Þakvatn – Söfnun og notkun

Heimild: 

 

Maí 1998

Er söfnun og notkun þakvatns æskileg?

Erlendis er áhugi á söfnun þakvatns ekki eingöngu bundinn við þá, sem eiga sumarhús á vatnslitlu svæði. Áhuginn er einnig vaknaður í þéttbýli.

Þegar komið er vor fara þéttbýlisbúar að stússa í garðinum heima, í hesthúsinu eða dytta að umhverfi sumarhúsa, allt eftir því hvernig aðstæður hvers og eins eru og ríkidæmi. Á rigningardegi er svolítið skrítið að tala um skort á vatni og margir landar ganga með þá grillu í höfði að á Íslandi sé heimsins besta vatn og hvergi skortur á þessum lífsnauðsynlega vökva. En það er öðru nær, víðast hvar er vatn fáanlegt en sumstaðar svo lélegt og mengað að það er tæplega drykkjarhæft. Á flestum stöðum, þar sem byggð eru sumarhús, er vatn finnanlegt og aðgengilegt, en ekki allsstaðar. Þá er gott að grípa til gamla ráðsins, sem allir notuðu í Vestmannaeyjum og Kópavogi fyrir nokkrum áratugum, að safna vatni af þakinu. Víða erlendis er söfnun þakvatns komin á dagskrá að nýju, í þessu sem öðru héldu menn að hin hraðfleyga tækni gerði slíkt aðeins minningu um gamaldags vinnubrögð, en tæknin er ekki óbrigðul. Í Danmörku og Noregi er talverður áhugi á söfnun þakvatns á vissum landsvæðum og þess vegna hafa lærðir menn þarlendis farið að leggja niður fyrir sér hvernig best sé að standa að söfnun og notkun þess. Til ýmissa nota

Útbúnaður og lagnir taka efalaust mið af því til hvers á að nota vatnið. Ef það á eingöngu að nota til þvotta og vökvunar grasvaxtar er útbúnaðurinn einfaldur, í sumum tilfellum aðeins það að niðurfall rennunnar endar í tunnu og ekki meira um það. En ef það á að nota vatnið til matargerðar og drykkjar aukast kröfur um góðan útbúnað. Þar þarf einkum að taka tillit til tveggja atriða; hvernig er þakið sem safnar vatninu, úr hvaða efni er það og hinsvegar verður að sigta vatnið á einhvern hátt til að ýmis óhreinindi verði ekki of mikil. Ef litið er á fyrra atriðið þá má benda á að drykkjarvatni má ekki safna af þaki þar sem eru þökur með ýmiskonar grasvexti, ekki af svölum eða pöllum þar sem umgangur er. Lítil líkindi eru til að hér finnist þök með asbestskífum, en ef einhver hefur notað slíkar skífur á sumarhúsið í vatnslausu umhverfi þarf hann að gæta að sér ætli hann að drekka vatnið.

Tjörupappa er allt í lagi með en ekki fyrst eftir að einhver sterk tjöruefni hafa verið borin á þakið. Í flestum tilfellum eru þök hérlendis bárujárnsklædd og það er hið besta mál, en það er rétt að fylgjast með hvort þar myndast ryðflekkir, það þarf að gera hvort sem er. Síðara atriðið er að sigta vatnið þó aldrei verði komið í veg fyrir að ýmiskonar ryk og jafnvel sandur berist með vatninu í safntankinn. Rétt er talið að sigtið sé ekki þéttara en sem nemur 0,2 mm, annars er hætta á að það stíflist algjörlega. Æskilegast er að það sé sigti í fallpípunni frá rennu niður í safntank en ennþá mikilvægara er að það sé sigti á leiðslunni sem flytur vatnið úr tanknum að dælunni í bústaðnum.

Svo koma ýmis útfærsluatriði svo sem hvar á að staðsetja safntankinn, hve stór á hann að vera og hve mikið á að leggja í útbúnaðinn, á hann að vera ein tunna eða vatnskerfi sem er með talsvert mikla sjálfvirkni. Erlendis er áhugi á söfnun þakvatns ekki eingöngu bundinn við þá sem eiga sumarhús á vatnslitlu svæði. Áhuginn er einnig vaknaður í þéttbýli þó vart verði þakvatn þar notað til drykkjar eða matargerðar vegna mengunar. En vatnið er víða dýr munaðarvara, sem keypt er gegnum mæli á sama hátt og við kaupum heita vatnið hérlendis. Þess vegna kann það að vera áhugavert að setja þar upp sína eigin vatnsveitu til að vökva garðinn, þvo bílinn eða til að vaska og skúra.

 

Fleira áhugavert: