Sorpvísitalan – 268 þ. tonn
.
Desember 2018
268 þúsund tonn af úrgangi
Heildarmagn úrgangs sem borist hefur SORPU bs. í ár er talsvert meira heldur en í fyrra og hefur sorpvísitalan trúlega aldrei verið hærri. Á hverju ári frá 2014 hefur heildarmagnið aukist og í ár verður það um 60% meira heldur en það var þá. Útlit er fyrir að alls berist SORPU um 268 þúsund tonn af úrgangi í ár og er það meira en nokkru sinni áður.
Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU bs., segir þessa þróun til vitnis um uppsveiflu í samfélaginu. Árin 2008 og 2017 voru svipuð í heildarmagni með rúmlega 230 þúsund tonn hvort ár og efst í samanburði á magni úrgangs þar til í ár.
Lítil aukning í gráu tunnunum
Athygli vekur að magn úrgangs úr gráum tunnum við heimili stefnir í að aukast einungis um 0,22% á sama tíma og stefnir í 2,5% fjölgun íbúa og ferðamönnum hefur fjölgað. Björn segir eðlilegast að skýra það með aukinni flokkun á sorpi.
„Fólk er greinilega duglegra að flokka en áður og nýtir í auknum mæli þær leiðir sem eru fyrir hendi, til dæmis þjónustu endurvinnslustöðva, grenndargáma og aðra þá þjónustu sem sveitarfélög bjóða upp á. Heimilin eiga því alls ekki stærstan hlut að máli þegar kemur að mikilli aukningu úrgangs,“ segir Björn.