Frárennslislagnir – Viðhald og endurnýjun

Heimild: 

 

Maí 2007

Bilaðar frárennslislagnir

Fyrstu einkenni þess, að frárennslislagnir eru farnar að gefa sig, eru tvenns konar. Annars vegar kemur fram raki í gólfi og veggjum, hins vegar finnst ólykt.

Þótt byggingar á Íslandi séu flestar ungar, ef svo má að orði komast, fer það ekki á milli mála að viðhald og endurnýjun frárennslislagna er að verða mjög brýn. Það má segja að hús hérlendis séu byggð á þessari öld, sem nú er senn á enda runnin, og ekki nóg með það, flest eru þau byggð á seinni helmingi aldarinnar. Oft er miðað við lok síðari heimsstyrjaldar, 1945. Þá hefst fyrir alvöru átakið að endurnýja húsakost landsmanna og hefur það átak staðið óslitið fram á þennan dag, auðvitað með nokkrum samdráttarskeiðum.

En frá hvaða aldurskeiði eru þau hús þar sem búast má við að nauðsyn á endurnýjun frárennslislagna sé orðin nauðsynleg?

Tvímælalaust í öllum húsum byggðum fyrir 1950, en raunar er líklegt að hús sem eldri eru en 40 ára séu með lélegar lagnir og því miður getur það verið staðreynd einnig í yngri húsum.

Í grunni og veggjum

Frárennslislagnir eru bæði í grunni húsa og veggjum, efnið í grunnlögnum húsa sem komin eru á aldurinn er nánast í öllum tilfellum steinrör en mjög líklega steypujárnsrör, sem við köllum oftast pottrör, í veggjum. Það er samt möguleiki að í veggjum sumra húsa leynist asbeströr sem frárennsli og má búast við því að þar sé vandamálið þegar komið upp og brýnt að leysa. Ef á að endurnýja þessar lagnir á sömu stöðum og þær liggja nú er ekki nokkur vafi á að það er mikil aðgerð sem kostar talsverða fjármuni og veldur mikilli röskun fyrir íbúana.

Fyrstu einnkenni þess að frárennslislagnir séu farnar að gefa sig eru tvenns konar; annarsvegar kemur raki fram í gólfi og veggjum, hinsvegar finnst ólykt. Hvaða leið er valin til að ráða bót á vandanum getur verið mismunandi frá einu húsi til annars en ein meginregla er þó alltaf í gildi; ekki byrja að vinna með loftpressu, nota heilasellurnar fyst og láta þær brjóta til mergjar hvað er skynsamlegast að gera.

 

Óhefðbundin lausn 

Það hafa ekki orðið miklar breytingar á frárennslislögnum síðustu 4000 árin og nú halda efalaust margir að hér hljóti að vera prentvilla en svo er alls ekki. Það eru til minjar um frárennslislagnir meira að segja eldri en þetta og síðar höfðu Rómverjar náð góðu valdi á því að leggja frárennslislagnir og ekki síður vatnsveitulagnir á sinni heimsveldistíð.

Enn þann dag í dag notum við sömu lögmálin og sömu tæknina við frárennslislagnir, nefnilega þá að vökvar renna undan halla, aðdráttarafl jarðar er drifkrafturinn.

Nútímatækni hefur haldið innreið sína hvarvetna en þessi gamla tækni heldur velli og það er ekki sem verst, aðdráttaraflið er ókeypis. Þegar kemur að því að endurnýja frárennslislagnir í segjum 50 ára gömlu húsi, þar sem við vitum að allar lagnir eru ónýtar, er freistandi að skoða nýjar lausnir.

Það finnast þó nokkuð víða kjallarar sem eru undir frárennsliskerfi viðkomandi götu, þar hefur lengi verið möguleiki að setja upp salerni og önnur hreinlætistæki með því að nota salernisdælu.

Hún er tengd við algjörlega venjulega salernisskál og inn í dæluna er einnig leitt frárennsli frá baðkeri, sturtubotni, handlaug, eldhúsvaski, þvottavél eða hverju því tæki sem þörf krefur að tengja.

Í dælunni er ekki aðeins dæla til að dæla vökva heldur er hún útbúin spöðum sem tæta alla fasta hluti, þess vegna þarf sameiginleg leiðsla frá dælunni ekki að vera meira en 32 mm eða sem svarar réttri tommu. Dælan vinnur algjörlega sjálfvirkt, þegar vatn í henni nær ákveðinni hæð fer hún í gang og þegar ákveðnu lágmarki er náð stansar hún og gangöryggið hefur reynst mjög gott og því sem hún dælir frá sér getur hún lyft allt að 7 m. Hérlendis eru fánlegar tvær tegundir af dælum að minnsta kosti, dönsku dælurnar frá Grundfos og þær þýsku frá Jung.

Eitt er víst að þessi lausn gæti sparað mikið í kosnaði og ekki síður í óþægindum fyrir íbúana, í stað þess að flytja út jafnvel í nokkrar vikur þarf enginn að fara neitt, engin þörf á því. Er nokkuð meiri goðgá að dæla skólpi en heitu vatni og köldu?

Fleira áhugavert: