EPS rakaeyðingakerfi – Hvernig virkar það?

Heimild:  

 

Þeir eru líklega nokkuð margir sem hafa þurft að leggja út í ærinn tilkostnað síðustu ár, vegna rakaskemmda, eins og tíðin hefur verið. Ein af þeim nýjungum sem verið er að bjóða upp á er svokallað EPS-kerfi (Electro Pulse System), rakaeyðingakerfi sem komið er fyrir í húsum. Það er fyrirtækið DryTecno sem er einkaumboðsaðili fyrir EPS-kerfin, eigandi er Garðar Sigurgeirsson, sem er búsettur í Noregi en samstarfsaðili hans á Íslandi er Köfunarþjónusta Íslands ehf en það er Ómar Hafliðason sem á og rekur það fyrirtæki. Hann setur rakaeyðingakerfin upp og þjónustar viðskiptavini á Íslandi. En hvað er EPS kerfi og hvernig virkar það?

“EPS kerfi er einfalt kerfi sem sett er inn í steypu, múrhúð, forskalningu eða hlaðna veggi sem veldur því að vatnið/rakinn í veggnum dregst út úr veggnum fyrir tilstuðlan rafhleðslu,” segir Ómar. “Þetta á við þar sem rakavandamál er vegna grunnvatns, utan við sökkla eða í kjöllurum, grunnvatn sem leitar inn í gegnum steininn eða veggina. Þetta kerfi kemur í staðinn fyrir að grafa frá húsum og setja niður drenlagnir. Það er fljótlegt í uppsetningu, hálfur til einn dagur við venjulegt 100 fm hús og margfalt ódýrara en að leggja frárenslislagnir. Maður sleppur við að brjóta upp malbik og taka upp hellur, sólpalla, trõppur, tré og aðrar plöntur og sleppur almennt við allt það jarðrask sem fylgir því að veita vatni í burtu, því kerfinu er komið fyrir inni.”

Þar sem grunnvatn safnast upp
EPS-kerfið er mikið notað á norðurlöndunum en er algerlega óþekkt hér á landi. “Venjulega er þetta sett upp þegar vandamál koma upp, ekki nógu vel gengið frá fyrir utan húsið, drenið stíflað eða kannski ekkert dren til staðar,” segir Ómar. “Ástæðan getur verið sú að þetta var ekki gert almennilega í gamladaga, eða einhverjar breytingar í umhverfinu gera það að verkum að grunnvatn er farið að safnast upp.”

Þegar Ómar er spurður hvernig fólk viti að tímabært sé að setja upp rakaeyðingakerfi af þessu tagi, segir hann: “Ef fólk verður vart við að málning eða pússning eru að detta af, er nokkuð örugt að um rakaskemmd er að ræða. Einnig getur saltútferð innan á veggjum, lykt eða sveppamyndun oft komið upp um rakaskemmdir. Ef rakaskemmdin kemur upp inni í geymslum þá skemmast hlutir af raka sem eru geymdir þar, mygla mjög fljótt. Hitastigið dettur niður, það kólnar alltaf út af rakanum. Fólk verður mest vart við þetta í kjöllurum, í veggjum og í kverkinni þar sem gólf og veggur mætast.”

Ofnæmisviðbrögð við raka
“Sveppamyndun af völdum raka hefur verið mikið rannsökuð og það hefur komið í ljós að hún veldur ofnæmisviðbrögðum hjá viðkvæmu fólki. Rannsóknir sýna að sveppur er mun hættulegri en talið hefur verið. Auk þess að valda ýmsum ofnæmissjúkdómum, koma einkennin oft fyrst fram í slímhúð, kláði í augum, vandamálum því tengdum með linsur, stífluðu nefi, sviða í húð, höfuðverkjum, slappleika, þreytu, einbeitingarleysi og yfirleitt lélegri heilsu.

Þegar þú ert með rakavandamál í kjallara rýrir það verðgildi hússins eða þá að þú stendur frammi fyrir miklum viðgerðarkostnaði.”

Ómar segir mjög einfalt að koma rakakerfinu fyrir í hvaða húsum sem er. “Það eru boruð göt í vegginn með 70 cm millibili, 10-20 sentimetra fyrir ofan gólf og inn i þau eru sett rafskaut, milli þessarra skauta liggur vír sem tengist móðurstöð sem gefur rafpúlsa í skautin. Þetta rafmagn er algerlega hættulaust mönnum og dýrum og það sem gerist er að rafskautin hrinda vatninu i veggnum út og þurrkar hann um leið.” En hvers vegna myndast þessi raki?

“Útveggir og burdarveggir soga vatn upp úr grunninum. Oft er þetta líka vegna steypuskemmta, samskeyti eru léleg, eða steypan bara orðin svo gömul að hún er orðin opin og gljúp. Einnig vilja þakrennuniðurföll stíflast neðanjarðar án þess að fólk geri sér grein fyrir því. ”

Heilbrigðara húsnæði
“Þetta kerfi eyðir rafmagni á við 5 watta peru, svo kostnaðurinn er hverfandi. Húsnæðið verður heilbrigðara, hlýrra og verðmætara. Það er komin tuttugu ára reynsla af kerfinu á Norðurlöndum, uppsetning á því tekur uþb einn vinnudag og fer öll fram innanhúss. Um leið og kerfið hefur verið tengt, byrjar þurrkuninn og árangurinn er hægt að mæla innan örfárra daga. Andrúmsloftið verður strax betra og það verður léttara að anda, rakaflekkir og fúkkalykt hverfa með öllu.”

Ómar segir EPS kerfið alls engar neikvæðar verkanir hafa á umhverfið. “Það eru ekki notuð nein kemísk efni, svo nota má kerfið allsstaðar þar sem rakaskemmdir hafa orðið. Það hefur ekkert að segja hversu mikið vatn er fyrir utan veggina.”

Fleira áhugavert: