Laugardaginn 24. nóvember næstkomandi verður Lagnakerfamiðstöð Íslands formlega opnuð til afnota fyrir þá sem þangað vilja sækja fróðleik og lærdóm um lagnir og búnað.Það er búið að bíða lengi eftir þessum áfanga í möguleikum lagnasviðsins til að bæta fagmennsku og til að geta gert tilraunir með efni og fyrirkomulag sem svo nýtist þegar út í raunveruleikann er komið.
Hér er átt við bæði frágang efnis í byggingum og hönnun lagna til þess að ná sem bestum árangri fyrir rekstur byggingar.
Það er mikið hægt að læra af reynslu úti í mörkinni, enda hefur það verið eini verklegi skólinn sem fagmenn á lagnasviðum hafa haft til þessa og það hefur skilað mörgum góðum fagmönnum (bæði iðnaðarmönnum og hönnuðum) út í atvinnulífið.
En engin aðferð er einhlít og aðstæður valda því oft á tíðum að menn fá ef til vill ekki þann tíma eða þá tilsögn sem þeir þurfa. Oft er það vegna þess að vinna í verkþáttum lagnamanna þarf að fara fram þegar farið er að nálgast að viðkomandi bygging verði tekin í notkun, allir eru óþolinmóðir, það er rekið á eftir og menn freistast til að hafa einhvers konar flýtimeðferð á frágangi. Oft og sennilega langoftast er þetta í lagi, en undantekningarnar eru því miður til. Afleiðingar undantekninganna eru vel þekktar, það er leki.
Lekar/vatnsskaðar kosta húseigendur meira en einn milljarð á ári, og fer jafnvel hátt í tvo á þessu ári, eftir því sem kom fram hjá fulltrúa tryggingafélaga á fjölmennum fundi sem Lagnafélagið stóð fyrir sl vor.
Með tilkomu Lagnakerfamiðstövarinnar er kominn möguleiki til þess að rannsaka hvað það er sem einkum er varasamt við frágang lagna almennt og þar með leið til þess að fækka undantekningunum.
Það eru miklar vonir bundnar við tilkomu þessarar stöðvar og trú mín að þessar vonir rætist, en það er undir fagmönnunum (iðnaðarmönnum, verk- og tæknifræðingum) sjálfum komið hvernig til tekst, möguleikinn er til staðar nú er um að gera að nýta hann.
Laugardaginn 24.11. nk. kl. 14 verður Lagnakerfamiðstöðin opnuð almenningi og einnig sunnudaginn 25.11. nk. kl. 13.
Þrjátíu og fimm fyrirtæki og stofnanir kynna vörur sýnar og þjónustu á lagnasviði í stöðinni.
Fólk er hvatt til þess að koma á sýninguna og fá svör sérfræðinga við spurningum sínum sér að kostnaðarlausu.