43 rafhleðslustöðvar – 450+ M.kr.
.
Nóvember 2019
Orkusjóður hefur úthlutað styrkjum að upphæð 227 milljónum króna til uppsetningar 43 nýrra hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið. Nýju stöðvarnar eru þrisvar sinnum aflmeiri en öflugustu stöðvarnar sem fyrir eru hérlendis og eiga að stuðla að hindrunarlausum ferðum rafbíla milli landshluta.
Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum. Stöðvarnar tilheyra nýrri kynslóð hraðhleðslustöðva en um er að ræða 150kW hleðslustöðvar. Öflugustu stöðvarnar hafa hingað til verið 50kW og flestar eru 22kW. Gert er ráð fyrir a.m.k. helmings mótframlagi framkvæmdaraðila og nemur heildarfjárfesting verkefnanna því 450 milljónum króna hið minnsta.
Rafbílum fjölgar hratt hér á landi og er Ísland í öðru sæti í heiminum á eftir Noregi hvað varðar hlutfall rafbíla og tengiltvinnbíla af fjölda nýskráðra bifreiða. Ríkisstjórnin kynnti í sumar markvissa uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum og í kjölfarið voru auglýstir fjárfestingarstyrkir til uppbyggingar öflugri hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla. Einnig voru auglýstir fjárfestingarstyrkir til uppbyggingar hleðslustöðva við gististaði um allt land sem var úthlutað á dögunum.
„Það er frábært að verða vitni að þeirri hröðu fjölgun rafbíla sem nú á sér stað, samfara aukinni áherslu á breyttar ferðavenjur,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Þetta er mjög mikilvægt loftslagsmál og við höfum lagt áherslu á að styðja vel við notendur þessara bíla með fjölgun hleðslustöðva. Það er því sérstaklega ánægjulegt að fá nú upp nýjar, aflmiklar stöðvar sem gerbreyta hleðslumöguleikum hér á landi.“
„Orkuskiptin eru í fullum gangi og á örfáum vikum höfum við tilkynnt um aðgerðir þar sem heildarfjárfestingin nemur ríflega hálfum milljarði króna. Þetta er mjög stórt skref í því að gera samgöngur okkar vistvænar og hefur einnig mikla þýðingu fyrir markmið okkar að verða leiðandi í sjálfbærri ferðaþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Ofangreindir styrkir byggja á tillögum starfshóps sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra skipuðu í byrjun árs og var falið að móta tillögur um aðgerðir til að hraða orkuskiptum hér á landi, í samræmi við aðgerðaáætlanir um orkuskipti og loftslagsmál.
Staðsetningar 150kW hraðhleðslustöðvanna eru eftirfarandi:
- Mosfellsbær
- Borgarnes
- Þingvellir
- Vegamót á Snæfellsnesi
- Ólafsvík
- Stykkishólmur
- Búðardalur
- Bjarkarlundur
- Patreksfjörður
- Ísafjörður
- Hólmavík
- Staðarskáli
- Blönduós
- Varmahlíð
- Akureyri
- Mývatnssveit
- Egilsstaðir
- Seyðisfjörður
- Djúpivogur
- Höfn – Nesjahverfi
- Freysnes
- Skaftafell
- Kirkjubæjarklaustur
- Vík í Mýrdal
- Hvolsvöllur
- Hella
- Geysir
- Selfoss
- Keflavíkurflugvöllur
- Reykjanes – flugvallasvæði
- Reykjanesbær
- Norðlingaholt
Einnig verður sett upp 50kW hleðslustöð á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.