Pípari kærir prinsessu – Ofbeldi, skilorð

Heimild:

.

Hassa bint Sal­man

September 2019

Hassa bint Sal­man, prinsessan af Sádí-Arabíu og eldri systir krón­prinsins og vald­hafans Mohammed bin Sal­man, hefur fengið tíu mánaða skil­orðs­bundinn dóm fyrir of­beldi gegn pípara í Parísar­borg, að því er fram kemur á vef BBC.

Hún er sökuð um að hafa skipað líf­verði sínum að lemja píparann, sem hún taldi hafa tekið myndir á heimili sínu. Píparinn sem heitir Ashraf Eid, segir að líf­vörðurinn hafi bundið sig og neytt sig til að kyssa fætur prinsessunnar. Segir píparinn að sér hafi verið haldið í nokkrar klukku­stundir í í­búðinni. At­vikið átti sér stað árið 2016.

Málið var tekið fyrir í frönskum dóm­stól í dag en prinsessan mætti ekki til réttar­haldanna. Al­þjóð­leg hand­töku­skipun var gerð út á hendur prinsessunni en dóm­stóllinn dæmdi hana fyrir að vera sam­sek um of­beldi með vopni og mann­ráni.

Henni hefur verið gert að greiða tíu þúsund evrur í skaða­bætur en prinsessan hefur á­vallt neitað sök. Þá var líf­verðinum, sem heitir Rani Saidi, dæmdur í átta mánaða skil­orðs­bundið fangelsi og gert að greiða fimm þúsund evrur í skaða­bætur.

Saidi sagði dóm­stólnum í júlí síðast­liðnum að hann hefði einungis verið að vinna sína vinnu. Prinsessan hafi kallað á hjálp og hann hafi hlaupið inn í her­bergið, þar sem hann hafi séð hana og píparann, þar sem hann hélt á síma sínum.

„Ég greip hann og yfir­bugaði hann. Ég vissi ekki hvað hann var að reyna,“ sagði líf­vörðurinn. Hassa yfir­gaf Frakk­land skömmu eftir at­vikið og eftir að hand­töku­skipunin var gerð á hendur hennar í mars 2018 hélt hún sig í Sádí-Arabíu.

Fleira áhugavert: