Raforkumál – 19.þingmál, 1942
September 1942
19. mál, raforkumál
Ég er hæstv. forseta þakklátur fyrir að sýna svo mikla röggsemi að láta þetta mál koma til umr., en það hefði verið þýðingarmikið, ef hann hefði getað gert það fyrr, því að hætta er á, að málum, sem eiga að vera 2 umr. um, verði erfitt að ljúka nú. Það er sérstök ástæða til, að þurfi að ljúka þessu máli vegna annars máls, sem forsetar d. hafa sýnt þá röggsemi að koma í gegn, frv. um raforkusjóð. Það var hyggilegt af Nd. að hækka framlagið til raforkusjóðs um helming, en í frv. um raforkusjóð eru nokkur ákvæði, sem munu hindra, að l. nái tilgangi. Einkum má ekki láta undir höfuð leggjast að skipa n. til að rannsaka þessi mál. Það vantar skipulegt yfirlit um, hvernig á að koma fyrir öllum rafveitum. Ég vil beina því til forseta og þm., að það er óhjákvæmilegt, að n. verði skipuð á þessu þingi til undirbúnings rafveitum.
Fyrsti vísir til rafveitna í sveitum byrjaði með tveimur Skaftfellingum, þeim Bjarna Runólfssyni á Hólmi og Helga á Fagurhólsmýri. Í fótspor þessara hugvitsmanna komu síðan fleiri, og ýmsar sýslur, sem höfðu samband við þessa menn, fóru að dæmi þeirra. Að vísu voru rafveitur þessara manna litlar, sem var líka eðlilegt. (BBen: Stóðst kostnaðurinn við þessar rafveitur?) Já, það gerði hann, en svo ég hverfi að því aftur, sem ég var að tala um, þá var eigi eðlilegt, að hér gæti verið um neitt stórkostlegt að ræða, því að styrkur sá, er veittur var Bjarna á Hólmi, 5 þús. kr., reyndist ekki nógur til stórra framkvæmda. — Rafveitur á sveitabæjum komu fyrst í Skaftafellssýslunum og einnig sums staðar norðanlands, þar sem bændur komust í samband við þessa hugvitsmenn Skaftfellinga. Þessum mönnum ber að þakka mikið, því að þeir hafa rutt brautina í þessu mikla framfaramáli.
Á Alþ. 1929 komu Jón Þorláksson heitinn og tvö flokkssystkini hans fram með frv. um rafveitumál. Þetta frv. var rækilegt, en ekki eins vel undirbúið og skyldi. Þetta frv. var rætt á Alþ., en úr því varð ekki meira, því að þá snerist hugur þm. að kjördæmabreyt., og málið fór í dá. Það var ekki vakið upp aftur fyrr en fyrir nokkrum árum, að tveir framsóknarþm., þeir hv. þm. Húnv. og hv. fyrrv. 2. þm. Árn., beittu sér fyrir því, og í lið með þeim gekk einn sjálfstæðismaður, hv. þm. Borgf. Þessir menn vöktu upp málið að nýju og beittu sér fyrir, að rannsókn yrði hafin. Þeir lögðu til, að samábyrgð yrði höfð í rafveitum landsins, og það hefur sýnt sig, að stóru rafveiturnar bæði í Rvík og á Akureyri urðu ekki reistar nema með aðstoð allrar þjóðarinnar. Það væri mjög eðlilegt, þar eð rafveita Rvíkur er úr Árnessýslu, að kauptúnin þar, Stokkseyri, Eyrarbakki, Selfoss og Hveragerði, nytu góðs af þessu, og það hefur sýnt sig, að slíkt verður aldrei nema með samábyrgð, því að nú er svo háttað, að aðeins eitt býli í Árnessýslu fær rafmagn frá Sogsvirkjuninni.
Ástæðan er sú, að fjármagn fékkst ekki nægilegt, því að leiðslur eru mjög dýrar. Þessu er ekki vel tekið af forsvarsmönnum þéttbýlisins, enda þótt það sé vitað mál, að aðeins með aðstoð þjóðarinnar var hægt að reisa hinar stóru rafveitur. Í frv. Jóns Þorlákssonar var gert ráð fyrir, að verulegur styrkur væri veittur úr ríkissjóði til leiðslnanna um dreifbýlið, en þar var einnig gert ráð fyrir, að hreppsfélögin gætu sjálf byggt orkustöðvar og kostað þær sjálfar, en það hefur reynzt ofviða. Það leiðir af sjálfu sér að það þarf að byggja stórar stöðvar, t. d. við Sogið fyrir Suðurland og við Laxá fyrir Norðurland. Það er ekkert út á það að setja, þó að ekki sé allt séð fyrir í þessu frv., en málið sofnaði eftir 1929, því að þegar til stykkisins kom, þá fundu menn, að dreifbýlið gat ekki staðið undir þeim byrðum. sem gert var ráð fyrir í frv. Áhugi manna dó út, af því að menn voru á skökku plani. Þjóðfélagið í heild þurfti að koma til skjalanna.
Eftir síðustu kosningar var því hreyft í blaði okkar framsóknarmanna, Tímanum, að það yrði að koma rafmagni til dreifbýlisins, því að nóg orka væri til í því skyni, og lagt var til, að þetta yrði framkvæmt af ríkinu, ekki allt í einu, heldur smátt og smátt og með nógu gætilegri fjármálastjórn. Eins og nú er ástatt í landinu, að peningavelta er með langmesta móti, er sérstakt tækifæri til þess að safna fé í sjóði til þessara framkvæmda meðal annarra. Þetta, sem hér er nú á döfinni, er alger nýjung. Það er ekki farið fram á neitt lítið, því að hér er lagt til, að rafmagn komist til allra heimila landsins, hvort sem þau eru fram til dala, úti við sjó og á yztu annesjum, alls staðar á rafmagnið að koma og veita birtu og yl.
Ég get getið þess viðvíkjandi því, að færa byggðina saman, eins og víða hefur komið fram, að ég tel það ekki ráðlegt.
Til þess að rafmagn geti náð um allt landið, þá þarf að byggja orkustöðvar, og það verður aðeins gert með því að gera þetta að ríkisfyrirtæki, eins og t. d. símann, og að menn borgi viss gjöld, eins og háttað er þar.
Ég get upplýst það, að þegar fyrst var gerð tilraun með útvarpið hér á landi, þá veitti Alþ. málaflutningsmanni hér í bæ heimild í því skyni, en brátt kom í ljós, að enginn einn maður gat undir því risið, og þess vegna er útvarpið nú ríkisstofnun og mjög útbreidd. Reynslan sýndi, að einstaklingsframtakið gat ekki verið þarna eitt að verki, enda þótt það geti það oft. — Svo er annað atriði, sem sé það, að verðið á rafmagninu verði eins eða líkt fyrir allt landið. Til þess að allt þetta geti orðið að veruleika, þá þarf að sökkva miklum peningum í fyrirtækið, framlag yrði að vera mikið úr ríkissjóði, og einnig verður að gera ráð fyrir, að þegnarnir leggi sinn skerf. Víst er um það, að þetta mál verður ekki stöðvað, hvað sem gert er. Nú, þegar ég lít í kringum mig, þá sé ég, að margir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hafa farið af fundi, og sama máli gegnir um marga fulltrúa verkamannaflokkanna. Hv. þm. Ísaf. er þó hér í hv. d. og sýnir þar með áhuga sinn á rafveitumálum kjördæmis síns. Það hefur orðið mikil bið á, að þetta mál væri tekið á dagskrá.
Þegar það er loks til umr., þá hafa stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. farið af fundi til þess að sofa, en ég vona, að það sé þó ekki af áhugaleysi, enda er ekki hægt að sofa á þessu máli. Ég vil láta þá ósk mína í ljós til þessara hv. þm., sem nú sofa, vonandi frétta þeir þetta á morgun, er þeir vakna, að það er bezt fyrir sálarheill þeirra, að þeir sinni þessu máli eins vel á frumstigi þess eins og á elleftu stundu, þegar farið verður að veita fé úr milljónasjóðnum. Fjárgróðamenn hér í bæ, sem standa að blaðinu Þjóðólfi, hafa komið auga á það, að þessar ráðstafanir krefjist fórna. Þetta blað lét svo um mælt, þegar það minntist á þessi mál, að nú ætti að fara að raflýsa fátæktina. Þetta blað, sem er stutt af ýmsum fjárgróðamönnum, brá birtu yfir eitt mikilvægt atriði, þ. e. tregðu þegnanna til þess að greiða sinn skerf. Það má segja um þessa menn eins og unglinginn, sem getið er um í ritningunni, sem þurfti að láta af hendi auð sinn, að þá gekk hann burt og grét beizklega.
En hvernig sem reynt verður, þá verður ekki hægt að stöðva þetta mál nú. Eftir að þessu máli hafði verið hreyft í blaðagreinum og eftir að þessi till. kom fram, þá kom fram frv. hér á hv. Alþ., flutt af nokkrum ungum mönnum, og þetta frv. lagði til, að raforkumálin yrðu leyst á gamla grundvellinum, með því að safna í sjóði, sem síðan yrði veittur styrkur úr til einstakra manna. Þeir menn, sem standa að þessu frv., áttuðu sig ekki á því, að aðferð sú, sem þeir vilja fara, hefur ekki heppnazt. Þarf í því sambandi ekki annað en benda á Sogsvirkjunina í Árnessýslu. Aðeins eitt býli nýtur góðs af henni, og jafnvel kauptúnin þar gátu engu áorkað sökum þess, hve það var dýrt að leggja leiðslurnar. Hv. flm. frv. hugsuðu sér, að einn ráðh. gæfi síðan út reglugerð um það, hvernig þessu fé skyldi varið, en það getur Alþ. ekki þolað, vegna þess að það er fjarstæða, að einn ráðh. ráði yfir ráðstöfun þessa fjár. Það hefur og mikið að segja, að framkvæmdir í rafmagnsmálunum nú séu byggðar á glöggri rannsókn, og vel þarf að athuga það, hvar mest er þörfin fyrir rafmagn, og haga framkvæmdum eftir því. Ef t. d. hinir þéttbýlli staðir yrðu látnir ganga fyrir hver á eftir öðrum, þá gæti svo farið, að fólkið á útkjálkum landsins yndi ekki við það og teldi sig dæmt frá öllum þægindum og flytti burtu í önnur héruð. Einnig ætti að taka tillit til þess, þar sem unga fólkið vill ekki yfirgefa sveit sína af tryggð við átthagana eða ættaróðul, að keppa að því, að slík héruð fái rafmagn til afnota, og á þann látt tryggja það betur en ella, að unga fólkið uni hag sínum vel í sveitinni og hyggi ekki á að hverfa þaðan burtu. Takmarkið er, að rafmagn komi inn á hvert heimili í landinu, og ætti það ekki að vera ofvaxið fjárhag ríkisins að stuðla að því, að svo geti orðið.
Vil ég svo mælast til þess við hæstv. forseta, að hann láti þáltill. þessa fara nefndarlaust til síðari umr.