Sveinafélag pípulagningamanna – Sameining í FIT

Heimild: 

 

Mars 2009

FIT, félag iðn- og tæknigreina, og Sveinafélag pípulagningamanna sameinuðust í janúar árið 2008. Helgi Pálsson tók sæti í stjórn FIT en hann er fyrrverandi formaður Sveinafélags pípulagningamanna.

HVERS VEGNA VAR ÁKVEÐIÐ AÐ SAMEINA
FÉLÖGIN OG AF HVERJU VARÐ FIT FYRIR VALINU?
Fyrstu hugmundir að sameiningu munu hafa komið
upp í kringum 2005 – 2006. Það var svo á aðalfundi
félagsins 2007 sem fór umræða um að stjórn
félagsins hafi átt í óformlegum viðræðum við önnur
félög um einhverskonar samstarf eða sameiningu,

þar sem sveinafélagið var frekar einangrað vegna
þess að við vorum ekki í neinum heildarsamtökum.
Þetta var að há okkur í öllum samskiptum vegna
kjarasamninga og annarra réttinda félagsmanna.
Það kom fram tillaga frá félagsmanni um að
stjórnin fengi heimild fundarins til að hefja formlegar
viðræður við FIT um sameiningu. Sú tillaga
var samþykkt einróma. Það er skemmst frá því
að segja að í september 2007 var farið í allsherjar
atkvæðagreiðslu og þar var sameiningin samþykkt
og um áramótin 2007 – 2008 sameinuðust félög formlega.

HVENÆR VAR SVEINAFÉLAG PÍPULAGNINGAMANNA
STOFNAÐ OG HVAÐ VAR ÞAÐ STÓRT
FÉLAG?
Sveinafélag pípulagningamanna var stofnað í
KR húsinu, öðru nafni Bárubúð, þann 11. maí árið
1932. Félagið er stofnað upp úr Félagi pípulagningamanna
sem var félag meistara og sveina,
sem starfað hafði frá árinu 1928, en svo fór að
sveinar vildu tilheyra eigin félagi. Stofnendur
munu hafa verið sex pípulagningamenn sem allir
mynduðu stjórn hins nýja félags.
Í fyrstu fundagerð félagsins kemur fram að tilgangur
félagsins hafi verið að sameina alla pípulagningamenn
sem höfðu sveinspróf og berjast
fyrir því sem verða má til hagsbóta fyrir félagsmenn.
Einnig kemur fram að félagið sem heild
væri óháð öllum stjórnmálaflokkum og öðrum
félögum en að stjórnin myndi sjá til þess að
haldnir væru fræðandi fyrirlestrar um þjóðmál
sem og önnur nytjamál er heildina geti varðað.
Félagið gekk strax í Iðnsamband byggingamanna
í Reykjavík. Á aðalfundi 16. janúar 1938 var samþykkt
að 1% af launum félagsmanna rynnu til
félagsins og að helmingur gjaldsins yrði notaður
til að stofna styrktarsjóð sem yrði lánasjóður
fyrir atvinnulausa félagsmenn. Þessi sjóður
rann síðar inn í sjúkrasjóð félagsins. Við sameininguna
við FIT í janúar í fyrra voru skráðir um
300 félagsmenn í Sveinafélagi pípulagningamann

VAR MIKIL STARFSEMI Í FÉLAGINU FYRIR
UTAN HEFÐBUNDIN VERKALÝÐSMÁL, TIL AÐ
MYNDA VARÐANDI ORLOFSHÚS?
Það eru að verða 30 ár frá því að fyrsta orlofshúsið
var reist. Vorið 1980 ákvað stjórn félagsins að
athuga með land undir sumarhús. Eftir talsverða
leit var ákveðið að semja um leigu hjá Birni Sigurðssyni
í Úthlíð í Biskuptungum til 25 ára. Fyrra húsið
var svo reist strax um sumarið 1980 og seinna
húsið árið 1982. Fyrstu árin, eða til ársins 1984
voru húsin kynnt og lýst með gasi og olíu. Eftir að
rafmagn var leitt í húsin 1984 varð mikil breyting
á notkun húsanna. Þegar hitaveitan svo kom varð
algjör bylting á allri notkun, bæði sumar og vetur
en félagsmenn hafa verið duglegir að nota þessi
hús. Ný hús voru sett svo í stað þeirra eldri árin
1999 og 2004.

PÍPARAR HAFA STAÐIÐ FYRIR OG TEKIÐ ÞÁTT
Í KEPPNUM BÆÐI HÉR HEIMA OG ERLENDIS.
HVERNIG HEFUR YKKUR GENGIÐ?
Já, við píparar höfum tekið þátt í Norðurlandamóti
í pípulögnum frá árinu 2001 en það ár sendum
við nema til keppni í Danmörku í samstarfi við
meistarafélagið. Hinar Norðurlandaþjóðirnar
höfðu keppt allt frá árinu 1999 þegar keppnin
fór fram í Tromsö í Noregi. Frá árinu 2002 höfum
við haldið Íslandsmót annað hvert ár þar sem
sigurvegarinn verður fulltrúi Íslands í Norðurlandamótinu.
Árið 2005 héldum við keppnina og
var hún haldin í Perlunni og tókst í alla staði vel.
Árið 2007 var keppnin haldin í Malmö í Svíþjóð
og þar gerðum við okkur lítið fyrir og sigruðum
keppnina og eignuðumst okkar fyrsta Norðurlandameistara
í pípulögnum, Árna Heimisson, og
í framhaldi af þessum góða árangri var stefnan
svo tekin á heimsmeistaramótið sem haldið var í
Japan í fyrra.

TELUR ÞÚ AÐ MARKMIÐUM SAMEININGARINNAR
VIÐ FIT HAFI VERIÐ NÁÐ?
Já það tel ég, Þótt aðeins eitt ár sé liðið þá tel ég
okkur pípara miklu betur setta nú í stærra og öflugara
félagi, og að ég tali nú ekki um ástandið eins og
það er í dag. Sveinafélagið hefði aldrei getað veitt
okkar félagsmönnum jafn góða þjónustu og þeir
eru að fá hjá FIT í dag. Ég tel reyndar að það sé ekki
neinn grundvöllur fyrir alvöru rekstri stéttarfélags
sem hefur færri en þúsund til fimmtánhundruð
félagsmenn.

HVERJAR ERU VÆNTINGAR ÞÍNAR UM FRAMTÍÐINA,
HVERT STEFNIR FIT?
Mínar væntingar eru þær að píparar alls staðar að
af landinu sameinist undir merkjum FIT. Ástæðan
er einföld. Þar munu þeir fá betri þjónustu, aðgang
að öflugri sjóðum og fjölbreyttari kostum í orlofsmálum.
Stefna FIT er skýr, það er að gera betur við
félagsmanninn og standa vörð um hagsmuni hans.
Það er alltaf hægt að gera betur.

Fleira áhugavert: