Byggingakostnaður – Er hægt að lækka hann?

Heimild: 

 

Júní 1998

Er hægt að lækka byggingarkostnað hérlendis?

Umræða um hvort hægt sé að lækka byggingarkostnað fyrirfinnst ekki hér á landi nú.

FÁTT hefur jafn afgerandi áhrif á lífsafkomu hvers Íslendings og það stórvirki að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er þeim mun furðulegra að umræða um byggingakostnað og hvort mögulegt sé að lækka hann fyrirfinnst alls ekki, að minnsta kost ekki síðustu árin.

Er ekki kominn tími til að hefja þá umræðu af fullri alvöru?

Núverandi félagsmálaráðherra hefur fengið því framgengt að sett hafa verið ýmis ný eða breytt lög á Alþingi, sem eru til þess gerð að stýra byggingamálum þjóðarinnar og fjármögnun þeirra. Það hefur ábyggilega ekki farið fram hjá neinum, svo mikill hefur hvellurinn verið í umræðum á þingi.

Það er ekki ætlunin hér að dæma þessi nýju lög, en eitt skal fullyrt; margt í fyrri lögum var sér til húðar gengið og full þörf á breytingum, ekki síst í hinu svokallaða félagslega kerfi, sem eftir fyrri lögum er handónýtt.

Það þykir ekki góð latína nú til dags að taka sér Svía til fyrirmyndar hérlendis, en það ætti að vera óhætt að segja frá byltingakenndum hugmyndum þarlends manns að nafni Hákon Birke og er byggingameistari.

Og hvað hefur þessi Hákon svo sem sér til ágætis unnið?

Lofar 40% lækkun byggingakostnaðar

Já, fyrr má nú rota en dauðrota, hérlendis mundu menn þiggja þau ráð sem Hákon gefur og ef þau eru haldbær, jafnvel þó ávinningurinn yrði ekki svo frábær.

Þetta byrjaði með því að Hákon fór að skoða þróunina í tveimur framleiðslugreinum síðustu áratugina og komst að þessum niðurstöðum.

„Bílar eru álíka dýrir í dag (1997) og þeir voru 1970. Framleiðslutími þeirra er 90% styttri nú en þá, en samt fær kaupandinn betri bíl. Þróunin í rafeindatækjum, svo sem tölvum, sjónvörpum og farsímum, er þó miklu stórstígari.

En í byggingaiðnaðinum, nema kannske í lögnum, hefur nánast engin þróun verið síðustu 25 árin. Þó hefur byggingakostnaður aukist um 50% og byggingatíminn um 15 til 20%.“

Þannig byrjaði sú þróun sem Hákon stýrir og hvernig ætlar hann að lækka byggingakostnað án þess að gæðin rýrni?

Margir samverkandi þættir

Hákon byrjaði á því að fara í smiðju til eins þekktasta bílaframleiðanda í heimi, Toyota, en þar á bæ höfðu menn þróað kerfi sem þeir kölluðu á ensku „lean production“ og á sama tungumáli kallar hann sitt kerfi „lean construction“ og verður ekki reynt að íslenska þessi hugtök hér.

Hugmyndin byggist einkum á tvennu; að undirbúningur og hönnun sé svo vönduð að engum tíma þurfi að eyða í leiðréttingar og endurvinnu og að allir byggingahlutar komi sem mest unnir á byggingastað.

Hvað undirbúning varðar telur Hákon mjög mikilvægt að allir verktakar, bæði aðalverktaki sem undirverktakar, komi strax að verkefninu. Hann tekur dæmi af hönnun lagnakerfa og telur að strax í byrjun verði lagnaverktakinn að vinna með hönnuði, það geti sparað ótrúlegar upphæðir í leiðréttingum og endurlögnum síðar. Líti nú lagnamenn hérlendis í eigin barm, skyldi ekki vera nokkuð til í þessu?

Þá er ekki síður mikilvægt að allir hönnuðir og verktakar vinni náið saman og leysi málin þar sem árekstrar verða milli iðngreina áður en þeir verða, þarna eru miklar fjárhæðir.

Hákon tekur lagnir sem dæmi um forunna byggingahluta, lagnastokkar fyrir baðhergi eru framleiddir á verkstæði við bestu skilyrði, jafnvel heilu baðherbergin, þassi aðferð er notuð hvarvetna í byggingunni, ekki aðeins í við lagnir.

Þetta gengi tæplega hérlendis vegna arfavitlausrar reglugerðar um endurgreiðslu 60% af virðisaukaskatti af greiðslum fyrir vinnu. Ef hluturinn er ekki framleiddur á byggingastað þá fæst engin endurgreiðsla.

En er auðveldara að lækka byggingakostnað hérlendis en í Svíþjóð, er byggingakostnaður meiri þar en hér?

Samkvæmt tölum frá 1996 var meðaltalskostnaður við byggingu íbúðarhúsa þarlendis um 112.000 kr. ísl. á fermetra og heildar byggingakostnaður meðalstórrar íbúðar í blokk 8.750.000 kr. ísl.

Nánar er ekki hægt að lýsa aðferðum hins sænska byggingameistara í stuttum pistli, en hann og félagar hans hafa unnið samkvæmt sínum áætlunum í 3 ár. Það væri vel þess virði að kynna sér nánar hvernig til hefur tekist; hefur byggingakostnaður þeirra lækkað um 40% í nýbyggingum og 30% í endurbyggingum eins og þeir lofuðu?

En hérlendis geta sumir tekið feil á orðum og hugtökum eins og varð með emu og Emmu hina dönsku, vonandi breytist hugtakið „lean production“ ekki í Lenu Pálsdóttur starfandi gleðigjafa í miðborg Stokkhólms.

HUGMYNDIR Hákons Birke birtast fyrst á töflunni, bak við hann sést gömul Toyota og öxlar sem sýna kostnaðarþróun í bygginga-, bíla-, og rafeindaiðnaði.

Fleira áhugavert: