BGO – Regnvatn í jarðveg, ekki í lagnir
.
Febrúar 2019
Blágrænar ofanvatnslausnir eru framtíðin
Reykjavíkurborg og Veitur hafa tekið höndum saman um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausnir (BGO) í Reykjavík en það felst í því að veita ofanvatni á náttúrulegan hátt niður í jarðveginn í stað þess að veita því í hefðbundin fráveitukerfi.
Borgin og Veitur feta nú í fótspor fjölda annarra borga sem vilja bæta stöðu sína til að takast á við loftslagsbreytingar, hreinsa vötn, ár og læki, gera borgir grænni og auka líffræðilegan fjölbreytileika þeirra. En þetta má gera með ýmsum útfærslum.
Í síðustu viku var grunnnámskeið haldið fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar og Veitna sem liður í uppbyggingu þekkingar á sviði BGO. Námskeiðið sem hefur verið aðlagað sértaklega að íslenskum aðstæðum, er haldin af CIRIA, samtökum sem hafa gefið út leiðbeiningarefni um innleiðingu BGO í Bretlandi. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Steve Wilson.
Rúmlega 50 þátttakendur tóku virkan þátt í námskeiðinu og áhugi á viðfangsefninu var mikill. Breiður hópur frá Reykjavíkurborg og Veitum auk fulltrúa frá Umhverfisstofnun, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skipulagsstofnun og Vegagerðinni sat námskeiðin.
Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds og Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum ávörpuðu námskeiðið. Þau sögðu frá samstarfi Reykjavíkurborgar og Veitna til að tryggja farsæla innleiðingu blágræna ofanvatnslausna og frá samstarfi Reykjavíkurborgar og Veitna til að tryggja farsæla innleiðingu. Þau sögðu einnig frá margþættum ávinningi og verkefnum sem verið væri að vinna að, s.s. leiðbeiningar um innleiðingu, rýni á lög og reglugerðir o.fl. Námskeiðið er þáttur í þessari þekkingaruppbyggingu. Framhaldsnámskeið er fyrirhugað í apríl.
Ávinningur þess að virkja BGO er margþættur, til dæmis verður minna álag á fráveitukerfi, lægri stofn- og rekstrarkostnaður þeirra, hreinna regnvatn-, ár og lækir, heilbrigðara og gróðurríkara umhverfi, aukinn líffræðilegur fjölbreytileiki og aukin seigla borgarinnar gagnvart loftslagsbreytingum.
Mikilvægur þáttur í þessu ferli felst í því að byggja upp almenna þekkingu á blágrænum ofanvatnslausnum hjá fagfólki og stofnunum almennt, en þó ekki síst hjá almenningi og kjörnum fulltrúum sem þurfa að standa skil á þeim breytingum sem verða með þessari nýju nálgun.
Lykillinn að því að taka upp blágrænar ofanvatnslausnir er þverfaglegt samstarf í skipulags-, fráveitu- og umhverfismálum, með aðkomu þeirra sem sjá um græn svæði og með góðri samvinnu við íbúa. Þátttaka annarra stofnana, rannsóknarsamfélags og sérfræðinga er sömuleiðis afar mikilvæg í þessu metnaðarfulla verkefni.