Hátæknifjós Gunnbjarnarholti – 480 Milljónir

Heimild: 

 

Smella á mynd til að heyra/sjá umfjöllun

Sept 2018

Eitt stærsta og fullkomnasta fjós landsins rís nú á Suðurlandi. Áætlaður kostnaður við það nemur tæpum hálfum milljarði. Bóndinn segir dæmið ganga upp, enda hafi hann fulla trú á framtíð íslenskrar mjólkurframleiðslu.

Á bænum Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er verið að reisa eitt alstærsta og fullkomnasta fjós landsins. Og það er engin smásmíði. Nýja fjósið, sem er í raun viðbót við eldra fjós, verður 4.200 fermetrar. Þar verða 220 til 240 mjólkandi kýr, en í heildina verða tæplega 500 gripir í fjósinu. Áætlaður kostnaður er á bilinu 420 til 480 milljónir. Til stendur að taka fjósið í notkun í október.

„Maður hefur kannski alltaf verið ákveðið geggjaður og verður bara að leyfa því að vera þannig,“ segir Arnar Bjarni Eiríksson, bóndi í Gunnbjarnarholti. „En við byrjuðum að búa fyrir 28 árum síðan og þá vorum við með rétt um 20 kýr. Síðan hefur þetta vaxið stig af stigi allar götur síðan og maður hefur alltaf haft trú á því að mjólkurframleiðsla yrði öflug á Íslandi. Og það er það sem heldur driffjöðrinni í þessu.“

Stækkun og fækkun

Arnar Bjarni hefur ferðast víða um heim, meðal annars til Evrópu, Bandaríkjanna og Ástralíu, til þess að kynna sér tækninýjungar. Á meðal þess sem finna má í nýja fjósinu er alsjálfvirkt fóðurkerfi sem líkja má við risavaxna matvinnsluvél. „Við getum í raun kallað þetta eldhús eða nokkurs konar mötuneyti fyrir kýrnar. Þannig að í þessu mötuneyti eru fimm tegundir af gróffóðri plús þær tegundir af fóðurbæti sem við viljum hafa. Og svo segjum við fyrir ákveðinn hóp í fjósinu, þá viljum við ákveðna uppskrift með þetta mörgum kílóum af þessu fóðri og þetta mörg kíló af hinu.“

Þótt fjósið sé nánast alsjálfvirkt segir Arnar Bjarni að ekkert komi í stað mannshugans. Þrátt fyrir tæknina verði bændur að kunna til verka.

Einhverjir hafa áhyggjur af því að fjósum fækki og að þau fari stækkandi, er það að kristallast hérna?

„Já auðvitað er ekkert hægt að neita því að það er sú þróun sem verður að eiga sér stað. Og auðvitað hefur orðið mikil fækkun á búum nú þegar og hún heldur eitthvað áfram. En á móti kemur að eitt tekur við af öðru og ferðaþjónustan er búin að hjálpa mikið upp á þessar dreifðu byggðir, þannig að það er líf í sveitunum,“ segir Arnar Bjarni.

 

Fleira áhugavert: