Stýringarnar, grindin, tækjaklefinn – Heilinn og hjartað..
Febrúar 1998
Tækjaklefinn er heilinn og hjartað í húsinu
Hitaveita Reykjavíkur gæti efnt til samkeppni um gerð nýrrar hitaveitugrindar.
Grindin myndi leysa þá gömlu og þreyttu af hólmi. Í hverju húsi er hitakerfi, neysluvatnskerfi og að sjálfsögðu rafkerfi. Öll eru þessi kerfi nauðsynleg til að hægt sé að lifa og starfa í húsinu. Einhvers staðar leynist stofninn að þessum kerfum, á bílskúrsvegg, undir stiga, í skáp í einhverju horni eða í besta falli í litlum þröngum klefa. Sé um klefa að ræða er ekki ólíklegt að íbúar og notendur hússins hafi ekki hugmynd um að bak við allt draslið, málningardósir, hjólabretti, vatnsnuddtæki, gömul heimilistæki eða hver veit hvað, leynist bráðnauðsynlegir lokar fyrir heitt og kalt vatn. Þar á bakvið er líka mælirinn sem segir hitaveitunni hve mikið notað er af heitu vatni. Að honum þarf álestrarmaður veitunnar að komast einu sinni eða tvisvar á ári og það getur verið þrautin þyngri. Ekki alls staðar jafn slæmt Vissulega er þetta ýkt mynd, sem dregin var upp að framan, þetta er ekki algilt. En víða er pottur brotinn, t.d. er það alvanalegt, ef hitagrindin er á bílskúrsvegg, að hún sé notuð til að hengja á alls kyns dót svo sem regnfatnað, málningarrúllur, garðáhöld og svo mætti lengi telja.
Þessi umgengni við „heilann og hjartað“ í húsinu er því miður víða fyrir neðan allar hellur. Þó að framan hafi einnig verið minnst á rafkerfið er það ekki undir sömu sök selt. Hönnuðir rafkerfa og rafvirkjar hafa fyrir löngu þróað töfluskápa sem vernda mæla og önnur nauðsynleg tæki, þessir töfluskápar eru nær alltaf aðgengilegir ef á þarf að halda. Það eru ekki margir áratugir síðan að rafmagnsmælar og gömlu öryggin voru berskjölduð einhvers staðar á vegg, en svo tók stétt rafmagnsmanna þetta föstum tökum og töfluskáparnir urðu staðreynd og eru sjálfsagðir í dag. Þessu er ekki að heilsa með inntök, loka og önnur tæki á heitu og köldu vatni, þar hefur lítið breyst áratugum saman.
Átaks er þörf Þessu verður að breyta með sameiginlegu átaki allra sem málið skiptir. Það er nefnilega til lítils að ráðast að húseigendum og umráðamönnum bygginga, frumkvæðið verður að koma frá hönnuðum, veitustofnunum en umfram allt pípulagningamönnum og í raun eiga þeir höfuðsök á því að frágangur og þarafleiðandi umgengni um tækjaklefa og mælagrindur er eins og staðreyndir sýna; í alltof mörgum tilfellum fyrir neðan allar hellur. Það er sjaldgæft að pípulagningamenn fái nákvæma teikningu af því hvernig uppsetning á mælagrind, mælum, lokum og öðrum tækjum á að vera í tækjaklefa, oftast línur á blaði sem telja upp hvaða tæki, mælar og lokar eiga að vera á kerfinu. Þetta er bæði kostur og galli Kosturinn er sá að pípulagningamaður með faglegan metnað og fagurfræðilegt skyn fær tækifæri til að skipuleggja sjálfur og skilja eftir sig lagnaverk sem athygli vekur fyrir góðan frágang og þokka. Því miður sleppir meirihluti pípulagningamanna tækifærinu og oft vekur furðu hvað metnaðarleysið er mikið.
Oft er þröngt í tækjaklefunum og mikill þrýstingur á lagnamenn að nota sem minnst rými, bæði frá húseigendum og jafnvel frá öðrum iðnaðarmönnum. En þó rýmið sé nægjanlegt virðist það vera innbyggð árátta marga lagnamanna að þjappa lögnum saman í slíkan hnút að jafnvel vekur furðu sú íþrótt sem til þurfti til að geta komið að töngum og tólum. Frumkvæði Hitaveitu Reykjavíkur óskast Hérmeð er lýst eftir frumkvæði Hitaveitu Reykjavíkur um bættan frágang í tækjaklefum húsa á veitusvæði hennar. Það frumkvæði yrði þannig að HR efndi til samkeppni meðal pípulagningamanna um gerð nýrrar hitaveitugrindar, sem leysti þá gömlu og þreyttu af hólmi.
Þátttakendur fengju nokkuð frjálsar hendur um lausnir og ekki ætti að slá hendi á móti því að fá mæla- og tengigrind sem væri annaðhvort í skáp eða í þannig umgjörð að mælar og tæki yrðu ekki notuð sem snagar fyrir ýmiskonar drasl. Það ætti heldur ekki að slá hendi á móti því að einstakir pípulagningameistarar fái heimild til að framleiða mismunandi tengigrindur, sem byggjast á mismunandi tækjum en uppfyllir megin skilyrði. Það losar hins vegar ekki stétt pípulagningamanna undan þeirri skyldu að vanda alla uppsetningu í tækjaklefum, merkja alla ventla, mæla og önnur tæki. Skilja síðan eftir greinagóða töflu á vegg, sem skýrir hvað er hvað og hvernig bregðast skuli við ef einhvers staðar verður óhapp og vatn flýtur þar sem það ekki að fljóta. Og auðvitað á frágangurinn að vera slíkur að pípulagningameistarinn, sem lagði kerfið og ábyrgð ber á verkinu, geti glaður og stoltur skilið nafnið sitt eftir á veggnum og hugsað; sjáiði bara, þetta er mitt verk.