Framtíð orkugeirans í gasi

Heimild: 

.

September 2011

Forleikur að framtíðinni

Gasfélagið Shell? Já – það er freistandi að hætta alveg að kalla risaorkufyrirtækið Shell olíufélag. Það er nefnilega að verða miklu meira viðeigandi að nefna það gasfélag.

peter-voser-shell-3.jpgFjárfestingar Shell í gasiðnaðinum síðustu árin hafa verið rosalegar. Stjórnendur Shell virðast fullvissir um að núna á 21. öldinni muni jarðgas verða bæði eftirsóttasti og hagkvæmasti orkugjafi heimsins. Þróun Shell ber þessari skoðun glöggt vitni. Árið 2003 nam gasið um 35% af kolvetnisframleiðslu fyrirtækisins, en nú er þetta hlutfall orðið 50% og stefnir hraðbyri í 55%-60%. Enda er það svo að hvenær sem maður heyrir í Peter Voser, hinum nýja forstjóra Shell, er hann a boða fagnaðarerindið: Að framtíð orkugeirans liggi í gasi.

Orkubloggið hefur áður sagt frá risaframkvæmdum Shell við Perluverksmiðjuna í Katar. Þar sem fyrirtækið er að ljúka við að reisa stærstu vinnslustöð heims á flótandi gasi (Liqufied Natural Gas Plant eða LNG). Stór tankskip sigla svo langar leiðir með gasið til kaupendanna, en mikið af gasinu frá Perluverksmiðjunni hefur verið selt til hins orkuþyrsta Japan.

shell-floating-lng-plant-size.jpgOg það er skammt stórra högga á milli í gasveðmálinu magnaða hjá Shell. Þar á bæ hafa menn um nokkurt skeið unnið að fullum krafti að enn einu gasverkefninu; verkefni sem gæti markað ekkert minna en tímamót í orkugeiranum. Það risaverkefni snýst einnig um LNG og felst í að byggja fyrstu fljótandi LNG-vinnslustöð heims. Sem yrði hvorki meira né minna en stærsta fljótandi mannvirki veraldar!

Vandamálið við gas er flutningurinn. Fram til þessa hefur gasinu að stærstu leyti verið komið af vinnslusvæðum og til notenda, með því að dæla því eftir gasleiðslum. Þess vegna liggja t.d. gaslagnir þvers og kruss eftir botni Norðursjávar, eins og sagt var frá í síðustu færslu Orkubloggsins. Og að sjálsögðu eru slíkar leiðslur út um allt á ýmsum þéttbýlissvæðum sem liggja í nágrenni við gaslindir. Nærtæk dæmi eru bæði stórir hlutar Evrópu og Bandaríkjanna.

Gasvinnsla á mjög afskekktum svæðum þótti aftur á móti lengi lítt eftirsóknarverð. M.ö.o. þá hafa gaslindir sem finna má á á útkjálkum, fjarri mörkuðum, þótt óhagkvæmar til vinnslu vegna mikillar fjarlægðar frá notendunum. En svo gerðist það með hækkandi orkuverði að hagkvæmt varð að byggja sérstakar vinnslustöðvar þar sem gasinu er umbreytt í fljótandi form. Fljótandi gasið (LNG) er svo sett á sérstök tankskip og siglt með það langar leiðir til kaupendanna (myndin af skipinu hér að neðan er einmitt af svona LNG-flutningaskipi með sérhannaða kælitanka fyrir fljótandi gasið).

LNG-ship-black-2Til að breyta gasi úr loftkenndu í fljótandi form þarf að kæla það mikið eða niður í um -162°C. Að rúmmáli er fljótandi gas einungis um 1/600 þess sem það er í loftkenndu formi. Þegar sérhönnuð tankskip hafa flutt fljótandi gasið á áfangastað er því svo aftur breytt í lofttegund og komið í lagnir dreifikerfisins á viðkomandi stað, sem bera gasið áfram síðasta spottann til notendanna.

Í orkuþyrstum heimi hefur eftirspurn eftir þessu fljótandi gasi verið að aukast hratt. Stærstu kaupendurnir að LNG eru fjölmenn en orkuauðlindasnauð lönd í Asíu – eins og Japan, S-Kórea og Taívan. Á síðustu árum hafa mörg fleiri lönd bæst í þennan hóp og t.a.m. eru Spánn, Frakkland, Ítalía og fleiri Evrópulönd orðnir stórir kaupendur að LNG.

Til framtíðar munu öll þessi lönd og fjöldi annarra þurfa sífellt meiri innflutta orku – og þá mun valið hjá mörgum fyrst og fremst standa á milli kola eða LNG. Hér skiptir miklu að árið 2007 varð gasnotkun Kínverja í fyrsta sinn meiri en sem nam framleiðslu þeirra. Kínverjar sjá fram á að verða risainnflytjendur að gasi. Þess vegna hafa þeir síðustu árin verið að reisa gríðarlega mikla og langa gaslögn, sem tengir Kína við gaslindir í ríkjum Mið-Asíu (löndin sem liggja milli Kína og Kaspíahafsins; Kazakhstan, Uzbekistan og Turkmenistan). En Kína horfir einnig til þess að flytja inn mikið af LNG. Og það er ekki síst þess vegna sem LNG-iðnaðurinn mun nær örugglega vaxa með æpandi hraða á næstu árum og áratugum.

lng-qatargas.jpgÞað er ekki hlaupið að því að skaffa meira LNG. Til þess þarf mikinn undirbúning og þetta eru einhverjar dýrustu framkvæmdir í gjörvöllum orkugeiranum. En aukin eftirspurn hefur leitt til þess að æ fleiri LNG-vinnslustöðvar hafa verið reistar – og það á sífellt afskekktari slóðum. Eitt dæmi um slíka fjarlæga LNG-vinnslustöð í nágrenni við okkur hér á Klakanum góða má nú sjá á eyjunni Melköja skammt utan við Hammerfest, norðarlega í Noregi (sbr. myndin hér að neðan). Þar er gasi frá Mjallhvítarlindunum norður í Barentshafiumbreytt í fljótandi gas. Sem svo er siglt með í sérhönnuðum LNG-tankskipum til landa eins og Spánar og Bandaríkjanna.

norway-lng-plant-3.jpgSem fyrr segir, þá kallar þessi LNG-iðnaður á mjög miklar fjárfestingar. Ekki aðeins í sjálfri gasvinnslunni heldur einnig í LNG-vinnslustöðinni þar sem gasið er kælt og geymt, ásamt tilheyrandi hafnaraðstöðu og sérhönnuðum flutningaskipum. Á mjög fjarlægum slóðum þar sem náttúrulegar eða pólítískar aðstæður þykja óheppilegar eða nauðsynlegir lágmarksinnviðir eru einfaldlega ekki til staðar, hefur gasvinnsla af þessu tagi þótt vera ómögulegur kostur. Fyrir vikið hafa ýmis álitleg gasvinnslusvæði, t.d. undir landgrunninu út af Ástralíu, Afríku, norður af Rússlandi og víðar ekki komið til álita sem orkuvinnslusvæði.

Nýlega gerðist það svo –  eftir fimmtán ára þrotlausar rannsóknir – að þau hjá Shell sannfærðust um að þau væru komin niður á réttu lausnina. Lausn sem opna muni aðgang að nýjum gasvinnslusvæðum langt úti á landgrunninu, jafnvel á nokkrum afskekktustu stöðum jarðar. Lausnin felst í því að vera „einfaldlega“ með risavaxna hátæknikæliskápa LNG-tækninnar á staðnum – úti á sjó! Þ.e. vera með fljótandi LNG-vinnslustöð á staðnum og breyta þar gasinu í fljótandi form jafnóðum og það kemur upp úr djúpinu. Þaðan yrði svo fljótandi gasinu dælt um borð í LNG-tankskip og siglt með herlegheitin til kaupendanna, oft í fjarlægum löndum. Þá þarf ekki lengur að pæla í vinnslustöð í landi. Þess í stað fer gasið beint í fljótandi LNG-vinnslustöð þegar það kemur upp úr djúpi landgrunnsins.

shell-prelude-flng-project-a.jpgÞað sem Shell ætlar að gera er að byggja slíka fljótandi LNG-stöð. Þ.e. reisa heilt iðjuver um borð í sérhönnuðu hátækniskipi sem verður við akkeri í nágrenni gaslindarinnar. Þetta verður stærsta fljótandi skip eða mannvirki sem nokkru sinni hefur verið byggt. Það verður nærri 500 m langt. Væri það reist upp á rönd yrði það á stærð við suma af hæstu turnum heimsins. T.a.m. næstum 50% lengra en sem nemur hæð Empire State í New York, sem er viðmiðun sem margir Íslendingar þekkja.

Heitið sem þessi nýja tækni eða útfærsla á LNG-vinnslustöð hefur fengið er Floating Liqufied Natural Gas Facility og er jafnan skammstafað FLNG. Þetta ofurskip – fljótandi LNG-vinnslustöð – mun liggja bundið við fjölmörg risaakkeri í næsta nágrenni við gaslindirnar. Skipið þarf að geta þolað ægilegustu hitabeltisstorma og mestu fárviðri sem þekkjast – og það ekki bara í örfá ár því líftíminn er áætlaður aldarfjórðungur.

shell-prelude-flng-map-2.pngFyrsti staðurinn sem þau hjá Shell horfa til fyrir FLNG eru gaslindir í landgrunninu út af strjálbýlu og steikjandi heitu NV-horni Ástralíu. Þarna hafa fundist gríðarmikið gas djúpt undir hafsbotninum um 110 sjómílur utan við ströndina. Næsta byggða ból er strandbærinn Broome, sem er afskekktur en vinsæll ferðamannastaður á einhverjum eyðilegustu ströndum Ástralíu.

Þessi sérkennilega rauðgula auðn geymir frásagnir af skipssköðum og hroðalegum atburðum eins og morðunum í kjölfar strands Batavia á jómfrúarferð sinni til Austur-Indía hér um árið. Í nútímanum hafa skurðgröfur og ofurtrukkar námufyrirtækjanna haldið innreið sína í auðnina til að nýta miklar kola- og málmaauðlindir – og nú eru það orkuauðlindir langrunnsins sem þykja ekki síður spennandi.

Rio-Tinto-truck-PilbaraÁstralía hefur lengi verið langstærsti útflytjandi heims á kolum – og nú eru horfur á að útflutningur þeirra á gasi fari hratt vaxandi. Áströlsku kolaskipin sigla flest til Japan, en ekki er ólíklegt að það verði Kína sem vilji fá mikið af ástralska gasinu. Ástralía er sem sagt ekki bara að breytast í stærstu námu veraldar, heldur gæti landgrunn áströlsku ljúflinganna líka orðið ein helsta orkuuppspretta Asíuríkjanna. Já – það virðist sem ástralska orku- og hrávöruævinýrið sé bara rétt að byrja.

Það var í maí s.l. (2011) að yfirstjórn Shell tók formlega ákvörðun um að ráðast í þetta lauflétta 12 milljarða dollara verkefni á landgrunninu utan við sólbakaðar strendur NV-Ástralíu. Þar af mun sjálft FLNG-skipið kosta um 5 milljarða USD – sem er t.a.m. talsvert meira en stærstu, tæknivæddustu og dýrustu flugmóðurskipin í bandaríska flotanum. Verkefnið hefur hlotið heitið  Prelude eða Forleikur.  Allt snýst þetta um trú Shell á að eftirspurn eftir LNG muni vaxa mikið og hratt. Samkvæmt áætlunum Shell á þessi fjárfestingin að skila fyrirtækinu dúndrandi arði og vonin er að þetta útspil geri Shell meira spennandi en flest ef ekki öll önnur risafélögin í orkubransanum.

shell-flng-diagram-1.jpgÞessi fyrsta FLNG-vinnslustöð heims verður byggð í skipasmíðastöðvum Samsung í Kóreu (Samsung er vel að merkja næststærsta skipasmíðafyrirtæki veraldarinnar og hlýtur að vera gaman fyrir þá að fá að smíða þetta risaskip). Apparatið á að vera tilbúið 2016 og komið á vinnslusvæðið út af Ástralíu ári síðar.

Nýja FLNG-tæknin gæti haft mikil áhrif í orkugeiranum. Í því sambandi er athyglisvert að árið 2008 voru birtar niðurstöður áströlsku rannsókna- og vísindastofnunarinnar CSIRO um gas í landgrunni Ástraliu (CSRIO er skammstöfun á Commonwealth Scientific and Industrial Research Organisation). Í stuttu máli þá var niðurstaða CSIRO sú, að gríðarlegt magn af gasi væri að finna undir ástralska hafsbotninum. En því miður væri stærstur hluti þess svo utarlega og fjarri öllum innviðum landsins að m.v. núverandi tækni yrði það aldrei unnið. Nú einungis þremur árum síðar er þessi sviðsmynd mögulega gjörbreytt – vegna Prelude þeirra hjá Shell. Skemmtilegt.

shell-prelude-flng-map-1.jpgMargir eru spenntir fyrir þessum makalausu áætlunum Shell. Sérstaklega virðast ríkin í SA-Asíu áhugasöm, enda eru þau stærstu orkumarkaðirnir í nágrenni Prelude. Nú hafa t.a.m. bæði Singapore og Thaíland byrjað að reisa sínar fyrstu viðtökustöðvar fyrir LNG. Og fleiri ríki í Asíu hafa líka uppi slíkar áætlanir. Enda sjá þessi lönd fram á vaxandi þörf á betri og meiri aðgangi að orku – og þar er LNG að verða einhver áhugaverðasti kosturinn.

Ýmis önnur af helstu orkufyrirtækjum heimsins eru farin að trúa því að Shell hafi þarna veðjað á réttan hest – og eru einnig farin að spá í að eignast svona glæsilegar FLNG-vinnslustöðvar. Af stóru bandarísku olíufélögunum virðist sem Chevron sé þar fremst í flokki, en ExxonMobil er skammt undan. Það lítur reyndar orðið út fyrir að flest stærstu alþjóðlegu olíufélögin ætli að feta í fótspor Shell og veðja í auknum mæli á gasið sem orkugjafa framtíðarinnar.

australia-broome-coast-2.jpgShell gælir við að svæðin út af NV- og N-Ástraliu geti staðið undir allt að tíu svona risastórum fljótandi gasvinnslustöðvum! Og haldi menn að þetta sé bara eitthvert bjartýnisbull hjá Skeljungunum, er t.d. vert að hafa í huga að Norsararnir glöggu hjá norska orkuráðgjafafyrirtækinu Rystad Energi segja að líklega séu um 160 þekkt gasvinnslusvæði í heiminum sem henti prýðilega fyrir FLNG. Og ef framkvæmdir verði í samræmi við áhugann sé líklegt að bullandi FLNG-vinnsla verði byrjuð á öllum þessum svæðum innan einungis eins áratugar!

Þetta þykir Orkubloggaranum reyndar nokkuð brött spá. Engu að síður stefnir nú í einhverja mestu og hröðustu orkufjárfestingu sögunnar þarna úti af eyðilegum ströndum Ástralíu. Það er til marks um gríðarlegt umfangið, að bara á ástralska landgrunninu einu er núna verið að undirbúa ný gasvinnsluverkefni sem alls munu kosta um 200 milljarða USD (þar af er gert ráð fyri að Shell verði með um fjórðung fjárfestingarinnar). Það eru því varla horfur á að hinn ofursterki AUD veikist mikið í bráð (hér má nefna að Orkubloggarinn var nokkra mánuði í Ástralíu þegar Asíukreppan stóð yfir í lok 20. aldar og þá var blessaður Ástralíudollarinn í yndislegum botni, þ.a. Mörlanda leið eins og auðkýfingi þarna Down Under).

shell-logo-2Þessi forleikur Shell á landgrunni Ástralíu kann að vera upphafið að einhverju mesta orkuævintýri 21. aldarinnar og þar með heimssögunnar. Nýjustu fréttir af Shell eru reyndar þær að fyrirtækið sé að landa 16 milljarða dollara gasvinnslusamningi í Írak. Shell er sem sagt „paa fuld gas“ út um allan heim. Það er líka athyglisvert að ef orkuiðnaðurinn þróast í þess átt (þ.e. að LNG verði sífellt stærri hluti hans) mun það sennilega gera stærstu orkufyrirtækin ennþá umsvifameiri í alþjóðlega orkugeiranum en þau eru í dag. Minni orkufyrirtæki munu einfaldlega ekki geta fjármagnað svona risaverkefni og hafa ekki burði til að taka þátt í þessari mögnuðu þróun orkugeirans.

Höfum líka í huga að ef kolvetnisauðlindir finnast á Drekasvæðinu djúpt norðaustur af Íslandi telja margir að þar yrði fyrst og fremst um að ræða gas fremur en olíu. Nýja FLNG-tæknin gæti gert það að verkum að gasinu yrði þá umbreytt í LNG um borð í svona fljótandi vinnslustöð – í stað þess að LNG-verksmiðja yrði reist t.d. við Vopnafjörð eða annars staðar á NA-landi. Þessi tækniþróun á vegum Shell hinumegin á hnettinum kann þannig að snerta okkur Íslendinga með beinum hætti.

DrekiAreaÞað er svolítið sérkennilegt að í ítarlegum gögnum Orkustofnunar um Drekasvæðið er möguleikanum á FLNG nánast hafnað; þ.á m. í skýrslu norska ráðgjafafyrirtækisins Sagex sem unnin var fyrir Orkustofnun og er birt á vef stofnunarinnar. Kannski er Norsurunum hjá Sagex vorkunn að hafa ekki haft neina trú á áætlunum um smíði fljótandi LNG-vinnslustöðva. Staðreyndin er engu að síður sú að þessi tækni verður senn að veruleika. Ef dæla á gasi af Drekanum í LNG-vinnslustöð í landi, þyrftu gasleiðslurnar á hafsbotninum ekki aðeins að vera mjög langar heldur myndu þær þurfa að fara eftir gríðarlegu dýpi (hátt í 2 þúsund metrar). FLNG kynni að henta orkufyrirtækjunum miklu betur fyrir gasvinnslu á Drekasvæðinu, sem mun vera þekkt fyrir þokkalegasta veður og litla ölduhæð.

Þess vegna er óvíst og jafnvel ólíklegt að gaslindir á Drekanum myndu leiða til þess að LNG-vinnslustöð risi á NA-landi. Þetta mun þó væntanlega skýrast betur eftir því sem reynsla kemst á notkun Prelude og annarra FLNG-vinnslustöðva sem nú eru í undirbúningi. Orkubloggið mun að sjálfsögðu fylgjast vel með þróuninni – og þá ekki síst þvi hvað Forleikurinn hjá Shell leiðir af sér

Fleira áhugavert: