Tæring lagnakerfum – Ryðblandað vatn

Heimild:

.

September 2009

Ryðblandað vatn úr krönum

Jón Sigurjónsson

Sífellt algengara er að ryðblandað vatn komi úr krönum á heimilum fólks. Jón Sigurjónsson, yfirverkfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð, segir að lagnir í nýlegum húsum séu sumstaðar lélegri en áður og byrji fyrr að ryðga.

Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins hefur verið sameinuð Nýsköpunarmiðstöð Íslands og þar er nú rannsakað ýmislegt er viðkemur húsbyggingum og meðal annars áhrif vatns á lagnir í húsum. Þar er meðal annars stuðst við efnagreiningar Orkustofnunar á kranavatni. Jón Sigurjónsson segir að tæring í lögnum hafi verið óvenju áberandi undanfarið sérstaklega í nýlegum húsum. Væntanlega sé þetta vegna þess að sinkhúð í lögnum sé ekki nógu góð sem leiði til þess að lagnirnar ryðgi óvenju snemma. Fólk fái þá gjarnan ryðlitað vatn úr krananum, blandað járnsamböndum sem verða til við tæringu. Mest hætta sé á þessu þegar vatnið hafi staðið í nokkurn tíma. Jón bætir við að tæringin skemmi lagnirnar og valdi því að þær endist skemur. Fólk þurfi á endanum að láta skipta um lagnir en einnig sé hægt að láta fóðra þær að innan með plasti.

Þeir sem vilja vera vissir um að drekka hreint vatn geta látið það renna í nokkra stund eða þar til vatnið kólnar niður í 6 til 8 gráður sem er hiti lagnavatns í Reykjavík samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu.

Miklu máli skiptir að hentugt lagnaefni sé notað. Ekki er víst að sama lagnaefni henti allstaðar á landinu því efnasamsetning drykkjarvatns er mismunandi. Á vefnum lagnaval.is er hægt að kynna sér hvaða lagnaefni hentar hvar.

Þar kemur fram að rör úr ryðfríu stáli eða plasti henti víðast hvar en galvaniseruð stálrör henti ekki. Þau séu í raun svört stálrör sem búið sé að húða að utan og innan með sinki. Húðunin fari þannig fram að rörin séu þvegin í sýru og síðan dýft í bráðinn sinkmálm. Húðin sem myndist sé nú oftast um 0,04-0,05 mm þykk. Það sé þynnri húð en þekktist fyrr á árum.

Fleira áhugavert: