Hitastig vatns – Hve heitt, 65-90°C

Heimild:  

.

Ágúst 1996

Hve heitt ávatnið að vera?

Flestir gleyma viðhaldi og eftirliti á sjálfvirkum blöndunartækjum. Þessi annars ágætu tæki þarf að yfirfara ekki sjaldnar en annað hvert ár.

Heita vatnið sem kemur úr iðrum fósturjarðarinnar og streymir úr krönum flestra landsmanna er mismunandi heitt eftir landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu er það víðast hvar 70-75 gráður en sumstaðar er það yfir 90 gráður.

Það liggur í augum uppi að því fylgir umtalsverð slysahætta að hleypa svo heitu vatni, yfir 80 gráður, inn í hýbýli manna. Þó ekki hafi orðið mörg slys af völdum heits kranavatns er sú spurning að verða áleitnari hvort ekki þurfi að takmarka hitann, er ekki ráð að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofaní?

Á Norðurlöndum er það regla að heitt kranavatn skuli ekki vera heitara en 65 gráður en vissulega er einfaldara að stýra því þar. Þar er ekki um jarðhita að ræða, allt heitt vatn er upphitað kalt vatn og að sjálfsögðu er engin ástæða til að eyða orku í að hita það upp fyrir 65 gráður til að kæla það síðan aftur, því yfirleitt notum við ekki vatnið heitara en 30-40 gráður.

Er brýn þörf á takmörkun hita?

Það má ef til vill segja að samkvæmt reynslunni sé hún það ekki en hættan er fyrir hendi og það ættu að vera nægileg rök fyrir því að takmarka hitann á vatninu, í það minnsta er rétt að vekja athygli á hættunni. En hvað er þá til ráða? Á að setja enn eina reglugerðina og hafa vit fyrir fólki?

Það yrði vissulega vel þegið af ýmsum embættismönnum og stofnunum og ekki ólíklegt að það verði gert fyrr en síðar, það verður að hafa vit fyrir „pöbulnum“.

Það er hægt að fara mismunandi leiðir til að ná því marki að heita vatnið úr krönunum sé ekki sú slysahætta eins og ætla má að það sé í dag.

Sú staðreynd, að ekki hafa orðið umtalsverð slys af heitu kranavatni, er mjög líklega vegna þess að húseigendur hafa nú þegar sett upp hjá sér öryggistæki sem ábyggilega hafa komið í veg fyrir slys.

Þetta er sjálfvirka blöndunartækið sem er nú næstum orðið sjálfsagður hlutur í steypiböðum og við baðker, en slysahættan er einmitt mest þegar farið er í bað, sérstaklega er börnum hætta búin.

Sjálfvirku blöndunartækin eru einföld tæki og í raun má segja að þau séu ódýr miðað við notagildi, hvort sem miðað er við þægindi eða öryggi. Það er ekki staður né stund til að fara út í langar tæknilegar útskýringar, en í stuttu máli er sjálfvirka blöndunartækið byggt á náttúrulögmálinu að loft, vökvar og föst efni þenjast út við hækkandi hita og dragast saman við lækkandi. Á þessu byggjast sjálfvirku ofnkranarnir sem stjórna hita í íbúðinni einnig og á þessu byggist vatnslásinn í bílnum.

En gallinn við aukna notkun á sjálfvirkum blöndunartækjum er sá að flestir gleyma viðhaldi og eftirliti, þessi annars ágætu tæki þarf að yfirfara ekki sjaldnar en annað hvert ár. Hitaveituvatnið er víðast hvar þannig á landinu að ýmis efni í því falla út og setjast á viðkvæma hluti í tækjunum og einstreymislokar verða óþéttir. Það getur orsakað millirennsli, oftast þannig að heitt vatn kemst yfir í kalt vatn.

Því miður er tækjunum oft kennt um en sökin er ekki hjá þeim heldur hjá eigendunum sem ekki hugsa um eftirlit og viðhald og ekki síður hjá fagmönnunum sem ekki gera húseigendum ljóst að viðhalds er þörf.

Fleiri úrræði

Einföld leið til að lækka hita vatnsins er að setja einfalt og tiltölulega ódýrt blöndunartæki á inntak heita vatnsins, tæki sem blandar köldu vatni saman við það heita og lækkar þannig hitann t.d. um 10-15 gráður.

En þá kemur nýtt til sögunnar, kalda vatnið er súrefnisríkt og það kann að hafa neikvæð áhrif á lagnirnar ef þær eru úr galvaniseruðu stáli. Hinsvegar er hér um lítið magn að ræða svo ekki eru mikil líkindi á tæringu en hana er ekki hægt að útiloka.

Róttækasta leiðin og sú dýrasta er að setja millihitara á heita neysluvatnið við inntak, þá er hitaveituvatnið notað til að hita upp kalt neysluvatn, hitaveituvatnið fer þá aldrei lengra en inn í inntaksklefann, nema það sem fer á ofnakerfið, og margir eru ánægðir að losna við það úr krönunum.

En nú er eins gott að huga að því úr hvaða efni lagnirnar eru, galvaniseruð stálrör eru ekki æskileg vegna hættu á tæringu því nú er eingöngu notað súrefnisríkt vatn sem heitt vatn.

Þetta á ekki að koma í veg fyrir þessa lausn í nýjum byggingum því til er úrvalsefni til notkunar í lagnir fyrir upphitað kalt, súrefnisríkt vatn.

Þá er sjálfsagt að nota annaðhvort plaströr eða rör úr ryðfríu stáli.

Sjálfvirkt blöndunartæki er ómetanlegt öryggistæki.

Fleira áhugavert: