Jarðgas – Shale gas í Bandaríkjunum
Maí 2012
Gasöldin gengin í garð?
Á undanförnum örfáum árum hafa orðið hreint ótrúleg umskipti í bandaríska orkugeiranum. Sem sumir vilja jafnvel lýsa sem sannkallaðri orkubyltingu.
Græna byltingin umbreyttist í gasæði
Það varð ekki alveg sú bylting sem margir bjuggust við. Fyrir um fjórum árum, um það leyti sem Orkubloggið hóf göngu sína, virtist blasa við að endurnýjanleg orka væri að verða mál málanna vestur í Bandaríkjunum. Bæði alríkið og fylkin juku fjárstuðning sinn og margvíslegar skattaívilnanir og niðurgreiðslur til handa fyrirtækjum sem fjárfestu í grænni orku.
Þetta bar margvíslegan árangur. Vindorkuiðnaður tók að blómstra víða um landið og gamli olíurefurinn T. Boone Pickens tilkynnti um áætlanir sínar að byggja stærsta vindorkuver Bandaríkjanna suður í Texas. Etanólið virtist ætla að sigra samgöngugeirann og rafbílatækni tók miklum framförum.
Sólarorkuiðnaðurinn blómstraði líka þar vestra og fjölmargir framleiðendur sólarsella (PV) spruttu upp og urðu eftirsóttir á hlutabréfamörkuðum. Og íslenski bankinn Glitnir varð meðal þeirra fyrirtækja sem stuðluðu að endurvakningu bandaríska jarðvarmaiðnaðarins.
Já; það er stutt síðan endurnýjanleg orka virtist mál málanna þar vestra (og reyndar um nær allan heim). Samt er það svo að nú lítur út fyrir að það sé hvorki lífmassi, vindur né sól sem er sigurvegarinn í harðri baráttunni í bandaríska orkugeiranum. Sigurvegarinn er miklu fremur gamla góða jarðefnaeldsneytið! Þó ekki olía eða kol. Heldur jarðgas.
Nýja orkuauðlindin: Shale Gas
Ævintýralegur uppgangurinn í bandaríska gasiðnaðinum gerðist fremur hægt og hjótt – a.m.k. fyrst í stað. Á sama tíma og bandarísk stjórnvöld og bandaríski kapítalisminn föðmuðu græna orkugeirann, var stille og roligt að byggjast upp nýr kolvetnisiðnaður vestur á sléttum gamla olíufylkisins; Texas. Þar tókst flinkum mönnum að finna hagkvæma leið til að nálgast gríðarlegt magn af þunnum gaslögum sem liggja inniklemmd í grjóthörðum sandsteininum djúpt undir sléttum Texas. Og brátt fór jarðgasið frá þessum nýju uppsprettum að streyma útá markaðinn.
Fyrst í stað voru ekki margir sem veittu þessu sérstaka athygli. En eftir því sem velgengni frumkvöðlafyrirtækjanna jókst vöknuðu orkurisarnir til vitundar um hagkvæmni þessara geysilegu gaslinda. Allt í einu varð shale-gas á allra vörum. Hófst nú mikið kaupæði, þar sem bæði var slegist um frumkvöðlafyrirtækin í shale-gas tækninni og sérhverja landspildu þar sem slíkt gas væri mögulega að finna. Allir vildi vera með í gasæðinu og meira að segja kreppan vestra dró ekkert úr áhuganum á að fjárfesta í shale-gas.
Rétt eins og þegar olíuævintýrið geysaði í Texas á fyrri hluta 20. aldar hefur bandaríska gasæðið nú í upphafi 21. aldarinnar skapað fjölda nýrra dollara-milljónamæringa. Mestu tiðindin eru þó þau að Bandaríkin eru allt í einu orðin sjálfum sér nóg með jarðgas og hafa þar með verulega styrkt stöðu sína sem orkuframleiðandi. Það er meira að segja svo að nýjustu athuganir bandaríska orkumálaráðuneytisins benda til þess að Bandaríkjamenn eigi gnægð af gasi til næstu 100-200 ára! Það er engu líkara en að gasöldin sé að ganga í garð.
Verðfall á gasi
Og hverjar eru afleiðingarnar af stóraukinni gasvinnslu innan Bandaríkjanna? Jú; aukið framboð af gasi þýðir auðvitað lægra verð. Frá árinu 2008 hefur verð á jarðgasi lækkað jafnt og þétt. Og nýverið fór það undir skitna 2 USD pr. milljón BTU (BTU er orkueining og milljón BTU samsvarar um þúsund rúmfetum af gasi).
Það er til marks um umskiptin að fyrir einungis tveimur árum síðan var verðið fyrir umrætt magn af bandarísku jarðgasi um 6 USD eða næstum þrefalt hærra en núna. Og fyrir fjórum árum var verðið næstum 14 USD/mmBTU og var þvi um sex-sjö sinnum hærra en nú um stundir!
Mestu umskiptin á bandarísku orkumörkuðunum felast þó í því að tengslin milli verðs á jarðgasi og hráolíu virðast skyndilega hafa rofnað með öllu. Það er engu líkara en að bandaríska jarðgasið sé allt í einu farið að lifa sjálfstæðu efnahagslífi.
Orkuinnihald hráolíutunnu annars vegar og milljón BTU af jarðgasi hins vegar er u.þ.b. 6:1. Þess vegna mætti ætla að verðið á hráolíu og jarðgasi ætti að endurspegla þennan mun. Þ.e. að hráolíutunnan ætti að kosta sex sinnum meira en milljón BTU af jarðgasi. Sögulega hefur hlutfallið þarna þó almennt verið á bilinu 8-12 á móti 1. Þetta sést t.d. vel á grafinu hér að ofan þar sem hlutfallið frá árinu 1986 var lengst af um 10:1.
Í marga áratugi gátu þeir sem áttu viðskipti með gas og/eða olíu nánast gengið að því sem vísu að verðhlutfallið þarna á milli væri nánast fasti. Eða u.þ.b. tíu á móti einum með sveiflum sem almennt voru innan við 20%.
Þegar shale-gasið tók að flæða á markaðinn á allra síðustu árum fór að bera á því að jarðgas og hráolía væru að missa taktinn og verðbilið væri að aukast. Þ.e. gasið varð hlutfallslega miklu ódýrara en áður. Einhverjar slíkar sveiflur voru svo sem ekkert nýtt. Því, eins og fyrr sagði, hafa alltaf verið þarna nokkrar sveiflur og þá ekki síst vegna þess að ekki er jafn auðvelt að geyma gas eins og olíu.
En þegar líða tók á árið 2009 má segja að bandaríski gasmarkaðurinn hafi hreinlega rifið sig lausan. Og nú er svo komið að í fyrsta sinn í sögunni virðist sem verðtengingin á milli gass og olíu hafi rofnað með öllu – a.m.k. í bili.
Jarðgasið er nú margfalt ódýrara en hráolía. Með því að kaupa gas fær kaupandinn þess vegna miklu meiri orku heldur en með kaupum á olíu. Fyrir örfáum vikum var munurinn þarna orðinn svo mikill að jarðgas var orðið allt að fimm sinnum ódýra heldur en olían (þ.e. í stað hins almenna verðhlutfalls á bilinu 8-12 var hlutfallið komið upp í 50). Samhliða hefur svo bandarískt gas líka orðið miklu ódýra en gas á Evrópu- og Asíumörkuðum.
Aukið gasframboð – lægra raforkuverð
Þetta mikla framboð og lága verð á gasi í Bandaríkjunum hefur ýmsar afleiðingar. Bæði olía og gas eru jú einfaldlega orkugjafar, sem geta að verulegu leyti leyst hvorn annan af hólmi. Þegar gasverð lækkar svo mjög, myndast hvati til að skipta yfir í gas hvarvetna þar sem menn nýta olíu. Þeir sem enn nýta olíukyndingu skipta yfir í gasið. Díseltrukkum er breytt til að geta gengið fyrir gasi. Meira að segja kolaiðnaðurinn fær að finna fyrir þessum verðlækkunum á jarðgasi – sem birtist í því að vestra er kolaorkuverum nú nánast raðlokað á sama tíma og gasorkuverum fjölgar.
Og nú hefur hið ótrúlega gerst; orðið er raunhæft að Bandaríkin verði útflytjandi að fljótandi gasi (LNG). Nýlega hófust framkvæmdir við fyrstu bandarísku LNG-vinnslustöðina fyrir slíkan útflutning. Loks má nefna að kannski verður ódýrt bandarískt jarðgas til þess að það verða bandarísk flugfélög sem taka upp tilraunir Qatar Airways með að fljúga breiðþotum á gasi í stað flugvélabensíns!
Áþreifanlegasta afleiðing þessarar miklu verðlækkunar á gasi í Bandaríkjunum er lágt raforkuverð. Þegar jarðgas er orðið svo ódýrt sem raun ber vitni kostar eldsneyti til að framleiða 1 MWst einungis um 16-20 USD. Það merkir að gasorkuverum nægir nú sennilega oft að fá um 40-45 USD/MWst til að standa undir fjárfestingunni og skila viðunandi arðsemi (þ.e. þegar miðað er við bæði breytilegan OG fastan kostnað gasorkuvers).
Já; um þessar mundir er gas einfaldlega ódýrasti raforkugjafinn í Bandaríkjunum. Það á sinn þátt í því að þessa dagana eiga ekki aðeins sum bandarísk kolaorkuver í vandræðum, heldur þrengir nú einnig vægast sagt mjög að bandarískum sólar- og vindorkuverum. Heildsöluverð á raforku sumstaðar í Bandaríkjunum hefur jafnvel verið að fara vel undir 40 USD/MWst og á einstaka svæðum ennþá neðar. Hér er vel að merkja ekki bara verið að tala um örskammar verðdýfur í miklum rigningum á mestu vatnsaflsvirkjanasvæðunum, heldur meðalverð á raforku í heildsölu yfir margra mánaða tímabil og jafnvel heilt ár.
Veikir mikið gasframboð samkeppnisstöðu Landsvirkjunar?
Afleiðingin af lágu raforkuverði í Bandaríkjunum skapar ekki bara erfiðleika fyrir bandarísk kola-, vind- eða sólarorkuver. Afleiðingarnar teygja sig langt út fyrir þeirra eigin landsteina.
Þegar bandarískum gasorkuverum nægir að fá u.þ.b. 40-45 USD/MWst, eiga stóriðjufyrirtæki á sumum svæðum Bandaríkjanna kost á því að kaupa raforku í miklu magni á verði sem er t.d. ansið nálægt því það sama og Landsvirkjun er að bjóða nú um stundir. Landsvirkjun býður nú nýja 12 ára raforkusölusamninga á 43 USD/MWst.
Lágt gasverð og þar með lágt raforkuverð í Bandaríkjunum getur haft bein áhrif á iðnaðaruppbyggingu á Íslandi og annars staðar í heiminum. Landsvirkjun hefur það að vísu umfram bandarísku gasorkuverin að bjóða umrætti verð til 12 ára. Vestra verða raforkukaupendur að taka áhættuna af raforkuverði framtíðarinnar. Vegna 12 ára binditímans eru samningar Landsvirkjunar því væntanlega áhugaverðir. Fyrirtæki sem vilja tryggja sér örugga raforku á hagstæðu verði til sæmilega langs tíma, ættu að sýna tilboði Landsvirkjunar áhuga – jafnvel þó svo viðkomandi fyrirtæki séu að framleiða vörur fyrir Bandaríkjamarkað.
Það er engu að síður svo að verðmunurinn þarna er orðinn það lítill, að nú um stundir hlýtur að vera við ramman reip að draga í samkeppni íslenskra raforkuframleiðenda um nýja raforkukaupendur. A.m.k. gagnvart fyrirtækjum sem hentar að staðsetja sig í Bandaríkjunum.
Eru Bandaríkin að verða besta staðsetningin fyrir stóriðju?
En er þetta lága verð á bandarísku jarðgasi og lága raforkuverð þar vestra ekki bara tímabundið? Er ekki augljóst að nú um stundir er einfaldlega offramboð af gasi í Bandaríkjunum og brátt muni markaðurinn leita jafnvægis og verðið á bæði gasi og raforku hækka á ný?
Hvað það verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Á endanum hlýtur þó orkuverð að ná jafnvægi, þ.a. tiltekið magn orku í Bandaríkjunum kosti nálægt það sama hvort sem orkan kemur frá t.a.m. gasi, kolum eða olíu. Vandinn er bara sá að kristallskúlan segir manni því miður ekki um það hversu lengi markaðurinn haldi áfram að vera svona bjagaður né hvernig eða hversu hratt leiðréttingin gerist!
Það virðast vera nokkuð skiptar skoðanir um hvernig þetta muni gerast. Sumir álíta (kannski eðlilega) að stutt sé í að gasverð hækki og olíuverð lækki. Sérstaklega hljóti gasið að hækka og því sé rétt að vera long í gasi fremur en að vera short í olíu. Aðrir spá því aftur á móti að enn geti verið nokkuð langt i land með að gasverð fari upp – og til skemmri tíma muni það jafnvel lækka ennþá meira og allt niður í 1,5 USD/mmBTU. Það muni valda miklum gjaldþrotum í gasvinnslu-Viðnaðinum og þess vegna sé nú kjörið tækifæri að sjorta gasvinnslufyrirtæki!Þegar spáð er í verðþróun á bandarísku jarðgasi er svolítið freistandi að taka mark á framtíðarsýn bandaríska orkumálaráðuneytisins (þ.e. upplýsingaskrifstofu ráðuneytisins; EIA). Þar á bæ hafa menn geysigóðar upplýsingar um gas í jörðu og er líklega hvað best treystandi til að setja fram hlutlausar skoðanir.
Skemmst er frá því að segja að hjá EIA virðast menn nú orðnir fullvissir um að lengi enn verði mikið framboð af gasi á hagstæðu verði. Og þess vegna muni raforkuverð í Bandaríkjunum almennt haldast fremur lágt lengi enn. Ekki bara næstu örfáu árin, heldur til langrar framtíðar. Þar er talað um að sennilega verði meðalverð á raforku víða í Bandaríkjunum nákvæmlega ekkert hærra eftir tíu ár en nú er. Og svo verði líka eftir 20 ár og líka eftir aldarfjórðung!
Þeir sem treysta þessum spám EIA eru vísir til að telja Bandaríkin einhverja bestu staðsetningu fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Þetta gæti mögulega dregið úr áhuga ýmissra stórra raforkukaupenda á að koma til t.d. Íslands. Lágt raforkuverð vestra gefur slíkum fyrirtækjum a.m.k. augljóslega tilefni til að setja pressu á íslensku orkufyrirtækin til að semja um mun lægra orkuverð en þau kannski óska sér. Kannski er þetta einmitt ein ástæða þess að ekkert hefur gengið að ljúka hér samningum um nýjan kísiliðnað?
Mun aukið gasframboð í Bandaríkjunum valda lækkandi raforkuverði í Evrópu?
Allir lesendur Orkubloggsins ættu að kannast við það að raforkuverð víðast hvar í Evrópu hefur hækkað verulega síðustu árin. Og er orðið ansið mikið hærra en t.d. víðast hvar í Bandaríkjunum. Og margir eru að spá ennþá meiri hækkunum í Evrópu á næstu árum.
EF umræddar spár EIA um raforkuverð í Bandaríkjunum reynast réttar hlýtur að koma að því að evrópsk stóriðja fari að hugsa sinn gang alvarlega og jafnvel færa sig vestur um haf. Í þessu sambandi er vert að minna á spá Pöyry um hratt hækkandi raforkuverð í Evrópu, sem komið hefur fram í nokkrum kynningum Landsvirkjunar undanfarin misseri (sbr. grafið hér að ofan sem er úr kynningu Landsvirkjunar og má sjá á vef fyrirtækisins). Þessi spá Pöyry virðist helst byggja á stefnu Evrópusambandsins um að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Vind- og sólarorka er jú dýrari en að nota kol, gas eða kjarnorku og þess vegna logískt að raforkuverð í t.d. Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi hljóti að hækka umtalsvert á næstu árum og áratugum. Ef löndin standa við áætlanir sínar og stefnu ESB.
Vandinn er bara sá að eftir því sem verðmunurinn á raforku milli Bandaríkjanna og Evrópu eykst, verður meiri hvati fyrir orkufrekan iðnað að færa sig frá Evrópu til Bandaríkjanna. Slíkt myndi draga úr raforkueftirspurn í Evrópu og þar með minnka verðþrýstinginn á evrópskum raforkumörkuðum.
Þannig gæti lágt verð á jarðgasi í Bandaríkjunum bæði hægt umtalsvert á iðnaðaruppbyggingu á Íslandi OG dregið úr verðhækkunum á raforku í Evrópu. Þar að auki er shale-gasvinnsla nú að fara af stað á gamla meginlandinu. Aukist gasframboð af þeim sökum umtalsvert í Evrópu, myndi það eitt og sér geta lækkað raforkuverð í álfunni. Og þar með á ný aukið samkeppnishæfni evrópsk raforkuiðnaðar, t.d. gagnvart Íslandi. Það er sem sagt alls ekki gefið að raforkuverð í Bandaríkjunum né Evrópu hækki mikið næstu árin – þó svo það sé vissulega mögulegt.
Hvað sem öllu þessu líður, þá stendur Ísland samt vel að vígi til lengri tíma litið. Af þeirri einföldu ástæðu að íslensk orka kemur frá ódýrum endurnýjanlegum auðlindum. En þróunin undanfarið á gasmörkuðunum vestra segir okkur samt að skynsamlegt sé að stilla væntingum okkar í hóf. Og sýna varfærni gagnvart spám um hækkandi raforkuverð – bæði gagnvart Bandaríkjunum og Evrópu. Það kann ennþá að vera nokkuð langt í það að veruleg tækifæri skapist til að auka arðsemi umtalsvert í raforkuvinnslunni á Íslandi. Sú aukna arðsemi er langhlaup, sem krefst bæði þolinmæði og þrautseigju.