Virðum handverkið – Ábyrgðartilfinningin og heiðarleikinn

Heimild:

 

Janúar 1998

Berum virðingu fyrir verkum okkar

Kristján Ottósson

Fyrir 102 árum var fyrsta ofnhitakerfið sett í hús á Íslandi. Það er að hluta til það sama í dag. Kristján Ottósson spyr hvort hvort ábyrgðartilfinningin og heiðarleikinn gagnvart handverkinu sé sá sami í dag og á þessum löngu liðna tíma.

GÆÐASTÝRING er á engan hátt ný af nálinni, heldur er einfaldlega verið að tala um skipulögð vinnubrögð. Oftast er þetta spurning um að: „Segja hvað maður gerir“ og ekki síst „Að gera það sem maður segir“. Einar elstu heimildir um gæðakröfur eru um það bil 4000 ára gamlar og eru eitthvað á þessa leið: „Ef byggingameistari byggir hús fyrir annan mann og vinna hans er ekki nógu góð, svo húsið hrynur og drepur eigandann … skal byggingameistarinn gjalda fyrir það með lífi sínu“. (Kröfur þessar eru úr lögum Hammúrabis Assýríukonungs frá 2150 fyrir Krist.)

Að tilhlutan Byggingardeildar borgarverkfræðings í Reykjavík var í október 1976 sett á stofn ráðgjafarnefnd til að setja fram tillögur á fyrirkomulagi á lokafrágangi lagnakerfa. Nefndina skipuðu: Kristján Flygenring vélaverkfræðingur, Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns, Ólafur Sigurðsson raftæknifræðingur, Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, Jón Otti Sigurðsson raftæknifræðingur, Verkfræðistofunni Rafhönnun, Sverrir Helgason rafvirkjameistari, Sjálfvirkjanum, Kristján Ottósson vélstjóri/blikksmíðameistari, Byggingardeild borgarverkfræðings.

Fyrir 20 árum

Nefndin lauk störfum 2. desember 1977 og skilaði tillögum til úrbóta. Vísast þar í Lagnafréttir nr. 8, útgefið 1990 af Lagnafélagi Íslands. Tillögur þær sem nefndin skilaði fyrir 20 árum eru enn taldar þær bestu við lokafrágang lagnakerfa. Örfáir hafa unnið eftir tillögum nefndarinnar með góðum árangri, en flestir starfa ekki eftir þeim og ljúka þar með aldrei verkum sínum, og komast upp með það. Frágangur lagnakerfa í húsum er því miður oft mjög ófullnægjandi. Oft er miklu til kostað í hönnun og tækjabúnaði, en samt verða menn fyrir óþægindum og tjóni vegna ófullnægjandi frágangs.

Viðgerðaraðferð tryggingafélaga

Bilanir í vatnslögnum stafa oft af óvandaðri hönnun, óvönduðu efni og frágangi. Tjón sem af því hlýst er oft mun meira en sem svarar biluninni sjálfri vegna þess hve mikið þessi tegund bilana (vatnsskaði) skemmir út frá sér. Viðgerðaraðferð tryggingafélaga á vatnsskaðatjónum á lögnum í húsum eru með ólíkindum, þar er ekki leitað að orsök vandans og ekki kallaður til hönnuður.

Í þessu sambandi er rétt að benda á skýrslu frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins um vatnstjón, 1994, og skýrslur Gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands.

Kostnaðarsöm tjón

Framangreindir ágallar hafa kostað húsbyggjendur mikla fjármuni. Það er auðvelt að færa rök fyrir því að rannsóknir og faglegar umbætur á því sviði lagnakerfa, einkum með hliðsjón af endingu og rekstri þeirra, myndi ekki einasta draga úr tilfinnanlegum óþægindum fólks heldur einnig draga úr óhemju kostnaðarsömum tjónum sem af þessu ástandi leiðir.

Hver er orsök vandans?

Hver skyldi orsökin vera fyrir þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag? Var ekki sett í byggingarreglugerð fyrir um 20 árum að rör ættu að vera í þurru umhverfi og aðgengileg til þjónustu? Hverjir eru þeir sem hafa tekið lögin í sínar hendur og valdið húsbyggjendum þessum mikla skaða með því að loka rörin inni í veggjum og gólfi þar sem þau tærast í sundur á ótrúlega fáum árum?

Fyrir 102 árum

Árið 1895 í húsi Ottós Watne á Seyðisfirði var sett upp fyrsta ofnhitakerfi í hús á Íslandi, rörin og ofnarnir þar eru þeir sömu í dag að hluta til og voru sett þar upp fyrir 102 árum. Hvers vegna svona góð ending? Rörin eru ekki falin inni í veggjum, þau sjást og eru því í þurru umhverfi. Kunnu hönnuðir og byggingameistarar á þeim tíma betur til verka en kollegar þeirra í dag? Var ábyrgðartilfinningin og heiðarleikinn gagnvart handverkinu sterkari þá, en í dag?

 

Fleira áhugavert: