Galli við heita vatnið – Það er svo ódýrt..

Heimild: 

 

Nóvember 1997

Þú kaupir ekki aðeins vatn

Það er einn galli við heita vatnið, það er svo ódýrt að við förum ekki vel með það. Við erum að kaupa þægindi og vellíðan með heita vatninu og því ber okkur að fylgjast vel með að hitakerfið sé í lagi.

ÞAÐ er sagt að fátt leggist eins á sálarlíf landans og umslög af ákveðinni tegund sem berast inn um bréfalúguna með óhugnanlegri reglusemi, eitt af því fáa sem aldrei bregst í okkar daglega lífi, gluggapósturinn ógurlegi. Þegar kíkt er inn um gluggann á bréfinu blasir nafn viðkomandi við, nafnið sem flestir eru stoltir af að bera, en gefur nú svolitla gæsahúð og kuldahroll. Það fer ekki á milli mála að inn um gluggann glittir í gíróseðil í einhverri mynd og lit. Sem sagt, enn einn reikningurinn.

Einn ágætur embættismaður á Suðurnesjum stundi jafnan þegar gluggapósturinn kom og tautaði jafnvel ópenthæf orð að viðstöddum blessuðum börnunum „mánaðarlaunin fara öll í þennan böl . . . gluggapóst“.

En skyndilega kom enginn gluggapóstur og fór svo í tvo mánuði, en þá var augljóst að eitthvað furðulegt var á seyði. Málið upplýstist einn daginn þegar tveggja mánaða gluggapóstur fannst bak við málningardollur í bílskúrnum, vandlega falinn, greinilega einhver leyniaðgerð innan fjölskyldunnar. Við rannsókn gekkst fimm ára dóttir við verknaðinum og sagði á sinn barnslega hátt: „Ég varð svo leið þegar þú varðst svo leiður þegar öll þessi bréf komu.“

Já, gluggapósturinn verður ekki umflúinn, þar kennir margra grasa og sýnir okkur svart á hvítu að ekkert fæst ókeypis. Ekki heldur heita vatnið sem gefur okkur yl og heitt vatn til að baða kroppinn og þvo diskana.

Hvað erum við að borga?

Fáránlega spurt hvað við séum að borga, þegar við borgum reikninginn frá hitaveitunni, eða hvað? Auðvitað erum við að borga fyrir heitt vatn, svo einfalt er það. Nei, það er ekki svo einfalt, þó samt sem áður sé það rétt. Ennþá réttara er að segja að við séum að kaupa varma, það er að langmestu leyti varminn í vatninu sem við kaupum, þess vegna er það ekki keppikefli að kaupa sem mest af vatni, öðru nær. Því betur sem við nýtum varmann í hverjum lítra af vatni, því færri lítra þurfum við að kaupa. Vilja ekki allir spara peninga?

Þegar þetta er orðið ljóst skiljum við betur hvað það er nauðsynlegt að „veiðarfærið“ sem við höfum til að fanga varmann, hitakerfið í húsinu, sé í lagi.

Það fer enginn skipstjóri til loðnuveiða með henglarifna nót þar sem stór hluti af aflanum sleppur. En því miður eru „veiðafæri“ margra þeirra sem eru á varmaveiðum gloppótt og jafnvel henglarifin. Þeir gera sér kannski ekki grein fyrir því, halda áfram að veiða, en greiða miklu hærra veiðigjald en þeir annars þyrftu, ef allt væri í lagi.

 Við kaupum varma, en einnig þægindi

Við hitum upp hús okkar til þess að okkur líði betur, þess vegna er rétt að segja að hver og einn sé að kaupa þægindi og vellíðan. Við heyrum í fjölmiðlum að margir horfi stórum augum á græna grasið hinum megin við lækinn, margir mæni á það að komast frá þessu eylandi úti í Atlantshafi og til annarra landa. En eitt er víst; útlendingar horfa öfundaraugum á þessa tandurhreinu náttúruauðlind sem jarðhitinn er. En það sem streymir árvisst til okkar og allir taka sem sjálfsögðum hlut, gleymist í dagsins önn. Við tökum ekki eftir heita vatninu fyrr en það hættir að streyma úr krananum.

Þá rekum við upp ramakvein

Það er einn galli við heita vatnið; það er of ódýrt, það er svo ódýrt að við hirðum ekki um að spara það, við sýnum „veiðarfærunum“ ekki þá virðingu að halda þeim í lagi, við látum nótina rifna og fiskana sleppa. Hugsum sem svo að það sé nægur fiskur í sjónum og „auðlindaskatturinn“ svo lágur. En munum þetta; íslenskur jarðvarmi, sérstaklega lághitinn, er ekki óþrjótandi auðlind þótt endurnýjunarkraftur hans sé enn mikill og verði svo enn um aldir.

Þess vegna ber okkur nota þessa auðlind hóflega og með fullri virðingu, það gerum við best með því að hafa „veiðarfærin“, öðru nafni hitakerfið, í lagi og kunna einhver skil á hvernig það vinnur.

Þarf húseigandi að kunna einhver skil á öllum þessum krönum og mælum sem eru úti í kompu? Já, tvímælalaust og þeir eru ekki „úti í kompu“ þeir eru í „vélarrúmi“ hússins.

Fleira áhugavert: