Raforkuframleiðsla – Úr 17-30 TWst 2025

Heimild:

.

Apríl 2011

Mögulegar 30 TWst árið 2025

Ósjaldan hefur verið minnst á það, að íslensku orkulindirnar séu mesta auðlind þjóðarinnar. Í því sambandi er athyglisvert, að nú er mögulega að fara í hönd mesta virkjunartímabil Íslandssögunnar. Um yrði að ræða 15 ára tímabil, með mikilli en jafnri fjárfestingu þar sem raforkuframleiðsla Landsvirkjunar yrði allt að tvöfölduð. Að því gefnu m.a. að arðsemissjónarmið verði uppfyllt og að uppbyggingin samrýmist umhverfis- og náttúrverndarsjónarmiðum.

Þarna er vísað til þeirrar hugmyndar Landsvirkjunar að árið 2025 – eftir einungis tæp 15 ár – verði framleiddar 30 TWst af raforku árlega á Íslandi. Og að sú orka verði mestöll seld langt umfram kostnaðarverð og þá með miklum hagnaði. Landsvirkjun hefur kynnt rökstudda hugmynd þess efnis að hagnaðurinn af sölu á öllu þessu rafmagni, í formi skatt- og arðgreiðslna til ríkisins, gæti hlutfallslega jafnast á við það sem norski olíusjóðurinn skilar Norðmönnum. Þarna kunna sem sagt að vera á ferðinni gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fyrir íslensku þjóðina – til langrar framtíðar.

hordur_arnarson.jpg

hordur_arnarson

Sumir hafa gripið á lofti það eitt, að það sé nú stefna Landsvirkjunar að tvöfalda raforkuframleiðslu sína og það á næstu 15 árum. Í reynd hefur þó forstjóri Landsvirkjunar í kynningum og viðtölum ítrekað sagt að fyrirtækið hafi engan áhuga á að virkja bara til að virkja. Aftur á móti vill Landsvirkjun auka hagnaðinn af raforkusölunni, bæta þannig fjárhagsstöðu fyrirtækisins og skila meiri arði til eigandans (ríkisins). Þetta er forgangsatriðið og virðist ljóst að nýjar virkjanir verða ekki reistar af hálfu Landsvirkjunar nema þær uppfylli skilyrði um stóraukna arðsemi.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur einnig lagt áherslu á það, að stefna fyrirtækisins skuli samrýmast Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Landsvirkjun er því bersýnilega meðvituð um að Alþingi markar fyrirtækinu rammann um hvar komi til greina að virkja. Þar að auki ætti fólk etv. að hafa í huga, að í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að núverandi forstjóri Landsvirkjunar sé talsvert meðvitaðri um náttúruvernd og umhverfissjónarmið heldur en forverar hans.

lv-raforkusala_1966-2010_2.jpg

lv-raforkusala_1966-2010 – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

En setjum virkjanahugmyndir Landsvirkjunar í samhengi við þá raforkuframleiðslu sem nú á sér stað á Íslandi og skoðum aðeins hvaðan orkan á að koma. Í dag nemur raforkuframleiðslan hér samtals um 17 TWst árlega. Þar af framleiðir Landsvirkjun rúmlega 12 TWst. Til að heildarframleiðslan verði 30 TWst þarf því að auka raforkuframleiðslu á Íslandi um tæpar 13 TWst, sem er rétt rúmlega öll sú raforka sem Landsvirkjun framleiðir í dag!

Til samanburðar má nefna að Kárahnjúkavirkjun, þ.e. Fljótsdalsstöð, framleiðir um 4,6 TWst árlega. Þetta yrði sem sagt MJÖG mikil aukning á raforkuframleiðslu á Íslandi og það á tiltöllega stuttu tímabili. Skv. kynningu Landsvirkjunar á nýliðnum ársfundi fyrirtækisins, myndi hlutur Landsvirkjunar í þeirri aukningu verða um 11 TWstLandsvirkjun myndi þá fara úr því að framleiða rúmar 12 TWst og í um 23 TWst árlega. Sem sagt næstum því tvöföldun á raforkuframleiðslu fyrirtækisins – og hugsanlega yrði allt viðbótaraflið byggt upp á einungis 15 árum.

lv-ha-2011-virkjanir-03-2.jpg

lv-ha-2011-virkjanir

Gert er ráð fyrir að af þeim 11 TWst sem þarna myndu bætast við framleiðslu Landsvirkjunar á næstu 15 árum, komi 7,3 TWst frá fjórtán nýjum virkjunum. Og að heildarfjárfesting vegna þeirra muni jafngilda á bilinu 4,5-5 milljörðum USD. Slík fjárfesting, ásamt tilheyrandi iðnaðaruppbyggingu fyrirtækja sem verða notendur orkunnar, myndi valda miklum umsvifum og hagvexti. Í þessu sambandi talar Landsvirkjun um 15 ára hagvaxtarskeið, sem verði drifið áfram af uppbyggingu iðnaðar og mjög arðsamra orkumannvirkja. Og arðsemin verði til þess að koma í veg fyrir niðursveiflu í kjölfar þessara umfangsmiklu framkvæmda. Samkvæmt þessu verður því um að ræða sjálfbæra orkuvinnslu – bæði í umhverfislegu og fjárhagslegu tilliti.

Sumar þessar 14 nýju virkjanir Landsvirkjunar, sem standa eiga undir framleiðslu á 7,3 TWst árlega, yrðu á nýjum virkjanasvæðum, en aðrar á svæðum sem nú þegar eru nýtt. Að auki eru svo 3,7 TWst, sem kæmu frá öðrum virkjunum á vegum Landsvirkjunar, sem hafa enn ekki verið tilgreindar. Þ. á m. yrðu, skv. kynningu Landsvirkjunar, mögulega vindorkuver og jafnvel sjávarorkuvirkjanir. Loks virðist gert ráð fyrir því í þessari framtíðarsýn, að raforkuframleiðsla annarra orkufyrirtækja fari úr núverandi 5 TWst og í um 7 TWst. Þannig að árið 2025 verði heildarframleiðsla raforku á Íslandi, sem fyrr segir, orðin um 30 TWst í stað þeirra 17 TWst sem nú er. Allt er þetta þó háð margvíslegri óvissu og fyrirvörum. Og talan 30 TWst er auðvitað enginn fasti, heldur bara viðmiðun eða ein hugmynd um hvernig sjá má virkjanauppbyggingu á Íslandi fyrir sér.

Þær fjórtán nýju virkjanir sem Landsvirkjun sér möguleika á að reisa á næstu 15 árum og með þeim framleiða samtals 7,3 TWst árlega, eru eftirfarandi (sjá má nánari upplýsingar um þessa virkjanakosti á pdf-skjölum á vef Rammaáætlunar, þar sem vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir eru tilgreindar í sitt hvoru lagi, sbr. einnig yfirlitskort):

1)   Þeistareykjavirkjun (jarðvarmavirkjun).

2)   Krafla (ný jarðvarmavirkjun við Kröflu).

3)   Bjarnarflag (ný jarðvarmavirkjun við Bjarnarflag).

4)   Hólmsárvirkjun í Hólmsá.

5)   Búðarhálsvirkjun í Tungnaá.

6-8)   Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun í Þjórsá.

9)   Búrfellsvirkjun í Þjórsá (ný virkjun við Búrfell).

10)  Skrokkölduvirkjun við Hágöngulón.

11)  Hágönguvirkjun (jarðvarmavirkjun í nágrenni Hágöngulóns).

12-14)  Fannalækjarvirkjun, Gilsárvirkjun og Kolkuvirkjun í Blöndu.

Þessir 14 virkjanakostur eru væntanlega þeir sem Landsvirkjun telur að séu bæði hagkvæmir og þess eðlis að líklegt sé að þokkalega pólítísk sátt náist um þá. Því miður er ekki tilgreint í upplýsingum frá Landsvirkjun af ársfundinum hversu stór hver virkjun myndi verða. En við lauslega athugun sýnist Orkubloggaranum að samanlagt afl þessara fjórtan virkjana gæti verið nálægt 1.000 MW og þá ekki ólíklegt að ársframleiðsla þeirra yrði í kringum þær 7,3 TWst sem er talan sem Landsvirkjun hefur tilgreint.

Skv. þessum hugmyndum er EKKI gert ráð fyrir að virkja ýmsa kosti sem sumir myndu kannski telja hagkvæma, en eru afar umdeildir út frá t.d. umhverfis- og nattúruverndarsjónarmiðum. Þar mætti nefna háhitasvæðin í Vonarskarði (sem reyndar þykja álitlegur virkjunarkostur skv. drögum að Rammaáætlun!) og jarðhitinn í Kerlingafjöllum og við Torfajökul. Og þarna er ekki heldur að finna neina virkjun í Jökulsá á Fjöllum, né í Skjálfandafljóti eða jökulánum í Skagafirði.

lv-ha-2011-virkjanir-02-2.jpg

lv-ha-2011-virkjanir

Hvaða virkjunarstaðir koma að lokum til álita verður vel að merkja í höndum löggjafans og stjórnvalda. Á þessu stigi er því væntanlega eðlilegast að líta á umræddar hugmyndir Landsvirkjunar sem tillögur eða ábendingar. Sumum kann reyndar að þykja það að ætla að reisa allar þessar virkjanir á einungis 15 árum vera ansið hröð uppbygging. En af hálfu Landsvirkjunar er bent á að ef ráðist yrði í þessar framkvæmdir myndi það geta gerst mjög jafnt og þétt yfir allt tímabilið. Og að einfalt yrði að hægja á framkvæmdaferlinu, ef of mikill hiti væri að færast í efnahagslífið. Það er nefnilega enginn virkjanakostanna mjög stór; m.ö.o. ekkert í líkingu við Kárahnjúkavirkjun.

Landsvirkjun hefur í kynningum sínum lagt ríka áherslu á að það sé alls ekki verið að ráðast í framkvæmdir framkvæmdanna vegna. Heldur skuli allar framkvæmdir fyrirtækisins byggjast á rekstrarlegum forsendum og að miðað verði við arðsemiskröfur sem eru langt umfram það sem tíðkaðist áður fyrr hjá Landsvirkjun. Þar að auki mun fyrirtækið auðvitað miða allar sínar áætlanir við niðurstöðu Rammaáætlunar. Það er því í reynd Alþingi sem mun setja rammann um virkjanastefnu Landsvirkjunar.

lv-ha-2011-virkjanir-04-2.jpg

lv-ha-2011-virkjanir

Til eru þeir sem hrökkva í kút við að sjá hugmyndir um svo sórfelldar virkjanaframkvæmdir. Enda er fyrri reynsla af aðdraganda virkjanaframkvæmda hér á Íslandi ekkert sérstaklega góð. Það er t.d. vart hægt að kalla það annað en misbeitingu á pólítísku valdi þegar þáverandi umhverfisráðherra snéri niðurstöðu Nátturuverndar ríkisins um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Vonandi er tími slíkra vinnubragða liðinn. Kynning Landsvirkjunar á framtíðarsýn fyrirtækisins er metnaðarfull og að mati Orkubloggarans nokkuð lituð bjartsýni – sérstaklega með tilliti til þróunar raforkuverðs. En þetta er um margt athyglisverð og jákvæð framtíðarsýn. Og nú er eðlilegt að fram fari opinská umræða um þessar humyndir í þjóðfélaginu, núna þegar Rammáætlunin fer loksins að verða tilbúin.

Við þurfum að bíða enn um sinn til að sjá hvernig þeirri vinnu reiðir af. En ef niðurstaðan verður nálægt þeim hugmyndum sem Landsvirkjun hefur sett fram, er kannski ekki fráleitt að segja sem svo að nú fyrst fari í hönd raunveruleg iðnvæðing á Íslandi, þar sem byggðastefna, kjördæmapot og fyrirgreiðslupólítík verða víðs fjarri. Það er vel.

————————————————–

[Glærurnar þrjár hér að ofan eru úr kynningu Landsvirkjunar á ársfundi fyrirtækisins fyrr í apríl og eru þær teknar af vefsvæði Landsvirkjunar].

Fleira áhugavert: