Er Tesla ofmetið?
.
September 2018
Tesla – Ofmetið? Já? Nei? Kannski?
Mikið hefur undanfarið verið rætt um fyrirtækið Tesla. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu rafmagnsbíla. Markaðsvirði þess er í dag $47 milljarðar. Markaðsvirði Ford bílaframleiðandans er til samanburðar nú um $37 milljarða.
Afar margir fjárfestar hafa tekið skortstöðu í fyrirtækinu. Það felur í sér að veðja á að gengi þess falli á næstunni, öfugt við það að hagnast á kaupum bréfa sem hækka í virði. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa fyrirtækisins hefur rokið upp undanfarið. Sú þróun er rakið til þess að áhættuálag á skuldabréfunum er að aukast til muna í ljósi þess að fjárfestar telja að hugsanlega ráði fyrirtækið ekki almennilega við endurgreiðslur á skuldum sínum.
Umræðan hefur að stórum hluta til snúist í kringum litríkan forstjóra þess, Elon Musk. Fyrir nokkrum vikum síðan sendi hann Twitter skilaboð þar sem hann staðhæfði að fyrirtækið yrði afskráð af markaði og keypt fyrir $420 fyrir hvern hlut. Gengi bréfa Tesla rauk upp í framhaldinu og „töpuðu“ margir skortsalar gífurlegum fjárhæðum, á pappír í það minnsta. Sú hækkun hefur síðan gengið eftir og gott betur, enda kom fljótlega á daginn að Musk hafði alls ekki tryggt sér fjármagn til að afskrá Tesla. Líklegt er að Musk verði ákærður vegna þessarar yfirlýsingar hans.
Musk gerði gott betur í síðustu viku með því að reykja hass í útvarpsviðtali, sem var einnig tekið upp á myndband og er vinsælt á youtube. Ör starfsmannavelta hjá framkvæmdastjórum fyrirtækisins þykir auk þess vera merki um að hlutir gangi allt annað en snuðrulaust fyrir sig hjá fyrirtækinu.
Hvað er það sem sumir fjárfestar telja að valdi því að hlutabréf séu ofmetin á hlutabréfamarkaði? Séu þau ofmetin þá er skýringin hugsanlega að hluta til rakin til atferlisfjármála (e. Behavioral Economics). Það eru ákveðnir þættir sem gera það að verkum að markaðsvirði fyrirtækisins (að mati þeirra sem hafa skortstöðu í fyrirtækinu) er komið út fyrir rökræn mörk. Almennt eru það ungir fjárfestar sem fjárfesta í Tesla, ekki ólíkt Bitcoin (sem er gríðarleg bóla í mínum huga). Sú framtíðarsýn sem Tesla veitir gæti hugsanlega verið að hafa áhrif á fjárfestingum ákveðinna aðila, rétt eins og með Bitcoin sem á að umbylta fjármálakerfinu.
Þórunn Andrésdóttir, fyrrum nemandi minn í atferlisfjármálum í HR, skrifaði ritgerð varðandi hugsanlega þætti sem valda þessu verðmati síðastliðið vor. Hún hefur veitt mér góðfúslegt leyfi til að birta hana og hef ég bætt henni við hér að neðan. Ég hef uppfært nokkur atriði og rétt er að taka það fram að ritgerðin er á ensku að því að námskeiðið sjálft er kennt á því tungumáli fyrir bæði innlenda og erlenda nemendur.