Vind-, sólarorka – Gas, kol, olía

Heimild: 

.

Maí 2011

„Vinderne har en plan. Taberne har en forklaring“

vestas_turbines-on-ground.jpg

vestas_turbines-on-ground – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Undanfarin misseri hafa verið svolítið undarleg hjá fyrirtækjum í endurnýjanlega orkugeiranum. Þrátt fyrir miklar hækkanir á olíuverði hefur hlutabréfaverð í fyrirtækjum sem starfa í græna orkugeiranum nefnilega lítið braggast.

Þessi fyrirtæki upplifðu flest gríðarlegan uppgang á árunum 2006-2008, þegar olíuverð æddi upp og endurnýjanleg orka varð sífellt samkeppnishæfari gagnvart kolvetnisorkunni. Þegar svo olíuverð tók að snarlækka upp úr miðju ári 2008, gerðist það sama með hlutabréfaverð í grænu orkunni. Verð á hlutabréfum í flestum orkufyrirtækjunum og tæknifyrirtækjum sem sinna endurnýjanlega orkugeiranum féll eins og steinn.

coal-oil-price_2002-2011.png

coal-oil-price_2002-2011

Nú hefur olíuverð hækkað gríðarlega mikið á ný. En þessar hækkanir eru ekki að skila sér eins vel í endurnýjanlega orkugeirann, eins og gerðist í góðærinu fyrir lánsfjárkreppuna ógurlegu.

Hvað veldur því að sagan frá 2006-08 endurtekur sig ekki núna? Af hverju blæs hátt olíuverð nú um stundir ekki upp gengi fyrirtækja í græna orkugeiranum? Eflaust er mörg og mismunandi svör við því. Í reynd eru vind- og sólarorkuver t.a.m. ekki í beinni samkeppni við olíu og njóta því ekki sjálfkrafa hækkandi olíuverðs.

dong-vind-kul.png

dong-vind-kul

Endurnýjanlega raforkan keppir miklu frekar við gas og kol. Verð á gasi hefur verið fremur lágt t.d. í Bandaríkjunum, vegna aukinnar gasvinnslu þar í landi. Það gæti verið ein skýring á því að gengi vind- og sólarorkufyrirtækja er hálf slappt þessa dagana, þrátt fyrir hátt olíuverð.

En öfugt við gas, þá hefur kolaverð að mestu haldist í hendur við þróun olíuverðs undanfarið (eins og t.d. sést á grafinu hér ofar í færslunni). Þess vegna er verð á kolum til kolaorkuvera barrrasta ansið hátt í dollurum talið nú um stundir – og kolin meira að segja líka talsvert dýr í öðrum gjaldmiðlum. Og flestir virðast gera ráð fyrir því að kolaverð eigi eftir að hækka ennþá meira á næstunni. M.a. vegna minnkandi áhuga á kjarnorku vegna kjarnorkuslyssins í Japan.

world-energy-and-electricity-mix-2010.gif

world-energy-and-electricity-mix

Kol eru vel að merkja mikilvægasti raforkugjafi heimsins (hlutfall kolanna í raforkukökunni er næstum 40%). Þess vegna væri eðlilegt að hækkandi kolaverð undanfarin misseri hefði haft jákvæð áhrif á t.d. fyrirtæki í sólar- og vindorku. En þessi tengsl sjást ekki á mörkuðunum í dag. Þvert á móti hafa flest þessara skærgrænu fyrirtækja í besta falli staðið í stað – og sum lækkað eða jafnvel hrunið í verði!

Hátt verð á bæði olíu og kolum er sem sagt ekki að virka sem „bensín“ á hlutabréfaverð fyrirtækja sem starfa í endurnýjanlega raforkugeiranum. Tökum danska Vestas sem dæmi. Vestas er stærsti framleiðandi heims á vindtúrbínum og vindrafstöðvum. Þegar Orkubloggarinn starfaði í Köben og var síðar í MBA-námi við CBS á árunum 2006-2008, brostu hlutabréfaeigendur í Vestas út að eyrum. Hlutabréfin í Vestas hreinlega æddu upp samhliða hækkandi olíuverði (og hækkandi verði á kolum).

ditlev-engel-vestas-1.jpg

ditlev-engel-vestas

Forstjóri Vestas, Ditlev Engel, kom í skólann í Dalgas Have á Friðriksberginu góða og flutti erindi fyrir troðfullum sal um það hversu mikil snilld Vestas væri. Og ef satt skal segja, þá sprengdi Engel þar alla mælikvarða um bæði sjálfsöryggi og sjálfsálit.

Meira að segja Kaupþingsforstjórinn Hreiðar Már Sigurðsson bliknaði í samanburði. En hann hafði skömmu áður líka komið í CBS. Og messaði þar yfir MBA-nemendum um það hversu Kaupþing væri miklu betur rekin banki en allir aðrir bankar heimsins. Obbosí.

vestas-stock_2006-2011.png

vestas-stock_2006-2011

Þegar þarna var komið við sögu og nemendur og kennarar í CBS meðtóku speki Engel's, var hlutabréfaverð Vestas komið vel yfir 650 DKK. Góður kunningi Orkubloggarans sem lengi hafði starfað hjá Enron, grét á öxl bloggarans vegna þess að hann hafði selt Vestas-bréfin sín þegar þau fóru yfir 500 DKK einungis nokkrum vikum áður. Nú stefndu þau beint í 700 DKK.

Já – þarna um vorið 2008 var sem hlutabréfin í Vestas væru einfaldlega óstöðvandi. Og sumir ofursvekktir að hafa ekki gerst loooong. „I cry if I want to…“. Þessi þaulreyndi verðbréfabraskari virtist sem sagt alveg hafa gleymt því að ekki þýðir að súta það að hafa ekki náð að selja í toppi – né að hafa ekki keypt í botni! Þar að auki hafði hann í reynd stórgrætt á Vestas-bréfunum. En mikið vill meira!

vestas-engel-selvsikker.jpg

vestas-engel-selvsikker

Það magnaða er, að nú um stundir er bæði olíu- og kolaverð einmitt svipað eins og var þarna um vorið 2008. En hlutabréfin í Vestas eru samt langt í frá að vera í 500 eða 650 eða 700 DKK. Þau eru þvert á móti djúpt ofaní ræsinu. Ná vart að slefa yfir 150 DKK!

Þetta er eiginlega barrrasta alveg ótrúlegt. Bæði kol og olía mæla  með því að hlutabréfaverð Vestas núna ætti að vera svipað eins og var umrætt vor. Að vísu hefur Vestas átt í erfiðleikum með að halda markaðsprósentu sinni í vindorkuiðnaðinum. Það er auðvitað mínus. Engu að síður hefur verið nokkuð góður gangur hjá þeim Ditlev Engel og félögum og fyrirtækið verið að raða inn stórum pöntunum. Samt hafa hlutabréfin í Vestas farið stöðugt lækkandi.

alternatve_energy_etf_gex_2007-2011.png

alternatve_energy_etf_gex_2007-2011

Það virðist einfaldlega sem að bólan í endurnýjanlegu orkunni hafi sprungið með meiri hvelli og skilið eftir sig stærra gat á grænu blöðrunni heldur en gerðist hjá svörtu olíu- og kolaverðbólunum þegar þær fretauðu árið 2008. Sumir vilja reyndar halda því fram að olía hafi hækkað svo mikið á ný, af því við séum að lenda í peak-oil ástandi. Framboðið nái ekki lengur að standa undir eftirspurninni. Þess vegna sé olíumarkaðurinn dúndrandi seljendamarkaður nú um stundir – enda sé olían svo gott sem að verða búin! Eftirspurn eftir kolum sé líka óvenju mikil nú um stundir vegna efnahagsuppgangsins í Asíu. Aftur á móti sé nóg af sól og vindi og jafnvel orðið alltof mikið af fyrirtækjum í framleiðslu á sólarsellum og vindtúrbínum.

cartoon-bail-out-next-bubble.jpg

cartoon-bail-out-next-bubble

Þessa skýringu kaupir Orkubloggarinn ekki. Hluti af ástæðunni fyrir því að bæði olíu- og kolaverð hefur náð sér hraðar á strik heldur en endurnýjanlegi orkugeirinn, er miklu frekar lækkandi gengi dollars og hreint geggjuð spákaupmennska í hrávörubransanum.

Önnur veigamikil skýring á erfiðleikum Vestas er vafalítið sú, að græni orkugeirinn er engan veginn í jafn miklum pólítískum meðbyr núna, eins og var t.d. tímabilið 2006-2008. Í stað þess að lofa sífellt meiri styrkjum til grænnar orkuframleiðslu, standa stjórnmálamennirnir núna sveittir við að bjarga gjörspilltu bankakerfi Evrópu og víðar. Í því umhverfi er endurnýjanleg orka eðlilega í öldudal.

Glötuð staða Vestas nú um stundir er bein afleiðing af öllu þessu. Fjárfestar álíta mikla óvissu uppi um þróun græna orkugeirans og setja hlutabréfapeningana sína frekar í öruggara skjól. Eins og t.d. í lyfjafyrirtæki – eða bara í öryggi ruslfæðisins hjá McDonalds eða Coca Cola.

vestas-vinderen.jpg

vestas-vinderen

Fyrir vikið þurfa Vestas og mörg önnur sambærileg fyrirtæki að horfast í augu við skelfilegan raunveruleikann. Sem er jú sá að bæði vind- og sólarorka er einfaldlega miklu dýrari heldur en t.d. gas- eða kolaorka. Þegar fjárfestar treysta sér ekki (a.m.k. í bili) að veðja í stórum stíl á bjarta framtíð vindorkunnar og stjórnmálamennirnir hafa um annað að hugsa en að tala upp græna orku, er voðinn vís fyrir Vestas og vini þeirra.

Kannski er þetta samt ekkert áhyggjuefni. Því Ditlev Engel hefur lengi þótt einhver allra færasti stjórnandinn í Danmörku. Og ekki síður kokhraustur. Eða eins og hann segir sjálfur: „Vinderne har en plan. Taberne har en forklaring.“ Það var og. Orkubloggarinn ætti líklega að hætta að leita eftir forklaringer á slöku gengi Vestas. Og frekar hugsa um planið framundan! Því öll viljum við jú vera vindere men ikke tabere – ikke sandt?

En jafnvel mikil eftirspurn frá Kína eftir nýjum vindtúrbínum hefur ekki náð að gera líf Vestas bærilegt undanfarið. Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu er meira að segja orðið svo lágt, að í loftinu er sívaxandi lykt af tækifæri til yfirtöku á Vestas. Sumir segja það bara vera tímaspursmál hvenær þetta græna orkustolt Dana verður komið í eigu útlendinga.

goldwind-china-website-2.jpg

goldwind-china-website

Kannski yrði það þýska Siemens Wind eða bandaríska GE Wind (dótturfélag hins fornfræga General Electric)? Eða kannski bara kínverska Goldwind; vindorkufyrirtækið magnaða, sem hefur vaxið með nánast ævintýralega miklum hraða undanfarin ár og ætlar sér ennþá stærri hluti. Það sem er stórt á kínverskan mælikvarða, hlýtur að vera mjög stórt í lille Danmark. Kínverjar keyptu einmitt nýverið norska Elkem. Verður kannski danska Vestas næsti biti Kínverjanna á Norðurlöndunum?

Fleira áhugavert: