Vatnsbólið Mygludölum – Nafngiftin?

Heimild: 

 

Maí 1995

Myglan í Mygludölum

Í fimmta áfanga náttúruminjagöngu Ferðafélags Íslands miðvikudaginn 17. maí 1995 var gengið um Búrfellsgjá ofan Hafnarfjarðar að Búrfelli og þaðan að Valabóli og niður í Kaldársel. Með í förinni var Jón Jónsson jarðfræðingur, sem er manna fróðastur um jarðfræði Reykjanesskagans.

Jón fræddi okkur um margt á leiðinni og á toppi Búrfellsgígsins benti hann á graslendi nokkurt norðan Valahnúka sem kallað er Mygludalir. Mér skildist að nafnið gæti verið dregið af ljósum jarðvegi á svæðinu og að liturinn stafaði af þörungaleifum (kísilgúr; barnamold) úr stöðuvatni, sem þarna hefði verið í fyrndinni, en hefði þornað upp fyrir löngu.

Mér þóttu þetta í meira lagi merkileg tíðindi, enda vissi ég ekkert um tilurð þessa örnefnis annað en það sem stendur í grein Gísla Sigurðssonar um Selvogsgötu í 1. ársriti Útivistar (1976). Þar er talið líklegt að svæðið heiti eftir merinni Myglu, sem var eign Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. ­ Ég tel þó afar ólíklegt að merin hafi farið að álpast þarna út í hraunið þó hún hafi sjálfsagt verið bæði þver og sérvitur eins og eigandinn!

Því miður lá gönguleið okkar ekki um þetta svæði, en næsta laugardag rauk ég þangað einsamall með þeim ásetningi að taka sýni af kísilgúrnum og skoða í smásjá minni þegar heim kæmi.

Að kenna svæðið við dal er mikið ofnefni. Þetta er flatur grasfláki nokkur hundruð metrar á hvern veg, sem liggur fast upp að Valahnúkum austarlega að norðanverðu. Graslendið er umlukið hraunum á alla vegu nema við hnúkana. Austan við það er úfinn hraunkargi en að vestan- og norðanverðu er mun sléttara helluhraun. Fyrrnefnda hraunið gæti verið komið frá Þríhnúkum en hitt kannski frá Búrfelli. Graslendið liggur lægra en hraunið umhverfis en hæðarmunur er þó lítill að vestanverðu. Líkur á því að vatn hafi staðið þarna uppi að staðaldri eru harla litlar; til þess eru hraunin of gropin. Á hinn bóginn er ekki fráleitt að þarna kunni að myndast krapablár í snjóalögum.

Þegar gengið er um svæðið verður ljóst að jarðvegurinn er víða þunnur og skammt niður á undirlagið sem ég tel víst að sé helluhraun ekki ólíkt því sem er að vestanverðunni. Mikið er þarna um skvompur og bungur eins og víða gerist í helluhraunum. Hvergi sá ég neinn ljósan jarðveg, en tók samt jarðvegssýni úr leirflagi. (Ekki sást eitt einasta korn af kísilgúr í því í smásjánni þrátt fyrir langa leit er heim kom.)

Spurningunni um nafnið ósvarað

Spurningunni um myglunafnið var því ósvarað, en lausnarinnar þurfti ekki að leita lengi. Í Mygludölunum grær fleira en gras. Í grasrótinni er nefnilega gríðarlega mikið af mosa. Og ofan á mosanum vex myglan! Mosinn er víða nærri þakinn gráleitum flyksum af einhverju sem minnir á skófir á steinum eða öllu heldur mygluskán. Ég er illa svikinn ef þetta er ekki einhver fléttutegund. En svæðið ber nafn með réttu hvað mygluna snertir. Ég tel því að skýringin á örnefninu liggi ljós fyrir og að hvorki þurfi að leita til merar Ingólfs né kísilþörunga í því sambandi.

Mygludalirnir hafa áreiðanelga orðið til við það að leysinga- og rigningavatn hefur borið möl, sand og leir úr Valahnúkunum út yfir helluhraunið og myndað þar jarðveg smám saman. Greinileg merki um þetta eru í hnúkunum og farvegir með þessum framburði liggja raunar langt norður í Mygludalina þannig að þessi uppbygging er enn í gangi eins og nærri má geta. Valahnúkarnir eru gerðir úr móbergi sem veðrast mjög hratt. Ef helluhraunið undir svæðinu er jafngamalt hrauninu frá Búrfelli er það um 7200 ára þannig að nægur tími hefur gefist til þessara tilfæringa.

Reynir Eyjólfsson, Hafnarfirði

Mygludalir

 

Ágúst 1995

Myglan í Mygludölum

Í MORGUNBLAÐINU frá 30. maí 1995 er bréf frá Reyni Eyjólfssyni varðandi skýringu á nafninu Mygludalir, en tilefni bréfsins það sem ég sagði og ekki sagði í gönguför á Búrfell þann 17. s.m. Bréfritari er ekki sáttur við mína skýringu og er þá vissulega jafnt á komið með okkur að hvorugur er sáttur við skoðun annars. Það má vel heita glappaskot af mér að nefna kísilgúr í þessu sambandi því það á ekki við fyrr en leifar kísilþörunganna hafa náð að mynda setlag, en slíkt er ekki þarna að sjá á yfirborði. En því notaði ég þetta orð að ég veit að það þekkja allir. Ekki vildi ég þreyta fólk með því að nánar gera grein fyrir minni skoðun á uppruna nafnsins. Svæði þetta, í heild, einkennist af samfelldu graslendi ofan á hrauni, einfaldlega af grónu hrauni. Jarðvegsmyndun á þessu svæði ætla ég að orðið hafi á þann veg, sem nú skal greina. Endur fyrir löngu mun grunnvatn hafa staðið þarna hátt í sprungum og hraunbollum og náð a.m.k. tímabundið að mynda tjarnir, en slíkt er kjörsvæði fyrir kísilþörungagróður. Þarna hafi því fljótlega myndast kísilgúrlag, sem þétti hraunið, eða öllu heldur hraunin, því þau eru þarna a.m.k. 2, en líklega 3. Eftir það kom annar vatnagróður til og loks jarðvegur nokkuð blandaður áfoki. Með borun gegnum jarðlögin mætti auðveldlega leiða í ljós hvort þetta er rétt eða ekki. Ætti þá að bora í dýpstu laut. Mér sýnist að bréfritari mætti vel endurskoða hugmynd sína um jarðvegsmyndun á þessum stað og helst, með nokkurri varúð, nota orðið „áreiðanlega“. Skoðun mín á uppruna nafnsins er byggð á eftirfarandi: Ég kom þarna fyrst fyrir mörgum árum, löngu áður en ég hafði heyrt nafnið. Auðsætt var að þá hafði vatn nýlega staðið þar í lægstu lautum, sigið niður, en í grasinu var eftir hvít slikja sem, hvað lit varðar, minnti nokkuð á myglu. Þegar ég, löngu síðar, heyrði um þetta örnefni, fannst mér það koma óvenju vel heim við það, sem ég hafði séð. Sennilega var þarna um að ræða Melosira-tegundir kísilþörunga, en þar tengjast sellurnar saman í langar keðjur.

Ljóst er að þarna er grunnvatnsstaða að jafnaði há og nær tímabundið til yfirborðs í tjörnum. Nú fer grunnvatnsstaða lækkandi og ekki þætti mér ólíklegt að svona nokkuð mætti nú finna í grasi í Helgadal, sem nýlega er komið á þurrt. Líka ætla ég að sjá megi ljósa rönd í jarðvegi í bökkum Kaldár og hvítt lag á steinum og klöppum við ána. Þetta eru kísilþörungar, væntanlega einkum tegundir sem fremst er að finna í köldu, tæru vatni.

Að bera fyrsta landnámsmanninum á brýn sérvisku er óviðfelldið. Með okkur öllum bludnar nokkur sérviska, kunnum bara mismunandi vel með að fara. Hún er vandmeðfarin vandakind, sem þarfnast taumhalds og stjórnunar. Mér kemur Ingólfur fyrir sem grandvar maður, sem í hógværð fól örlög sín æðri máttarvöldum. Fóstbróðir hans bauð þeim birginn og tapaði.

Jón Jónsson, Garðabæ

Mygludalir

Fleira áhugavert: