Hólmsárvirkjun við Atley

Heimild: 

.

Setjum Hólmsá í verndarflokk

Holmsa-Atley-2Senn kemur að því að Alþingi taki þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða til meðferðar.Þarna er á ferðinni stefnumótun sú sem jafnan er kölluð Rammaáætlunin. Þar verður ákveðið hvaða virkjunarkostir fara í nýtingarflokk og hverjir fara í verndarflokk. Þar að auki er svo þriðji flokkurinn; biðflokkur, en þar kunna flestir virkjunarkostirnir að lenda og þar með verða skildir eftir galopnir.

Nú vill svo til að Orkubloggarinn er almennt meðmæltur því að nýta fallvötn landsins til orkuframleiðslu. En að um leið beri að vernda fegurstu og sérstæðustu svæðin og árnar, eins og t.d. Jökulsá á Fjöllum. Drög að Rammaáætlun er leiðsögn sem virðist hafa heppnast nokkuð vel – þó svo þar séu fáein atriði sem bloggaranum þykir að betur þurfi að huga að. Bæði er að Orkubloggaranum þykir verndunarsjónarmið í nokkrum tilvikum hafa gengið of langt. Og sömuleiðis hefði í nokkrum öðrum tilfellum mátt láta umhverfisvernd hafa meiri vigt. Í þessari færslu Orkubloggsins verður sjónum beint að einu dæmi um hið síðar nefnda; virkjunarkost sem margvísleg rök mæla með að verði sleginn út af borðinu og svæðið friðað.

Holmsarvirkjun-kort-2Þar er um að ræða Hólmsárvirkjun við Atley. Þetta er virkjunarkostur sem í þingsályktunartillögunni um Rammaáætluner settur í biðflokk. Sitt sýnist hverjum um þá tillögu. Orkusalan hefur í umsögn sinni andmælt þessari flokkun og telur einsýnt að virkjun Hólmsár við Atley eigi að fara í nýtingarflokk. Orkusalan er vel að merkja fyrirtæki sem er í samstarfi við Landsvirkjun um að reisa umrædda virkjun, en Landsvirkjun er stór hluthafi í Orkusölunni. Í öðrum umsögnum eru aftur á móti sett fram öndverð sjónarmið um þessa virkjun. Á þá leið að þarna sé um að ræða svæði sem beri að varðveita og eðlilegast sé að umræddur kostur fari í verndarflokk.

Holmsa-Atley-5Orkubloggarinn hefur áður fjallað um Hólmsána og lýsti þar upplifun sinni af þessu afar sérstæða og ægifagra svæði. Svæði sem furðufáir Íslendingar virðast hafa skoðað og hefur af einhverjum ástæðum lítið verið í umræðu um umhverfisvernd. Þegar umrædd færsla um Hólmsá var skrifuð hafði bloggarinn einungis farið að ánni vestan megin – um þá leið sem nefnd er Öldufellsleið. Sú upplifun var þó nóg til að sannfæra bloggarann um að þarna eigi alls ekki að virkja. Og núna eftir að hafa kynnt sér svæðið nánar og þá líka svæði austan árinnar, er ekki ofmælt að virkjun þarna yrði mikið umhverfisslys.

Svæðin vestan megin Hólmsár eru þau sem flestir sjá. Einfaldlega vegna þess að Öldufellsleið liggur vestan árinnar. Þar er mikil náttúrufegurð, en vissulega er þar Mýrdalsjökull og svartur sandurinn mjög áberandi. Mun erfiðara er að komast að Hólmsánni austanmegin, en þar er einungis unnt að aka að ánni eftir smalaslóðum sem fæstir þekkja. Því er hætt við að margir þeirra sem komið hafa á þessar slóðir, hafi í reynd ekki séð nema brot af svæðinu. Og geri sér alls ekki grein fyrir þeim náttúruverðmætum sem þarna stendur til að fórna.

Holmsa-Atley-3Í áætlunum um virkjunina er gert ráð fyrir að reisa um 38 m háa stíflu á fallegum stað fremur neðarlega í farvegi Hólmsár, við Atley. Myndin hér til hliðar er einmitt tekin á þeim slóðum, sem stíflan myndi rísa (og er ljósmyndarinn austan megin árinnar).

Stíflan hefur þann tilgang að mynda miðlunarlón sem á að verða um 10 ferkm að flatarmáli. Þarna færi því talsvert mikið land undir vatn. Hlutfallslega yrði þarna reyndar sökkt miklu meira landi en gert var með Hálslóni – þ.e. þegar litið er til afls virkjananna. Eðli málsins samkvæmt verður vatnshæð lónsins æði breytileg og þarna myndast því breiður vatnsbakki sem verður margir tugir km að lengd. Þar mun vafalítið setjast talsverður leir, sem svo fýkur yfir gróðurlendið í nágrenninu.

LV-Holmsa-mat-1Frá lóninu yrði vatninu veitt um 6,5 km. löng aðrennslisgöng að stöðvarhúsi, sem reisa á neðanjarðar. Frá stöðvarhúsinu yrðu svo rúmlega 1 km. frárennslisgöng, sem kæmu út úr brekkunni skammt frá bænum Flögu í Skaftártungu. Þaðan á vatnið svo að renna eftir um 900 m skurði út í Flögulón og þaðan niður Kúðafljót.

Ofangreind lýsing á virkjuninni er tekin af vef Landsvirkjunar. Þar er líka að finna grófa lýsingu á svæðinu og í stuttu máli rakið hvaða rannsóknir og athuganir ráðast þarf í. Þar sker nokkuð í augu að í þessari matsáætlun er minnst á birkikjarr á Snæbýlisheiði. En sérhver sá sem skoðar svæðið austan Hólmsár sér að þarna væri miklu nær að tala um að lónið myndi skerða umtalsverðan, gróskumikinn og uppvaxandi villtan íslenskan birkiskóg. Og þarna er vel að merkja hugsanlega um að ræða síðustu leifar hinna fornu Dynskóga. Skóganna sem sögur segja að hafi áður náð yfir stór svæði milli fjalls og fjöru þar sem nú liggur Mýrdalssandur.

Í hnotskurn má segja að þessi birkiskógur (sem mönnum virðist tamt að kalla kjarr) og svæðið allt með sjálfan Mýrdalsjökul í bakgrunni, hafi alla burði til að geta talist eitthvert sérstæðasta og fallegast ósnortna víðerni landsins. Í þessu sambandi er athyglisvert hversu misvísandi upplýsingar hafa verið lagðar fram um gróðurþekju þessa svæðis, sem þarna er undir.

Holmsa-Atley-4Í drögum að matsáætlun Landsvirkjunar og Orkusölunnar segir að samtals séu rúmlega 60% af lónsstæðinu ógróið eða lítt gróið land, en í nýlegri skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að hlutfall þessa lands sé 31%. Umrædd skýrsla Náttúrufræðistofnunar var vel að merkja beinlínis unnin fyrir Landsvirkjun og Orkusöluna, sem gerir það að verkum að misræmið þarna er þeim mun undarlegra.

Þetta er sláandi munur og virðist sem annar aðilinn hafi hreinlega snúið hlutunum á hvolf. Skv. umræddri skýrslu Náttúrufræðistofnunar er hlutfall gróins lands 69%, en skv. gögnum Landsvirkjunar og Orkusölunnar er hlutfall gróins lands tæplega 40%. Tekið skal fram að umrædd skýrsla Náttúrufræðistofnunar ber titilinn Hólmsárvirkjun – Atleyjarlón. Náttúrufarsyfirlit um gróður og vistgerðir og þrátt fyrir að vera gefin út á tímum Internetsins, virðist þessa skýrslu alls ekki vera að finna á Netinu!

Holmsa-Atley-1Nú veit Orkubloggarinn svo sem ekki hvaða tölur þarna eru réttari. Mikilvægt er að þeir sem standa að ákvörðunartöku um röðun virkjunarinnar í Rammaáætlun hafi þarna réttar upplýsingar. Í huga Orkubloggarans skipta tölurnar þarna þó ekki höfuðmáli. Því jafnvel þó svo gróðurþekja svæðisins sé heldur minni en meiri, þá ætti sérhverjum manni sem þarna fer um að vera ljóst að virkjunin hefði vægast mikil, neikvæð og óafturkræf umhverfisáhrif á þessu einstaklega fallega og ósnortna svæði.

Miðlunarlónið myndi m.a. teygja sig inn eftir og sökkva fallegum og gróðursælum smádölum þar sem nú falla bergvatnsár og -lækir um skógivaxið landið. Þarna má nefna svæði sem kunnugir þekkja undir örnefninu Skógar, þar sem Skógá fellur í snotrum fossi innst í dalnum. Þessu öllu myndi miðlunarlónið sökkva (vatnsborð lónsins yrði nálægt staðnum þar sem fossinn á myndinni hér að ofan fellur fram af klettabrúninni). Á bökkum lónsins myndi svo að auki myndast breitt leirlag, sem sjálfsagt myndi fjúka úr og yfir gróðurlendið í kring.

Fyrst og fremst eru það þó heildaráhrif virkjunarinnar sem eru áhyggjuefni. Virkjunin myndi valda gríðarlegri röskun á ægifögru og stórbrotnu landsvæði, sem í dag er nánast alveg ósnortið af manna höndum. Auk þess sem mikið land fer undir vatn þarf að reisa varnargarða, leggja vegi og slóða og grafa skurði. Þar sem útfallið er fyrirhugað (í Flögulón) er landið flatt og ekki útséð hvaða áhrif t.d. vatnið og framburðurinn hefði á Flögulón og fisk í Tungufljóti.

Haspennulinur-Landmannaleid-2Þá eru ótalin þau miklu neikvæði sjónrænu áhrif sem háspennulínan hefði.  Háspennulínan myndi skera í sundur heiðarnar ofan Skaftártungu og næsta nágrenni Friðlandsins að Fjallabaki. Hún myndi verða lögð frá stöðvarhúsinu og 25-30 km norður eftir heiðarlöndunum upp af Skaftártungu. Þar myndi hún tengjast suðurlínu Landsvirkjunar (Sigöldulínu) – sem á sínum tíma var lögð skammt frá Fjallabaksleið nyrðri (þetta var snemma á 9. áratug liðinnar aldar, en svona lína yrði vart lögð um þessar sömu slóðir í dag).

Umræddar tillögur um Hólmsárvirkjun ættu að fá okkur öll til að staldra við og hugleiða málið vel og vandlega. Við Íslendingar erum enn svo gæfusamir að eiga nokkur lítt eða ósnortin og einstök víðerni, sem við höfum ennþá kost á að vernda til framtíðar. Við ættum að fara sérstaklega varlega þegar slík svæði koma til skoðunar sem virkjanasvæði.

Tungufljot-1Í þessu sambandi er líka vert að hafa í huga að þarna er ekki um að ræða landsvæði lengst uppi í óbyggðum, heldur í næsta nágrenni við byggð og alfaraleið. Þegar horft er til framtíðar er líklegt að verndun þessa svæðis muni hafa miklu meiri þýðingu fyrir atvinnuuppbyggingu í Skaftárhreppi heldur en virkjun. [Myndin hér til hliðar er frá Tungufljóti, sem er rómuð sjóbirtingsá]

Það blasir við að svæðin í nágrenni Fjallabaks og allt suður að Torfajökli, Mýrdalsjökli og þar með talin Hólmsá verðskulda friðun. Í huga Orkubloggarans myndi virkjun Hólmsár við Atley vera táknræn um algert áhugaleysi stjórnvalda á skynsamlegri og alvöru náttúruvernd. Vonandi taka Alþingismenn af skarið og skipa virkjunarhugmyndum við Hólmsá í verndarflokk.

Holmsa-Atley

Fleira áhugavert: