnið frá þakinu var yfirleitt með litlum hitasveiflum og ætti ekki að geta framkallað teljandi þenslu í málmi.

Orsökin fannst, því þvert á allar gamlar teikningar, sem voru sem betur fer fyrirliggjandi, hafði frárennsli frá þvottavélum á 12. hæð verið tengt inn á þakniðurfallið. Slíkt frárennsli getur verið æði heitt stundum og skapað þenslu í málmi.

Og hvað var til ráða?

Að taka burt málmleiðsluna frá gólfi að lofti í kjallaranum og endurtengja með plaströri. Þar með hurfu allir smellir, draugurinn var særður brott og stökkt á flótta.                                                                                  

Fleira áhugavert: