Vindorka – Aðkallandi?

Heimild:

.

Smella a mynd til að heyra umfjöllun

Ágúst 2019

Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland segir að áhuginn á að virkja vindorku hér á landi stafi fyrst og fremst af því að kostnaður hafi lækkað mikið á síðustu árum. Auður Önnu Magnúsardóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að virkjun vindorku sé ekki eins aðkallandi hér eins og víða annars staðar. Rætt var við Ketil og Auði í Speglinum.

„Áhuginn núna stafar af því að kostnaður í vindorkutækninni hefur lækkað mjög hratt á nokkrum árum. Fyrir nokkrum árum gat vindorka ekki keppt við vatnsafls- eða jarðvarmavirkjanir. Það hefur breyst og þess vegna er þessi áhugi núna. Þetta er samkeppnismarkaður og fyrirtækin keppa sín á milli. Sá sem ætlar að vera með dýra virkjunartækni verður undir, segir Ketill framkvæmdastjóri Zephyr Iceland.

  • Tengt efni: Óvissa um vindmylluvæðingu

Landvernd telur að vindorka hér á landi sé ekki eins aðkallandi og víða annars staðar. En þýðir þetta að Landvernd sé í raun á móti virkjun vindorku hér á landi?

„Við teljum að vindorkan sé ekki eins aðkallandi eins og í öðrum löndum vegna þess að hér erum við að framleiða fjórum til fimm sinnum meiri orku en við þurfum í raun og veru. Það er að segja, stóriðjan kaupir 80 prósent af allri orkunni sem við notum. Þannig að við teljum að það sé ekki þörf fyrir þessa grænu orku á Íslandi. Hún sé ekki eins aðkallandi eins í mjög mörgum öðrum löndum þar sem er kolaorka er til dæmis nýtt,“ segir Auður. Hún segir að Landvernd gangi ekki það langt að vera algjörlega á móti virkjun vindorku hér á landi. Samtökin hvetji sveitarfélög og stjórnvöld til þess að mótuð verði stefna í þessum málum. Þetta fari eftir lögbundum ferlum meðal annars að vindorka eigi að heyra undir rammaáætlun.

  • Tengt efni: 15 til 20 milljarða vindmyllugarður

Ketill segir það rétt að hér sé mikið af bæði af vatnsafli og jarðvarma. Vindorka sé ein tegund endurnýjanlegrar orkuframleiðslu. Ef hún sé jafnvel orðin ódýrasti kosturinn sé eðlilegt að áhugi sé á því að virkja vind.

„Eftir því sem meiri vindorka yrði virkjuð yrði minni þörf á vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Þá má jafnvel stilla þessu þannig upp að vindorkan gæti forðað einhverjum svæðum frá skemmdum þar sem annars væri virkjað vatn eða jarðvarmi. Það má líta á þetta frá ýmsum hliðum en ég ætla ekki að fara að stilla vindorku upp gegn öðrum orkukostum. Það er bara einfaldlega þannig að þetta er orðið ódýrt og þess vegna er áhugi á að gera þetta,“ segir Ketill.

Landvernd hefur gefið út stefnumótunar- og leiðbeiningarrit um virkjun vindorku. Þar er meðal annar tíundað hvar ekki eigi að virkja. En eru einhver svæði að mati Landverndar þar sem hægt er að nýta vindorku.
„Við höfum bara látið öðrum það eftir að finna út hvaða svæði standa þá út af. Fyrir okkur er þetta rökréttur listi yfir verðmæt náttúrusvæði sem ekki á að skerða,“ segir Auður.

Fleira áhugavert: