Sádí Arabía – 37 afhausaðir, 1 krossfestur
.
Apríl 2019
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu sæta harðri gagnrýni í dag fyrir 37 aftökur sem fram fóru á sex stöðum í ríkinu í gær. Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, Michelle Bachelet, er á meðal þeirra sem fordæmt hafa verknaðinn og segir hún það „sérstaklega viðurstyggilegt“ að á meðal þeirra sem urðu höfðinu styttri í gær hafi verið að minnsta kosti þrír sem enn voru á barnsaldri er þeir hlutu dóm.
Mennirnir 37 voru hálshöggnir, að líkindum með beittri sveðju eins og venja er í ríkinu, á grundvelli hryðjuverkalaga. Flestir eiga þeir það sameiginlegt að hafa verið sjíta-múslimar, sem eru í minnihluta í olíuríkinu. Þrátt fyrir að engar opinberar tölur séu til um það, er talið að 10-15% af 32 milljónum íbúa í Sádi-Arabíu séu sjítar.
Einn krossfestur
Sádi-arabíska fréttastofan SPA greindi frá því að einn mannanna hefði verið krossfestur eftir að hann var tekinn af lífi, en þá refsingu hljóta þeir sem framið hafa sérstaklega alvarlega glæpi í Sádi-Arabíu.
Evrópusambandið hefur lýst yfir vanþóknun á aftökunum og segir Maja Kocijancic, talsmaður ESB, að það að meirihluti þeirra sem teknir voru af lífi í sex borgum víðs vegar um landið í gær séu sjítar, gæti kynt enn frekar undir trúarátökum í arabaheiminum.
Falsréttarhöld og játningar með pyntingum
Human Rights Watch segir að sakfellingarnar mannanna hafi verið byggðar á „ósanngjörnum“ fjöldaréttarhöldum og á játningum, sem hafi verið náð fram með pyntingum. Í sama streng tekur Amnesty International og kalla réttarhöld mannanna „sýndarréttarhöld“ í yfirlýsingu sinni.
Amnesty segir að 11 þeirra sem hafi verið hálshöggnir í gær hafi verið dæmdir fyrir að njósna fyrir óvini Sádi-Araba í Íran og að minnsta kosti 14 hafi tapað lífi sínu fyrir að taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum í austurhluta ríkisins á árunum 2011 og 2012.
Einn þeirra sem var hálshöggvinn í gær hét Abdulkareem al-Hawaj og var hann einungis 16 ára gamall er hann var upprunalega handtekinn, að sögn Amnesty.
Þessar aftökur Sáda í gær voru þær umfangsmestu í ríkinu frá því í janúar árið 2016, en þá voru alls 47 teknir af lífi á einum og sama deginum. Samkvæmt tölum frá SPA-fréttastofunni sem AFP vísar til, hafa að minnsta kosti 100 manns verið tekin af lífi í ríkinu það sem af er ári.
Sádar sitja í mannréttindaráði SÞ
Sádi-Arabía situr í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland varð aðili að síðasta sumar eftir að Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu. Þar sitja 45 ríki til viðbótar. Ísland leiddi í mars síðastliðnum hóp 36 ríkja í gagnrýni á stöðu mannréttindamála í Sádi-Arabíu.