Tæring ofna í Seljahverfi: Hitaveitan leikur sér að viðskiptavinum sínum segir Páll Gíslason véltæknifræðingur „HITAVEITAN er að leika sér að viðskiptavinum sínum,“ sagði Páll Gíslason véltæknifræðingur, vegna ummæla Gunnars Kristinssonar Hitaveitustjóra, um tæringu í ofnum í Seljahverfi og niðurstöðu skýrslu sem byggir á rannsókn á völdum tæringarinnar. Páll hefur orðið fyrir tjóni vegna vatnsskaða í húsi sínu í Seljahverfi. Vegna hættu á frekari skemmdum fellur húsið undir sérstakt áhættumati og fást vatnsskaðar ekki bættir fyrr en skipt hefur verið um alla ofna. Kannaðir hafa verið möguleikar á bótum frá Hitaveitunni, án árangurs, þar sem engin lög eru til um veitustofnanir, er kveða á um hvaða skilyrði þær skuli uppfylla.
Í fyrstu var talið að orsaka tæringa í ofnum í Slejahverfi væri að leita til súrefnis í köldu vatni sem bærist í heita vatnið úr borholum Hitaveitunnar við Elliðaár. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að tæring var aðallega í húsum sem standa efst í Seljahverfi og jafnframt að þar var þrýstingur heita vatnsins lægri en kalda vatnsins. Benti hitaveitustjóri á að hitaveitan væri ekki skaðabótarskyld, þar sem um galla á húskerfi væri að ræða.
„Í þessum ummælum hitaveitustjóra felst eins og vant er leið til að skorast undan þeirri ábyrgð, sem Hitaveitan hefur og það er að afhenda vatnið við réttan þrýsting, rétt hitastig og með réttu innihaldi af þeim efnum sem þar eiga að vera,“ sagði Páll. „Hitaveitan er eitt sérfyrirtæki og vatnsveitan annað, bæði í eigu Reykjavíkurborgar. Veitustofnun Reykjavíkurborgar hefur yfirumsjón með þessum fyrirtækjum. Auðvitað hljóta þau að vinna saman og eiga að gera það. Það er þekkt fyrirbæri af öllum sem nálægt svona málum koma að þrýstingur á heitu vatni á að vera hærri en á köldu. Það er kjánalegt og eins og menn séu í sandkassaleik að halda því fram að hitaveitan sé án ábyrgðar þegar þrýstingur fellur niður.“
Páll bendir á að Hitaveitan geri engar kröfur til sjálf síns né húseigenda um lagnir eða vatns loka. „Þetta er fáránlegt,“ sagði hann „Hitaveitan á ekki að skorast undan. Það er engin reglugerð eða reglur til og þess vegan gæti veitan selt þér brennisteinssýru án þess að verða skaðabótaskyld. Ef þeir hafa einhverjar kröfur um efnisgæði eða annað þá á að koma því til skila til húseigenda. Eins og málum er háttað í dag geta húseigendur ekki varist hugsanlegu tjóni nema þeir að setji upp háþróaðan tæknibúnað og komi sér upp sjálfvirku viðvörunarkerfi.“