Vindorka – Framleiðsla vetnis
.
Júní 2019
Ísland gæti orðið Kúveit norðursins
Kjöraðstæður
Flestir spá því að vetni sem orkugjafi eigi eftir að gegna stóru hlutverki vegna orkuskipta í heiminum. Vetni hentar vel til þess að knýja áfram stóra bíla, báta og skip. Þess vegna á eftirspurn eftir vetni eftir að aukast á næstu árum. Fullyrðing Hafsteins Helgasonar um að Ísland geti orðið umfangsmikill útflytjandi vetnis byggist á því að hér séu kjöraðstæður til að framleiða vetni á ódýrari hátt en víða annars staðar.
„Hér á Íslandi eigum við að geta framleitt raforku með frekar ódýrum hætti með vindorkuverum þar sem að við erum að framleiða raforku 40 til 50% af árinu. Það er nýtingarstuðull sem er sambærilegur við vindorkuver sem standa út fyrir ströndum Þýskalands, Hollands og Danmerkur. Ef við framleiðum vetnið með orku frá slíkum orkuverum og höfum þau beintengd við vetnisframleiðsluna þá eigum við að geta náð mjög hagstæðu orkuverði og þar af leiðandi hagstæðu verði á vetninu,“ segir Hafsteinn.
Vetnið flutt í ammoníaki
Það hefur ekki verið einfalt mál að flytja vetni milli landa. Að frysta það þykir ekki hagkvæmt. Hins vegar er mögulegt að nota ammoníak sem vetnisbera. Formúlan fyrir ammoníak er þrjár vetnissameindir og ein köfnunarefnissameind.
„Þannig að með þessu getum við framleitt ammoníak og sett það í fljótandi form undir 10 barra þrýstingi sem er frekar lár þrýstingur við stofuhita. Þannig gætum við flutt ammoníakið í skipsförmum milli landa.“
Kúveit norðursins og orkubændur
Mörg skip sigla um heimshöfin með ammoníak sem fyrst og fremst er notað í áburðarframleiðslu. Þannig að þekkingin er fyrir hendi.
„ Með þessu móti gæti Ísland orðið útflytjandi á eldsneyti og orðið hálfgert Kúveit norðursins eins og oft hefur verið talað um.“
Þetta eru stór orð og því er eðlilegt að spurt sé hvort þetta séu draumkenndar hugmyndir eða eitthvað sem er raunsætt.
„Þetta er raunveruleg hugmynd því við erum í samstarfi við erlenda aðila og erum bara að reikna allt þetta út. Allar frumniðurstöður benda til þess að þetta sé afar hagstætt. Gæti verið mög hagfellt fyrir Íslendinga og sérstaklega fyrir þá sem eiga landið sem vindorkuver munu standa á.“
Hann segir að í samningum við landeigendur um uppsetningu vindorkuvera sé verið að bjóða þeim hlut í væntanlegum tekjum af orkusölunni.
„ Ekki með greiðslu í eitt skipti í upphafi. Þannig að landeigandi verður með þessu móti orkubóndi.“
Hafsteinn er að horfa til þess að vindorka gæti verið nýtt til að standa undir vetnisframleiðslunni. Hann nefnir bæði staði sem koma til greina fyrir framleiðsluna og að vindorkan gæti staðið undir tvö til þrjú þúsund megavatta raforkuframleiðslu.
„Við eigum að hluta til mjög gott dreifikerfi fyrir raforku þannig að við getum verið að framleiða vetni til dæmi í Hvalfirði. Við gætum bráðlega framleitt vetni við nýja höfn í Dysnesi í Eyjafirði og náttúrulega í Finnafirði þegar sú höfn kemur upp. Það eru ákjósanlegar aðstæður til vindorkuframleiðslu á mörgum stöðum á landinu. Norðaustur hornið, hluti af norðvesturlandi og Dalirnir eru hagstæðir. Við höfum áhugaverð svæði til að framleiða vindorku þar sem, við gætum verið að framleiða í það heila kannski tvö þrjú þúsund megavött af raforku. Þetta er alveg valkostur,“ segir Hafsteinn.
Vindorku hefur vaxið fiskur um hrygg í Evrópu og víða hafa verið settir upp vindorkugarðar. Það eru ekki allir sáttir, meðal annars vegna hávaða frá myllunum, rasks, og sjónmengunar.
„Við verðum að staðsetja vindorkuver á Íslandi í stærri skala á afskekktum svæðum sem trufla hvorki menn né dýr. Þannig náum við góðum árangri.“
Framtíðarorkugjafi
Hafsteinn segir að vetnið sé klárlega framtíðarorkugjafi. Á næstu tveimur árum muni vetnisbílum fjölga ört. Þegar sé byrjað að framleiða flutningabíla sem ganga fyrir vetni. Ljóst sé að stór skip muni nota vetni með einum eða öðrum hætti í framtíðinni. Niðurstaðan sé að Ísland gæti framleitt vetni sem væri samkeppnishæft við framleiðslu annars staðar.
„ Já, klárlega er það tilfellið. Orkuverð mun breytast mjög mikið á næstu 20 árum í heiminum. Vetnið verður þar af leiðandi mjög áhugaverður valkostur. Það er ekki að ástæðulausu að stærstu fyrirtækin í þessum bransa, bílaframleiðendur og þeir sem framleiða skipavélar, eru allir að horfa á vetnið sem eldsneyti framtíðarinnar,“ segir Hafsteinn.