Járn – Algent, eftirsótt, mikilvægt..

Heimild: 

 

Febrúar 2013

Járnöldin síðari

Australia-Iron-Ore-Pilbara-Trucks-2Steinöld, bronsöld, járnöld. Allur sá góði tíma á að vera löngu liðinn. Járnöldin er sögð hafa runnið sitt skeið á enda hér í Norðrinu fyrir rúmum þúsund árum og í Austrinu fyrir um tvö þúsund árum.

En það er engu líkara en að járnöldin sé skollin á að nýju og það út um allan heim. Því líklega hefur engin málmur né önnur hrávara upplifað aðra eins geggjaða eftirspurn síðustu árin eins og járn. Það er því svo sannarlega orðið tímabært að Orkubloggið taki þennan merka málm til sérstakrar umfjöllunar.

Járn er einkum mikilvægt vegna stálvinnslu

Eins og allir vita er járn eitt frumefnanna. Járn er einkum nýtt til stálframleiðslu og því algert grundvallarefni í iðnaðarsamfélögum nútímans. Stál er t.a.m. mikilvægt við smíðar á skipum, bifreiðum og flugvélum. Og geysimikið af stáli er notað við byggingu háhýsa, hraðbrauta, flugvalla, stórskipahafna og í flestum öðrum stærri byggingaframkvæmdum. Svo fátt eitt sé talið.

Iron-Ore-TypesStál er að uppistöðu til járn sem inniheldur smávegis kolefni og önnur efni sem gera það sterkara og endingabetra. Allt byrjar þetta á því að járnið er grafið úr jörðu. Til þess eru oftast notaðar risastórar skurðgröfur og eftir atvikum sprengingar til að losa um bergið. Það er svo mulið og grófhreinsað, þ.a. eftir verður mulningur með háu járninnihaldi. Sem kallaður er járngrýti (iron ore á ensku).

Australia-Iron-Ore-Pilbara-Giant-Shovel-1Langmest af járngrýti heimsins er nýtt til stálframleiðslu eða meira en 95%. Feiknastórir vörubílar, flutningalestar og skip flytja járngrýtið frá námunni til vinnslu, þ.e. í málmbræðsluna. Sú bræðsla er forstigið í stálframleiðslu; til að framleiða stál þarf yfirleitt aðra bræðsluumferð. Þetta er að vísu nokkur einfölduð mynd á ferlinu, en ætti að gefa lesendum hugmynd um hvernig stál verður til. Sjálf málmbræðslan á sér oft stað þúsundir km frá járnnámunni; t.d. flytur Kína inn geysilegt magn járngrýtis frá löndum eins og Ástralíu, Brasilíu, Indlandi og Suður-Afríku.

Járnið sem er afurð fyrstu bræðslunnar á járngrýtinu er kallað hrájárn (pig iron á ensku). Hrájárn er ávallt bara millistig í frekari vinnslu, sem langoftast er stálvinnsla. Einnig er unnið talsvert af steypujárni (cast iron á ensku), sem inniheldur mun meira kolefni en stálið. En það er sem sagt stáliðnaður heimsins sem skapar nær alla eftirspurnina eftir járngrýti.

Járn er algengt – en líka mjög eftirsótt

Járn finnst mjög víða, enda er þetta eitt algengasta frumefnið á jörðinni. Mesta járnnámuvinnslan á sér auðvitað stað þar sem magnið af járni er mest og aðgengilegast. Þar skiptir miklu hversu hátt hlutfall járns er í jarðlögunum, en það er mjög misjafnt.

Iron-Ore-Exporting-Countries-latgest-2012Fjölmörg lönd búa yfir mikilli og langri reynslu af vinnslu járngrýtis. Í sumum þeirra er svo mikið magn af járni í jörðu að járngrýtið er afar mikilvæg útflutningsvara fyrir viðkomandi lönd. Stærstu útflytjendurnir eru Ástralía, Brasilía, Indland og Suður-Afríka. Einnig skipta hér verulegu máli mörg önnur framleiðsluríki, eins og t.d. Kanada, Kazhakstan, Íran, Rússland, Svíþjóð og Úkraína.

Eftir því sem æ meira járn hefur verið grafið úr jörðu hefur eðlilega orðið erfiðara að finna ný námusvæði með háu hlutfalli járns. Það er ein skýring þess að menn fara á sífellt fjarlægari og óaðgengilegri slóðir í leit sinni að góðum járnnámum.

Flestir setja sennilega járn og stál fyrst og fremst í samhengi við stóriðnaðarsamfélög Vesturlanda. Og eru þá minnugir iðnbyltingarinnar í Englandi, járn- og kolavinnslusvæðanna á mörkum Frakklands og Þýskalands (sem líklega voru ein helsta ástæða beggja heimsstyrjaldanna) og iðnaðaruppbyggingar Bandaríkjanna. Í dag er það þó ekki heimur kapítalismans sem er miðpunktur járn- og stálframleiðslunnar, heldur kommúnistaríkið Kína.

Hamar og sigð verða ekki byggð… nema hafa járn og stál

World-Steel-production-compound-growth_2006-2011Til skamms tíma var mestu stálnotkunina að finna í Bandaríkjunum og hún t.a.m. margfalt meiri en stálnotkun Breta, Þjóðverja, Indverja eða Kínverja. En svo gerðist það allt í einu undir lok 20. aldar að byggingaframkvæmdir í Asíu og sérstaklega í Kína tóku að vaxa mjög hratt. Það var upphafið að þróun sem á undraskömmum tíma hefur gert Kína að mesta stálnotanda heimsins.

Á 10. áratugnum varð hreint ótrúleg aukning á notkun sements í Kína. Svo um eða upp úr aldamótunum 2000 tók stálnotkun Kína einnig að aukast mikið. Og nánast áður en menn vissu hvaðan á þá stóð veðrið hafði Kína margfaldað stálnotkun sína og var orðinn stærsti markaður heimsins fyrir stál. Samhliða þessu jókst járnnotkun Kínverja mikið, enda stór hluti af öllu stálinu framleitt úr járngrýtinu í stáliðjuverum í Kína.

Iron-Ore-Price_2001-2011Þessi skyndilega aukning á eftirspurn Kína eftir járngrýti hafði margvísleg áhrif. Jafnvel þó svo Kína búi yfir meira af járni í jörðu en nokkurt annað land í heiminum, jókst nú innflutningsþörf Kína á járngrýti hratt. Einnig jókst mjög bæði notkun Kínverja og innflutningur þeirra á kolum, enda eru flest kínversku stáliðjuverin knúin með raforku frá kolaorkuverum.

Það er sem sagt gríðarleg aukning í stálnotkun Asíubúa (einkum Kínverja) sem er helsta orsökin fyrir járnævintýrinu sem staðið hefur yfir í heiminum síðasta áratuginn. Sú mikla eftirspurn hefur m.a. valdið fordæmalausum verðhækkunum á járni. Verð á járngrýti hefur margfaldast á undraskömmum tíma, en um leið hafa verðsveiflurnar líka orðið miklu meiri en var.

Rio-Tinto-Iron-Ore-share-of-earnings_2007-2011Miklar hækkanir á járngrýti hafa valdið því að fyrirtæki sem vinna járngrýti úr jörðu hafa blómstrað. Það er til marks um þessa þróun hvernig t.d. risafyrirtækið Rio Tintohefur stóraukið tekjur frá járnnámunum sínum, meðan t.d. álframleiðslan hefur skilað sífellt minni hluta af tekjum fyrirtækisins (Rio Tinto er eigandi Rio Tinto Alcan, sem er einmitt með starfsemi í Straumsvík). Og sennilega ætlar Rio Tinto að veðja ennþá meira á járnið á næstu árum. Því nýverið skipti fyrirtækið um forstjóra og setti yfirmann járnvinnslu Rio Tinto í það sæti, en rak þann sem lagt hafði sérstaklega mikla áherslu á álið.

Kína notar nú um 60% af öllu járngrýti sem framleitt er í heiminum

Ný járnnámuverkefni taka alltaf nokkuð mörg ár og þau kosta oftast nokkra milljarða dollara og jafnvel tugi milljarða dollara. Miðað við hversu nýjar járnnámur eru tímafrek verkefni er hreint með ólíkindum hvað framleiðslan á járngrýti (og stáli) hefur aukist hrátt á stuttum tíma. Þessi gríðarlega fjárfesting í nýjum járnnámum út um allan heim er fyrst og fremst knúin áfram af eftirspurninni frá Kína.

Steel-Consumption-largest-countries_1975-2005Ekki er ofsagt að Kína hafi á örskömmum tíma umturnað járnmörkuðum heimsins og skapað einhver mestu milliríkjaviðskipti sem orðið hafa í gjörvallri veraldarsögunni. Á undaförnum árum hefur sennilega engin önnur hrávara jafnast á við umfangið á járnviðskiptunum, nema ef vera skyldi olíumarkaðurinn.

Námuvinnsla í heiminum öllum skilar nú um 2,9 milljörðum tonna af járngrýti á ári. Af öllu því magni nota Kínverjar um 1,8 milljarða tonna. Kína sjálft framleiðir nú um 1,3 milljarða tonna árlega af járngrýti. Nú er því svo komið að Kínverjar nota rúmlega 60% af öllu járni sem framleitt er í heiminum!

Oil-Importers-top_ten-China-2011Þetta er gjörólíkt því sem er t.d. í olíuiðnaðinum. Þar er Kína að vísu orðið næststærsti olíuneytandi veraldarinnar – á eftir Bandaríkjunum. En Kína stendur ennþá langt að baki Bandaríkjunum í olíuneyslu, sem notar um helmingi meiri olíu en Kína. Það má því segja að meðan Bandaríkin eru mesti olíusvolgrari heimsins, þá er Kína langstærsti járnbelgurinn.

Það segir talsvert um hreint ótrúlega aukningu Kína á notkun járngrýtis að fyrir um áratug nam notkun þeirra á bilinu 20-25% af öllu járngrýti sem notað var í heiminum (Kínverjar eru einmitt um 20% af mannkyni öllu). En, sem fyrr segir, er þetta hlutfall Kínverja í notkun á járngrýti nú komið yfir 60%.

China-Steel-Industry-1Þessi hlutfallslega aukning (úr 20% í 60%) á um áratug virðist kannski í fyrstu vera u.þ.b. þreföld. En í reynd er aukningin miklu meiri, því á þessum áratug hefur heimsframleiðsla á járngrýti stóraukist. Staðreyndin er sú að á einungis um áratug hefur notkun Kína á járngrýti sexfaldast. Þ.e. farið úr um 300 milljónum tonna á ári og í um 1,8 milljarða tonna.

Stóraukin eftirspurn stáliðjuvera í Kína eftir járngrýti er meginástæða þess að á um tíu árum hefur árlegur meðalvöxtur (CAGR) á notkun járngrýtis í heiminum verið á bilinu 6-7% á ári. Árlegur meðalvöxtur Kína á innfluttu járngrýti undanfarin ár hefur þó verið miklu meiri eða vel á þriðja tug prósenta (um 23%).

Innflutningsþörf Kína á járngrýti hefur margfaldast

China-Iron-Ore-Imports_2000-2010Jafnvel þó svo ekkert land grafi jafn mikið járngrýti úr jörðu eins og Kína, þá hefur kínverska efnahagsævintýrið, sem fyrr segir, kallað á geysilega innflutning Kínverja á járngrýti. Í dag flytur Kína inn um 700 milljónir tonna af járngrýti á ári. Kína flytur líka talsvert af járngrýti út eða um 200 milljónir tonna. Árleg nettóþörf Kína fyrir innflutt járngrýti er því nú um 500 milljónir tonna. Allar eru þessar tölur síbreytilegar, en þetta eru þær nýjustu sem bandaríska landfræðistofnunin (USGS) hefur gefið upp.

Á skömmum tíma varð Kína sem sagt ekki aðeins stærsti framleiðandi heims að járngrýti, heldur líka stærsti innflytjandinn á þessari mikilvægu náttúruauðlind. Meðan notkun Kínverja á járngrýti sexfaldaðist náði Kína einungis að u.þ.b. þrefalda innanlandframleiðsluna á járngrýti. Innflutningsþörfin hefur því farið hratt vaxandi – jafnvel hraðar en nokkurn óraði fyrir.

World-Iron-Ore-Seaborn-Trade-China-giant-shareFyrir um áratug framleiddi Kína um 200 milljónir tonna af þeim 300 milljónum tonna af járngrýti sem þjóðin notaði. Innflutningurinn þá nam því um 100 milljónum tonna eða þriðjungi af notkun Kínverja á járngrýti. Í dag flytur Kína, sem fyrr segir, inn um 700 milljónir tonna, þ.a. á einum áratug hefur innflutningur Kínverja á járngrýti sjöfaldast! Þetta hefur eðlilega skapað geysilega eftirspurn eftir járngrýti í öðrum framleiðslulöndum.

Ekki er lengra síðan en 2003 að Kína varð stærsti innflytjandi heims á járngrýti (fór þá fram úr Japan). Og vöxturinn í innflutningi Kína hefur haldið áfram og það þrátt fyrir gríðarlega aukningu í innanlandsframleiðslu Kína á járngrýti. Þessi magnaða aukning fjölmennasta ríkis heims í stálframleiðslu og notkun á járni hlýtur að vera eitt af risaskrefum mannkynssögunnar. Og gefur svo sannarlega tilefni til að tala um að járnöldin síðari sé runnin upp.

Verður járn og stáltoppnum náð 2025?  Eða fyrr?  Eða seinna?

Horfur eru á að þessi mikla þörf Kína fyrir innflutt járngrýti eigi enn eftir að aukast verulega. T.d. spáir námurisinn BHP Billiton því að árið 2015 verði innflutningur Kína á járngrýti nálægt milljarði tonna. Sem kallar á ennþá meiri járnvinnslu um allan heim og fjárfestingar í námum, höfnum og bræðslum. Þær fjárfestingar hlaupa á hundruðum milljarða USD.

China-Steel-Cycle-IllustrationBHP Billiton álítur að notkun Kína á járngrýti muni halda áfram að aukast nokkuð hratt allt fram yfir 2015. Þá muni fara að hægja verulega á aukningunni og um 2025 muni Kína og heimurinn ná hámarki sínu í notkun á járni. Og að þá verði notað vel rúmlega helmingi meira járngrýti í heiminum en gert er í dag.

Sjálft stefnir BHP Billiton að því að tvöfalda framleiðslu sína á járngrýti fram til 2020. Þ.e. auka framleiðslu sína um 150 milljónir tonna. Og svo bæta við öðrum 150 milljónum tonna fyrir 2030 eða svo! Þarna horfir fyrirtækið fyrst og fremst til meiri járnnámuvinnslu í Ástralíu. Og að mest af aukningunni verði flutt beint til Kína.

Steel-Consumption-GDP-China-Japan-USAAllar spár um það hversu Kína (eða heimurinn) muni nota mikið af járngrýti eða stáli í framtíðinni eru auðvitað afar óvissar. En menn hafa leikið sér að því að bera saman stálnotkun og verga landsframleiðslu (GDP) ríkja og telja sig þá sjá ákveðna fylgni eða tengsl. Og að niðurstaðan sé sú að jafnvel þó svo stálnotkun Kína muni etv. brátt staðna eða ná jafnvægi, muni sú mikla notkun Kína á stáli haldast í ekki aðeins mörg ár heldur marga áratugi. Þetta þýði að jafnvel þó svo Kína næði brátt jafnvægi í stálnotkuninni, muni það jafnvægi viðhaldast í marga áratugi. Það myndi m.a. kalla á geysimikinn innflutning á járngrýti um langa framtíð.

Annar skemmtilegur samanburður er hversu mikið hver maður notar af stáli (þ.e.a.s. stálnotkun iðnaðarþjóða miðuð við fólksfjölda). Í dag er árleg stálnotkun hvers jarðarbúa að meðaltali rúmlega 200 kg af stáli. Allra mestu iðnríkin (þ.e. þau lönd þar sem mesti stáliðnaðurinn er) nota á bilinu 500-1000 kg af stáli árlega per capita. Þarna eru lönd eins og Suður-Kórea og Taiwan í fararbroddi, bæði nokkuð nálægt hámarkinu. Japan, Kanada og Þýskaland eru líka dæmi um lönd sem framleiða á bilinu 500-1000 kg af stáli per capita, en eru öll nálægt neðri mörkunum.

Steel-country-production-above-500kg-per-capita-2012-2Það voru Bandaríkin sem fyrst fóru yfir 500 kg markið (per capita). Eftir langa sögu mikillar stálnotkunar þar í landi hefur notkun Bandaríkjamanna nú minnkað verulega og er nú rétt undir 300 kg per capita á ári. Það sem er athyglisvert er að þessi sögulegi samanburður sýnir að ríki sem fer yfir 500 kg per capita í árlegri stálnotkun virðist venjulega vera yfir þeim mörkum í ca. 30-50 ár (sjá glæruna hér til hliðar, sem er frá Rio Tinto).

Allt fram á árið 2012 var Kína undir þessum mörkum. Bráðabirgðatölur vegna 2012 benda aftur á móti til þess á á því ári hafi notkun Kínverja á stáli rétt skriðið yfir 500 kg per capita. Í fyrsta sinn. Og jafnvel þó svo notkun Kínverja á stáli sé hugsanlega að nálgast hámark, þá bendir reynslan til þess að sú notkun muni ekki minnka næstu 30-50 árin! Gangi þetta eftir er nokkuð augljóst að járnöldin síðari verði talsvert lengri en bara einn eða tveir áratugir. Og svo á Indland kannski líka eftir að bætast við í þennan fína flokk þungaiðnaðarins. Það virðist því óneitanlega freistandi að veðja á að járnöldin síðari sé bara rétt að byrja.

Miklar verðhækkanir hafa orðið á járni

Eins og nefnt var hér fyrr í færslunni hefur hratt vaxandi og fordæmalaus  eftirspurn Kína eftir járni valdið miklum verðhækkunum á járngrýti.

Iron-Ore-Price_1995-2012Um aldamótin 2000 var algengt verð nálægt 12 USD/tonnið, en upp úr því fór verðið hratt hækkandi. Árið 2005 var það farið að nálgast 30 USD/tonnið og árið örlagaríka 2008 var verð á járngrýti lengst af nálægt 60 USD/tonnið. Og hafði þá sem sagt fimmfaldast á einungis átta árum.

Fjármálahrunið árið 2008 hafði lítil áhrif á verð á járngrýti. Meðan olíuverð hrundi kom einungis smá hiksti í verð á járngrýti. Brátt tók verðið að hækka ennþá hraðar en áður – og síðla árs 2009 var verðið á járngrýti komið yfir 100 USD/tonnið. Árin 2010 og 2011 æddi verðið enn áfram. Síðla árs 2011 var verð á járngrýti farið að nálgast 180 USD/tonnið. Þá loks fór að bera á smá slaka í vextinum í Kína. Enda fór svo að verðið lækkaði talsvert árið 2012 og um síðustu áramót var verð á járngrýti nálægt 130 USD/tonnið.

Á u.þ.b. einum áratug hefur verð á járngrýti sem sagt hækkað úr um 12 USD/tonnið og í um 130 USD/tonnið eða meira en tífaldast. Ef sama hefði gerst með olíu væri olíuverð nú um stundir nálægt 250-300 USD/tunnan. Sem sumir reyndar voru farnir að spá á árinu 2008 þegar olíuverð fór yfir 100 USD/tunnan. Reyndin varð sú að það var járngrýti sem hækkaði svo geysilega mikið, en ekki olíuverð.

Iron-Ore-Price_2006-2011Umræddar verðhækkanir á járni kunna að valda því að einhverjir haldi að það sé að skella á járnskortur. Að við séum langt komin með að nýta allt vinnanlegt járn í heiminum. Því fer þó víðs fjarri. Járn er eitthvert algengasta frumefnið á jörðinni og reyndar í alheiminum öllum. Enginn langtímaskortur ætti að verða á járni á 21. öldinni og sennilega heldur ekki á þeirri næstu! En það kann að hækka hressilega í verði því járnvinnsla verður sífellt dýrari.

Að spá um þróun járnverðs er skemmtilegur leikur – en afar snúinn. Kostnaður við nýjar járnnánum er mjög misjafn og einnig afar mismunandi hversu hátt hlutfall járns er í jarðlögunum og hversu erfitt er að koma járngrýtinu á markað. Almennt benda skýrslur sérfræðifyrirtækja til þess að kostnaðurinn þarna hafi hækkað mikið á síðustu árum. Og að í dag þurfi nýjar járnnámur verð sem er talsvert yfir 100 USD/tonnið til að ná break-even. Sé þetta rétt má ætla að til lengri tíma litið muni verð á járngrýti almennt a.m.k. ekki vera lægra en sem nemur þessari fjárhæð.

Iron-Ore-Future-Capacity_2011-2016Járnöldin síðari virðist sem sagt ætla að einkennast af miklu hærra verði á járngrýti en við höfðum vanist. En ekki má gleyma því að þó svo flest virðist benda til þess að verð á járngrýti verði áfram hátt, þá gæti t.d. slaki eða samdráttur í efnahagslífi Kína leitt til verulegs verðfalls á járngrýti – tímabundið. En ef vöxturinn í Kína heldur áfram, gæti það þrýst járnverði ennþá meira upp. Þarna er óvissan mikil og þess vegna illmögulegt að spá að einhverri nákvæmni um verðþróun járngrýtis.

Það er freistandi að setja beint samasemmerki á milli þróunar á verði járngrýtis og eftirspurnarinnar frá Kína. Það flækir samt málið að mest alla 20. öldina var í raun ekki frjáls verðmyndun á járngrýti. Lengst af öldinni var járnverði nefnilega að mestu leyti stýrt af þröngum hópi námufyrirtækja og fyrirtækja í stáliðnaði. Það eru einungis fáein ár síðan los kom á þá skipan mála og frjálsari verðmyndun varð á járngrýti.

Kína – Singapore – Amazon – Grænland

Stóraukin eftirspurn Kínverja eftir járngrýti hefur ekkert minna en umbylt markaðnum með þessa mikilvægu hrávöru um allan heim. Ein breytingin er áðurnefnd frjálsari verðmyndun á járni. Önnur mikilvæg breyting á viðskiptaumhverfinu eru nýjar og spennandi fjármálaafurðir, sem tengjast eftirspurn eftir þessu einu allra mikilvægasta hráefni heimsins.

Singopore-SGX-Nasdaq-magnus-bocker-ceo-rings-bellÍ dag er viðskiptaumhverfi járniðnaðarins sem sagt orðið mikið breytt frá því sem var fyrir einungis fáeinum árum. Þar hafa kauphallirnar í Singapore (SGX) og indverski hrávörumarkaðurinn (MCX) líklega verið stórtækastar og framsýnastar í að nýta sér uppsveifluna. Ennþá áþreifanlegri afleiðing af járnævintýrinu er sú hvernig námufyrirtækin eru að fara á sífellt afskekktari og fjarlægari slóðir í leit að nýjum járnvinnslusvæðum. Þar má nefna nýjar námur á svæðum eins og t.d. í frumskógum Amazon, í auðnum Maurítaníu og í stríðshrjáðu Sierra Leone.

Í dag er stærsta járnnáma heimsins einmitt djúpt inni í Brasilíu, umlukin Amazon-frumskóginum. Þarna í Carajas var nýlega tekin ákvörðun um mikla stækkun námunnar og lagningu nýrrar járnbrautar sem mun skera frumskóginn þráðbeint á 900 km leið sinni til sjávar. Þar verður járngrýtinu mokað um borð í stór flutningaskip og siglt með það til kaupendanna. Sennilega mest til Kína.

Brazil-Iron-Ore_Carajas-Vale-Mine-from-above-1Samtals hljóðar þessi nýja fjárfesting við Carajas upp á um 20 milljarða USD. Þetta geysistóra verkefni kann að verða upphafið að ennþá meiri fjárfestingu í námuvinnslu þarna í frumskóginum, sem talinn er fela járnnámur framtíðarinnar undir laufþykkni sínu.

Skemmtilegast er að í kynningarefninu um stækkun námunnar þarna í Carajas ásamt tilheyrandi risaframkvæmdum, er þetta allt sagt vera gert með alveg dúndrandi sjálfbæra þróun að leiðarljósi (sjá t.d. þetta pdf-skjal, þar sem ekki verður þverfótað fyrir hugtakinu sustainability). Í reynd hefur raunveruleikinn í þungaiðnaði heimsins auðvitað ekkert með sjálfbæra þróun eða sjálfbæra nýtingu að gera. Heldur það eitt að kreista sem mestan fjárhagslegan hagnað út úr endanlegum auðlindum jarðarinnar. Til að viðhalda hagvextinum og öllum okkar ljúfa lífstíl. Já – þetta er dásamleg veröld.

Þetta mikla verkefni þarna í frumskógum Amazon er í höndum brasilíska risafyrirtækisins Vale, sem er stærsti framleiðandi járngrýtis í heiminum. Nefna má að Vale er m.a. næststærsti hluthafinn í norska álfyrirtækinu Hydro (norska ríkið er þar stærsti hluthafinn). Þannig að kannski má segja þessi stærsta járnnáma heimsins tengist okkur hér á Norðurlöndunum með laufléttum hætti.

Greenland-Isua-helicopter-1Og nú eru horfur á að umsvifamikil járnvinnsla hefjist senn hér lengst í norðri. Þ.e. bæði á Grænlandi og á Baffinslandi norður í óbyggðum Kanada, þar sem íslensku víkingarnir fóru eitt sinn um og kölluðu Helluland. Þessi tvö umræddu járnnámuverkefni – á Baffinslandi og Grænlandi – eru fjárfesting sem mun líklega nema á bilinu 3-4 milljörðum USD. Hún gæti þó orðið ennþá meiri, ef farið verður af meiri krafti í námuvinnsluna þarna en nú er planað.

Þessi upphæð er vel að merkja eingöngu kostnaðurinn við uppbyggingu á sjálfum námunum og hafnaraðstöðunni til að unnt sé að flytja járngrýtið í bræðslu. Þá er eftir að vinna hrájárn úr járngrýtinu og síðan stál. Verulegar líkur eru á að sú vinnsla muni eiga sér stað í Kína (það á a.m.k. nær örugglega við um járngrýtið frá Isua-námunni ofan við Nuuk á Grænlandi). Enda er Kína orðið miðpunktur stálvinnslu veraldarinnar og kínverskir bankar áhugasamir um að fjármagna svona verkefni.

Kínverski stáliðnaðurinn byggir á kolaorku

Allt það ofboðslega magn af járngrýti sem Kínverjar nota fer, eins og áður segir, fyrst og fremst til stálframleiðslu. Þar er um að ræða mjög orkufrekan iðnað. Þess vegna hefur hratt vaxandi stálvinnslan í Kína kallað á mikla aukningu á raforkuframleiðslu í landinu. Orkugjafinn þar að baki er fyrst og fremst kol. Kína er nefnilega mjög auðugt af kolum og er talið hafa að geyma um 10-15% af kolabirgðum heimsins (einungis tvö lönd búa yfir meira af kolum í jörðu, en það eru Bandaríkin og Rússland).

China-Coal-imports-volume-and-value_2004-2012Mikil aukning í raforkuframleiðslu með kolum í Kína hefur aðallega verið knúin áfram með innlendum kolum. Engu að síður hefur innflutningur á kolum til Kína vaxið hratt síðustu árin. Um 2008 nam kolainnflutningurinn um 50 milljónum tonna, en síðustu árin hefur árlegur innflutningur Kína á kolum verið að nálgast 200 milljón tonn. Innflutningur Kína á kolum hefur því nærri fjórfaldast á einungis um hálfum áratug.

Þessi innflutningur á kolum til Kína er kannski ekki mjög mikill miðað við það að heildarnotkun Kínverja á kolum hefur undanfarin ár verið að nálgast 4 milljarða tonna árlega (notkunin 2011 var 3,8 milljarðar tonna – sem er rúmlega 45% af heildarnotkun heimsins á kolum). En þó svo kolainnflutningur Kína nemi einungis um 5% af allri kolanotkun landsins, þá hefur síaukin innflutningsþörf Kína á kolum engu að síður haft mikil áhrif á kolamarkaði heimsins. Þessi eftirspurn, sem einkum hefur komið til allra síðustu árin, hefur haft afar jákvæð áhrif á útflutningstekjur þeirra ríkja sem eru aflögu um kol. Og þá ekki síst helstu kolalöndin í nágrenni Kína, sem eru Ástralía og Indónesía. Í dag er verð á kolum í þessum heimshluta um fjórfalt hærra en það var fyrir sléttum tíu árum. Það má fyrst og fremst þakka eftirspurninni frá Kína.

Ástralska járn- og kolaævintýrið 

Kínverska járnæðið hefur sem sagt ekki bara leitt til stórhækkaðs verðs á járni heldur líka á kolum. Og það vill svo skemmtilega til að eitt og sama landið er bæði stærsti útflytjandi kola OG stærsti útflytjandi járngrýtis í heiminum. Þarna er um að ræða hina heillandi Ástralíu.

Australia-Iron-Ore-Mine-NightJá – Ástralía hefur svo sannarlega notið góðs af þróuninni í Kína síðasta áratuginn. Sá mikli uppgangur hefur hvorki meira né minna en gert konu eina í Ástralíu að langríkasta Ástralanum og sennilega líka að ríkustu konu heims. Þetta er hún Gina Rinehart, en undanfarið hefur veraldlegur auður hennar verið metinn á nálægt 25-30 milljarðar USD. Því hefur meira að segja verið spáð að brátt muni auður Rinehart verða meiri en nokkurs annars einstaklings í heiminum (þar með taldir bæði Carlos Slim og Bill Gates).

Þessi miklu auðæfi Rinehart (f. 1954) má rekja til þess að hún er einkaeigandi að fjölskyldufyrirtækinu Hancock Prospecting. Það var pápi hennar, hinn þjóðsagnakenndi Lang Hancock, sem stofnaði fyrirtækið fyrir margt löngu. Upphaflega hagnaðist hann mikið á því að grafa asbest úr jörðu. Hann varð svo vellauðugur þegar hann fann það sem nánast má kalla risastórt járnfjall í auðnum Pilbara í V-Ástralíu.

gina-rinehart_hancock-prospecting.jpgÍ dag á Hancock Prospecting vinnsluréttinn á nokkrum af stærstu og gjöfulustu járn- og kolanámum Ástralíu. Orkubloggarinn á eflaust eftir að fjalla betur um hið magnaða ástralska járn- og kolaævintýri hér á Orkublogginu. En látum staðar numið að svo stöddu og njótum helgarinnar – hér á járnöldinni síðari.

Fleira áhugavert: