Byggingareglugerð – Krafa um hámarkshita

Heimild: 

 

Mars 1998

Krafa um hámarkshita á kranavatni á villigötum

Það þarf að koma í veg fyrir of heitt vatn á þeim stöðum, þar sem slysahættan er. Það er hægt að gera á tiltölulega ódýran hátt.

Í Þeirri Byggingareglugerð, sem ætlað er að taki gildi 1. júlí 1998 er þetta ákvæði: „Vatnshitastig við töppunarstað skal ekki vera svo hátt að hætta sé á húðbruna (slysi)“. Á mannamáli þýðir þetta að heitt vatn sem rennur út úr krana eða blöndunartæki má ekki vera heitara en 60 gr. C, jafnvel lægra.

Allir sem um reglugerðina hafa fjallað hafa lokið lofsorði á þetta ákvæði, svo hefur einnig verið gert í þessum pistlum, því það er ekki vanþörf á að koma í veg fyrir alvarleg brunaslys sem verða árlega. Þessi slys eru það alvarleg að þau hafa leitt til dauða og langflest verða slysin á börnum.

Það er því engin furða að menn taki þessu ákvæði fagnandi, en það er ekki sama hvernig markmiðinu er náð. Þær leiðir sem helst hafa verið í umræðunni hafa gífurlegan kostnað í för með sér, jafnast á við 4 – 5 Skeiðarárhlaup sagði einn ágætur prófessor.

Hvað skal gera?

Segjum svo að Danir hafi leyft 75 gr. C heitt kranavatn, sem þeir hafa ekki gert, og ákveði einn dag að leyfilegur hámarkshiti verði 55 gr. C.

Hjá þeim væri þetta einfalt mál, einfaldlega með breytingu á hitastilli vatnshitarans í öllum húsum, engar breytingar á tækjum, enginn kostnaður.

Hérlendis er þetta miklu flóknara vegna þess að víðast hvar er heita kranavatnið ekki upphitað kalt vatn eins og er erlendis, heldur jarðhitavatn oftast 70 ­ 75 gr. C heitt, sumstaðar heitara.

Sú leið sem oftast er rætt um er að setja millihitara í hvert hús þar sem hitaveituvatnið hiti upp kalt vatn upp að ákveðinni stillingu, sem hver og einn getur valið innan marka reglugerðar. Það er þessi leið sem kostar jafnt og 4 ­ 5 Skeiðarárhlaup auk þess sem hún hefur ýmsa aðra vankanta svo sem:

Heitavatnslagnirnar innanhúss eru víðast hvar úr galvaniseruðum stálpípum, þá er sama vá komin í heitavatnsleiðslur kranavatnsins eins og þess kalda, ryðmyndun og tæring að innanverðu.

Notkun á hitaveituvatni eykst nokkuð en notkun á köldu vatni eykst um 50-60%. Eru vatnsveiturnar tilbúnar að taka það á sig og þolir dreifikerfi þeirra þetta?

 

Krafa án undantekninga

Er þörf á að setja í Byggingareglugerð undantekningalausa kröfu um að kranavatn sé hvergi heitara en 60 gr. C?

Ef skoðaðar eru skýrslur um brunaslys af heitu vatni hérlendis sést að slysin verða nær undantekningalaust í baðkerum og sturtum, ekki í handlaugum eða eldhúsvöskum.

Það er því sjálfsagt að einbeita sér að því að koma í veg fyrir of heitt vatn á þeim stöðum sem slysahættan er og það er hægt að gera á tiltölulega ódýran hátt.

Með því að setja sjálfvirk hitastillt blöndunartæki við öll baðker og í allar sturtur í eldri húsum, þetta er nánast 100% öryggi. Ef kaldavatnið bregst lokar tækið fyrir allt vatnsrennsli.

Í nýbyggingum er hægt að setja einn sameiginlegan sjálfvirkan blandara fyrir allt kranavatn í böðum og þá verður að sjálfsögðu að velja öruggt laganefni.

Eftir stendur eldhúsvaskurinn, þar yrði heita vatnið beint úr inntaki, á fullum hita og það er krafa þess merka félags „hagsmunasamtaka uppvaskara“, fullheitt vatn til að skola fituga diska og engar refjar.

Þessi rökstuðningur sýnir og sannar að það væri glapræði að láta greinina fyrrnefndu „vatnshitastig við töppunarstað skal ekki vera svo hátt að hætta sé á húðbruna (slysi)“ standa óbreytta við gildistöku Byggingareglugerðar.

Þessi grein gæti hljóðað svo:

„Hámarkshiti á vatni frá tækjum við baðker, heita potta, sturtur eða önnur baðtæki má ekki fara yfir 60 gr. C“.

Þetta segir allt sem segja þarf og ef einhverjum dytti í hug að færa kröfuna neðar t. d. 40 ­ 50 gr. C þá ætti sá hinn sami að gera sér grein fyrir að þá eykst hættan á örverum og ýmsum aðskotadýrum, þá erum við að útbúa þeirra hagstæðustu lífsskilyrði.

MEÐ sjálfvirku hitastýrðu blöndunartæki geturðu áhyggjulaust látið vatnið streyma yfir þig.

Fleira áhugavert: