Hótel Guldsmeden Laugarvegi – 52 herbergi
Maí 2018
Áformað er að opna 52 herbergja hótel á Laugavegi 55 síðla næsta sumar. Þar verða þrjú verslunarrými á jarðhæð og veitingahús í kjallara. Hjónin Linda Jóhannsdóttir og Ellert Finnbogason munu reka hótelið sem verður undir merkjum dönsku keðjunnar Guldsmeden.
Með því fjölgar Guldsmeden-hótelum á Íslandi en hjónin hófu rekstur hótelsins Eyja Guldsmeden í Brautarholti í Reykjavík árið 2016. Þar eru 65 herbergi.
Þjónustan persónuleg
„Við erum lítil og einbeitum okkur að því að veita persónulega þjónustu. Þegar samkeppnin eykst skiptir máli að standa sig vel í gæðum, þjónustu og upplifun gesta,“ segir Linda sem hefur áhyggjur af samþjöppun á hótelmarkaðnum á Íslandi.
„Stóru keðjurnar hafa verið að kaupa upp minni hótel. Ég hef áhyggjur af því að það dragi úr fjölbreytileika á markaðnum. Við verðum alltaf valkostur fyrir fólk sem kýs minni „boutique“-hótel og því teljum við markað fyrir annað Guldsmeden-hótel í Reykjavík. Við fengum mjög góða staðsetningu við Laugaveg. Samlegðaráhrifin verða töluverð fyrir okkur. Við hjónin störfum í þessu af lífi og sál. Þetta er okkar áhugamál.“