Áratugur Sæstrengja – Háspennukaplar í Norðursjó
.
Sæstrengja-áratugur framundan?
Það er mikið að gerast í sæstrengjamálunum í V-Evrópu þessa dagana.
Sífellt meira rafmagn fer nú um háspennukapla, sem liggja eftir botni Norðursjávar. Nú í apríl (2011) byrjaði rafmagn að streyma eftir nýja kaplinum milli Bretlands og Hollands. Hann kallast BritNed og er um 270 km langur. Þetta er öflugur jafnstraumskapall – 1000 MW – en spennan er þó ekki nema 450 kV og rafmagnstapið því væntanlega talsvert. Það tók um ár að leggja kapalinn, en ákvörðunin um að ráðast í verkefnið var tekin 2007. Og núna fjórum árum síðar eru herlegheitin tilbúin.
BritNed er í eigu bresk-bandaríska orkurisans National Grid og hollenska TenneT, sem er einmitt einnig hluthafi í NorNed-kaplinum, sem liggur milli Hollands og Noregs. BritNed-kapallinn var talsvert skref fyrir breska raforkukerfið. Því þetta er fyrsta tenging Bretlands við meginland Evrópu síðan kapalstubburinn Interconnexion France Angleterre (IFA) var lagður milli Frakklands og Bretlands fyrir heilum aldarfjórðungi!
BritNed eru ekki einu stóru tíðindin í sæstrengjunum þessa dagana. Það er líka örstutt síðan tilkynnt var um lagningu rafmagnskapals á milli Noregs og Þýskalands. Kapallinn sá er kallaður NorGer og verður hann svipaður að lengd eins og lengsti neðansjávarkapallinn er í dag eða um 600 km. Sá lengsti núna er áðurnefndur NorNed-kapall milli Noregs og Hollands. NorGer mun liggja nánast samsíða NorNed, en verður miklu öflugri kapall eða 1.400 MW, meðan NorNed er 700 MW. NorGer er sem sagt með tvöfalt meiri flutningsgetu en NorNed. Engu að síður er spennan í NorGer einungis sögð verða 500 kV, sem er eiginlega furðulítið þegar haft er í huga hversu rafmagnstapið minnkar eftir því sem spennan er höfð hærri. En sú staðreynd að menn ætli að ráðast í NorGer, þrátt fyrir talsverðar bilanir og vandræði með NorNed, sýnir að þessir sæstrengir eru góður bizzness. Annars væru menn ekki að fara af svo miklum krafti í þessa nýju kapla.
Það er svo sannarlega skammt stórra högga á milli í neðansjávarköplunum þessa dagana. Nýverið var tilkynnt um enn eitt kapalkvikyndið; norska Statnett og áðurnefnt National Grid ætla að leggja 1.400 MW neðansjávarkapal milli Bretlands og Noregs.
Þessi kapall milli Bretlands og Noregs hefur enn ekki hlotið nafn, en kannski mætti kalla hann BritNor. Kapallinn sá mun setja nýtt heimsmet. Því hann verður um 800 km langur og því um þriðjungi lengri en NorNed og NorGer og þar með afgerandi lengsti neðansjávar-rafstrengur heims.
Þessi HVDC-kapall milli Bretlands og Noregs verður sem sagt talsvert myndarlegt framfaraskref. Með honum verðum við farin að nálgast þá vegalengd sem kapall milli Íslands og Evrópu yrði. Slíkur kapall verður að lágmarki um 1.200 km langur, sbr. myndin hér til hliðar sem er úr kynningu Landsvirkjunar frá því í apríl s.l. (2011) og má nálgast á vef fyrirtækisins.
Farið var að vinna að alvöru í hugmyndinni að kaplinum milli Noregs og Bretlands árið 2009, en það var svo snemma í apríl sem leið að formleg ákvörðun var tekin um að ráðast í verkið. Kapallinn er sagður eiga að vera með 500 kV spennu, rétt eins og NorGer, en NorNed er 450 kV. Það virðist því enn vera eitthvað í að við sjáum langa neðansjávarlapla með 800kV spennu eða jafnvel meir.
Í þessu sambandi er athyglisvert að þegar Orkubloggarinn ræddi við starfsfólk hjá sænska risakapalfyrirtækinu ABB fyrir um ári síðan, var bloggaranum sagt að miðað við tækni dagsins yrði kapall til Íslands miðað við þáverandi tækni varla meira en 600 kV , en að 800 kV neðansjávarkaplar væru þó skammt undan.
Þessi kapall milli Bretlands og Noregs, sem hér er nefndur BritNor og mun kannski verða kallaður eitthvað allt annað á siðari stigum, á að verða tilbúinn á árabilinu 2017-2020. Enn eru ýmsir lausir endar og ekki alveg víst hvenær af þessu verður. En þetta nýjasta sæstrengja-verkefni lítur út fyrir að vera komið á góðan rekspöl. Eignarhaldið verður með þeim hætti að strengurinn verður hluti af dreifikerfi viðkomandi fyrirtækja í viðkomandi löndum og hagnaðurinn sem kapallinn skilar á að verða til lækkunar á raforkudreifikostnaðinum þar.
Kannski verður næsta heimsmet þar á eftir tenging milli Íslands og Evrópu? Það mætti ímynda sér að tímasetningin á þeim kapli fullbúnum gæti orðið fljótlega uppúr 2020. Kannski eðlilegast að miða við það, að kapallinn sá verði tilbúinn einmitt um það leyti sem Ísland hefur virkjað nóg til að framleiða um 30 TWst árlega? Sem gæti orðið árið 2025, sé miðað við þá framtíðarsýn sem Landsvirkjun kynnti okkur nýverið. Hugsanlega gæti slíkur kapall flutt allt að 4-5 TWst árlega.
Já – það virðist blása byrlega fyrir lengri og öflugri HVDC-neðansjávarköplum þessa dagana. Og sennilega tímabært að huga mjög alvarlega að slíkri tengingu milli Íslands og Evrópu.
En þrátt fyrir að kapaltækninni hafi fleygt gríðarlega fram, er ennþá talsverð óvissa uppi um Íslandskapal; bæði hvað snertir tæknina og líka kostnaðinn. Það er líka óvíst hvaða landi heppilegast væri að tengjast. Sjálfur myndi Orkubloggarinn veðja á að IceGer sé besti kosturinn, þ.e. tenging við Þýskaland. Og bloggarinn myndi þar bæta við þeirri hugmynd, að þýska orkufyrirtækið RWE verði stærsti hluthafinn.
Vissulega er þó mögulegt að tenging við Bretland verði álitin einfaldari og ódýrari kostur. Svo er kannski mun lengra í svona Íslandsstreng en Orkubloggarinn álítur raunhæft, þrátt fyrir örar framfarir. En það virðast a.m.k. spennandi tímar framundan í kapalmálunum.