Frárennslislangir – Steinrör morkna
.
Júlí 1996
Hvað leynist undir gólfinu?
Skipulagt viðhald lagna hefur verið algerlega óþekkt í íbúðarhúsnæði. Fólk er tregt til að tileinka sér fyrirbyggjandi viðhald.
Fjölmörg hús hérlendis eru komin á þann aldur að talsvert viðhald er orðið nauðsyn og það fyrir alllöngu síðan. Mikill meirihluti byggðar innan hinna gömlu Hringbrautar í Reykjavík er undir þessa sök seldur og raunar heilu hverfin annarsstaðar í borginni.
Þetta er nokkuð sem eins og komi mörgum húseigendum í opna skjöldu, íslenskir fasteignaeigendur hafa æði margir lifað eftir því mottói „flýtur á meðan ekki sekkur“.
Skipulagt viðhald fasteigna eða lagna í húsum hefur verið nær óþekkt og algjörlega óþekkt í íbúðarhúsnæði hverju nafni sem það nefnist. Það er aldrei brugðist við fyrr en eitthvað gefur sig, fyrirbyggjandi viðhald er nokkuð sem er erfitt að fá landann til að tileinka sér.
Skólplagnir undir neðstu plötu
Eitt af því sem mun angra hús eigendur meir og meir á næstu árum er bilaðar skólpleiðslur í grunni. Þetta er óumflýjanleg staðreynd, hús sem er orðið næstum eða meira en hálfrar aldar gamalt er komið á tíma.
Í næstum öllum húsum á þessum aldri eru skólpleiðslurnar úr steinrörum, þau voru á þessum tíma ekki jafn vönduð og þau eru í dag. Þess vegna eru þetta ekki annað en ofur eðlileg ellimörk, þessu verða menn að taka. Það er engin spurning að húseigendur eiga ekki að bíða eftir því að leiðslur brotni endanlega niður, að allt frárennsliskerfið stíflist og óþef fari að leggja um hýbýli og að skólpmaurar fari að skríða upp um sprungur. Það á einfaldlega að líta á lagnir í húsum eins og lifandi verur og láta aldurinn ráða því hvenær skoðunar er þörf, ekki að bíða eftir sjúkdómseinkennum.
Það á að láta skoða hvern einstakling, hverja skólplögn sem komin er yfir fertugt, þá má búast við að margt sé farið að gefa sig. Tækni nútímans er komið á það stig að hægt er að senda myndavél inn í leiðslurnar og láta hana renna eftir þeim. Á meðan geta húseigendur setið í makindum og horft á ástand lagnanna eins og spennandi vestra á sjónvarpsskjá. Það er nauðsynlegt að þvo lagnirnar vel að innan með vatni undir góðum þrýstingi áður en myndavélin er send inn, öll þau óhreinindi sem eru innan á röraveggjum geta falið sprungur og göt.
Ekki sama hvernig staðið er að endurbótum
Ef það kemur í ljós að lögnin er ekki á vetur setjandi er best að hefjast handa strax.
En hvað á að gera?
Umfram allt ekki að rasa um ráð fram, það er fyrir öllu að undirbúa verkið vel og vandlega, ekki byrja á því að panta eitt stykki pípulagningameistara með eitt stykki loftpressu og segja „brjóttu upp gólfið í kjallaraíbúðinni, fjarlægðu gömlu leiðslurnar og legðu nýjar“
Ekkert mælir á móti því að fá færan pípulagningmeistara til skrafs og ráðagerða og ekki er ólíklegt að hann mundi ráðleggja að fá færan hönnuð með í ráðin.
Það er oft það síðasta sem á að gera að brjóta upp allt gólfið, það þarf að kanna hvort nokkrar teikningar séu til af skólplögninni í grunninum en langlíklegast er að svo sé ekki ef um er að ræða jafn gömul hús eins og við erum að tala um, fjörutíu ára og eldri.
En þá hefur myndatakan leitt í ljós hvar lagnirnar liggja og ekki síður hvar stofnar koma upp úr gólfi. Það liggur ekki alltaf í augum uppi hvar þeir eru því fram til þessa hafa skólpstofnar verið faldir inni í veggjum.
Og þá kemur spurningin sem hönnuður og meistari geta svarað; „er hægt að leggja lögn stystu leið frá hverjum stofni út úr húsi og sameina lögnina utanhúss?“
Með þeirri aðferð er oftar en ekki hægt að koma í veg fyrir mikið múrbrot innanhúss en það fer aldrei hjá því að svona aðgerð valdi þeim sem við þarf að búa talsverðurm óþægindum. En það er oft hægt að milda þau óþægindi með því að bíða ekki þar til allt er komið í óefni.
Að sjálfsögðu á að gera teikningar að endurbættum lögnum og leggja þær inn til viðkomandi byggingafulltrúa og láta hann taka út verkið.
Steinrör eru víða að morkna sundur undir neðstu plötum eldri húsa