Vatnsveita Álftanesi – Íbúar í hættu?

Heimild: 

 

Maí 2018

Sveinn Gauti Einarsson

Slæmt ástand vatnsveitu á Álftanesi stefnir íbúum í hættu

Vatnsveitan á Álftanesi er léleg. Þrýstingur er lágur og miklir lekar í kerfinu. Fyrir þessa lélegu þjónustu borga svo íbúar hæsta, eða næsthæsta vatnsgjald á höfuðborgarsvæðinu. Þrýstingurinn veldur íbúum óþægindum í daglegu lífi, en það er ekki það versta.

Í ákveðnum hverfum á Álftanesi skemmast blöndunartæki, þvottavélar og fleira af völdum sands og drullu sem berst með vatninu. Þannig hefur ástandið verið í nokkur ár. Það er ekki sandur í vatninu úr vatnsbólinu. Sandurinn hlýtur því að berast í vatnið í vatnsveitunni. Mögulega er gat á leiðslunni þar sem undirþrýstingur myndast. Þá sogast sandur og annað úr umhverfinu inn í neysluvatnslögnina. Þetta hefur verið staðfest af Heilbrigðiseftirlitinu með sýni sem tekið var síðasta sumar.

Það að yfirborðsvatn komist inn í vatnsveituna er grafalvarlegt mál. Ef yfirborðsvatn blandast neysluvatni ber samkvæmt neysluvatnsreglugerð að tilkynna neytendum um stöðuna, grípa til aðgerða og lagfæra ástandið. Það var ekki gert.

Tengd mynd

Hægt er að spyrja af hverju er svona slæmt að yfirborðsvatn blandist neysluvatninu. Þegar slík blöndun verður er líklegt að faraldrar sjúkdóma breiðist út. Slíkt gerðist í Húsafelli og á Mývatni árið 2004 þegar um 300 manns smituðust af nóróveiru þegar yfirborðsvatn barst í vatnsveitu. Salmonella og kampýlóbakter geta lika borist með menguðu neysluvatni. Jafnframt má gera ráð fyrir því að magn yfirborðsgerla sé alltaf töluvert þegar vatnið mengast. Yfirborðsgerlar geta valdið vægari niðurgangspestum. Rannsóknir hafa sýnt að fylgni er á milli gæða vatnsveitu og tilkynntum niðurgangstilfellum.

Skaðlegir síklar berast helst í yfirborðsvatn á svæðum þar sem dýr eru sem og þar sem rotþrær eru notaðar. Á Álftanesi er mikið dýra og fuglalíf. Rotþrær eru ennþá notaðar í sumum hverfum.

En mengun vatnsins er ekki það eina sem veldur hættu. Verði eldsvoði á Álftanesi er óvíst hvort nægt vatn fáist þar sem ekki virðist vera hægt að halda uppi vatnsþrýstingi vegna leka.

Þrýstimunur heita og kalda vatnsins skapar líka hættu. Þar sem þrýstingurinn á heita vatninu er meiri en því kalda getur heita vatnið þrýst sér inn í kaldavatnslagnirnar og sjóðheitt vatn getur þá komið út úr báðum krönum. Óblandað heitt vatn getur valdið því að fólk brenni sig.

Veitur eiga að senda allan sinn mannskap í lekaleit á Álftanes, gera við lögnina og tryggja aftur heilnæmi vatnsins og öryggi íbúanna. Annað er ekki í boði.

Íbúar geta gert kröfu á að Veitur endurgreiði vatnsgjald undanfarinna ára, þar sem fyrirtækið hefur ekki afhent fullnægjandi vöru. Jafnframt ættu Veitur að greiða fyrir blöndunartæki, þvottavélar og önnur tæki sem skemmst hafa af völdum vatnsins.

Þetta ástand er algjörlega óboðlegt. Í þessu máli hafa allir eftirlitsaðilar brugðist. Heilbrigðiseftirlitið hefur ekki sinnt skyldum sínum til að tryggja heilnæmi vatnsins. Veitur hafa lítið sem ekkert gert til að bæta ástandið. Garðabær hefur svo brugðist íbúum sínum með því að leyfa þessu vandamáli að viðgangast svo árum skipti. Allir þessir aðilar hafa sýnt af sér mikið gáleysi og geta engu öðru en heppni þakkað að ekki hefur farið illa hingað til.

Fleira áhugavert: