Lagnaefni – Úr hverju eiga rörin að vera?
Nóvember 1998
Er ryðfrítt stál vænlegt lagnaefni?
Ráðstefna Samorku var tímamótaráðstefna . Þar voru ný lagnaefni, svo sem plaströr, ryðfrí rör og álplaströr, viðurkennd sem kostur við val á lagnaefnum.
Á ráðstefnu Samorku „Framtíðarsýn í lagnamálum“, sem var vel heppnuð og árangursrík að öllu leyti, var rætt um hvaða lagnaefni hentuðu best í framtíðinni til hita- og neysluvatnslagna.
Grundvallarniðurstaðan varð sú að ekki væri hægt að gefa út eitt vottorð fyrir landið í heild, vatnið, hvort sem það er heitt eða kalt, er svo mismunandi frá einum stað til annars að það verður að velja lagnaefni með tilliti til efnainnihalds á hverjum stað.
Það var einnig niðurstaða að nauðsynlegt væri að koma upp gagnabanka fyrir byggjendur og lagnamenn, þar sem saman væri safnað öllum upplýsingum um vatn á Íslandi, í þennan banka gætu hönnuðir sótt upplýsingar og valið lagnaefni eftir þeim.
Slíkur gagnabanki væri best kominn hjá Orkustofnun, þar liggja þegar miklar upplýsingar fyrir, en það vantar tvennt til að þessu sé fylgt eftir. Í fyrsta lagi að ákvörðun sé tekin af þar til bærum yfirvöldum að þessi banki skuli stofnaður, í öðru lagi að tryggja fjármagn til að þetta sé unnt en að útvega fjármagnið er ekkert vandamál.
Í nýútkomnu fréttabréfi Samorku (sem er samtök hita-, vatns- og rafveitna) er rætt um fyrrnefnda ráðstefnu og dregnar ályktanir af henni. Tvennt er þar fullyrt sem ekki er hægt annað en gera athugasemdir við. Þar segir um leiðir til að lækka hita á kranavatni að „eina örugga lausnin sé að setja upp varmaskipta á neysluvatnið“.
Þetta er mikil alhæfing, það eru til fleiri leiðir sem eru síst óvænlegri, en vissulega eru varmaskiptar ein af þeim ágætu lausnum sem til greina koma. Þá er einnig sagt að hitastig á vatni á hitaveitusvæðum sé víðast hvar 80 C inn í hús. Þetta stenst engan veginn, miklu frekar má segja að þessi hiti sé undantekning. Á veitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur er hiti vatnsins inn í hús víðast um 7075 C þó finna megi dæmi um hærri hita, en það er undantekning.
Í Stykkishólmi er áætlað að vatnið frá varmaskipti verði 80 C svo það er augljóst að það verður mun lægra þegar það rennur inn í hitakerfi húsa eða úr krönum þar á bæ.
Að sjálfsögðu var velt upp á þessari ráðstefnu öllum mögulegum efnum í rör til að leggja hvers konar kerfi, bæði hita- og neysluvatnskerfi.
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara að telja enn einu sinni þá kosti sem fyrir hendi eru, en látum okkur hafa það.
Um áratugi hafa aðallega verið notuð svört, snittuð stálrör til miðstöðvarlagna og úr því efni eru allar stærri hitaveitur landsins, í neysluvatnslagnir innanhúss aðallega galvaniseruð, snittuð stálrör, bæði í heitar og kaldar lagnir, eirrör í slíkar lagnir hafa einnig verið notuð með misjöfnum árangri.
Yngri lagnaefni eru ryðfrítt stál og ýmis lagnaefni úr plasti og það nýjasta er álpexið, rör sem er plast innst, ál í miðjunni og plast yst.
Í fyrrnefndu ágætu fréttabréfi Samorku stendur: „Plastefni gott í nær allar lagnir.“ Þetta þykja nokkur tíðindi, þar á bæ hefur plastið frekar mætt andstöðu, þó margar af smærri hitaveitum landsins séu lagðar úr plaströrum. Einnig segir: „Nauðsynlegt er að láta óháðan aðila prófa plaströrin og velja fyrir okkur bestu rörin.“
Það var nú það.
Framsæknir lagnamenn hafa notað nær allar gerðir af plaströrum í aldarfjórðung hérlendis og sumar miklu lengur og ef það er ekki þekkingarbanki sem hægt er að nýta, þá er ekki hægt að sjá að reynsla og þekking sé mikils metin. Ef valið á frekar að byggjast á einhverjum skammtímaprófunum sérfræðinga inni á rannsóknarstofum frekar en á langri reynslu manna með raunhæfa þekkingu, þá er það illa farið.
Með þesu er engan veginn verið að mæla gegn rannsóknum á lagnaefnum, rannsóknir á þeim eru mikil nauðsyn, ekki síður en á vatninu hvarvetna á landinu, en það þýðir ekki það að reynslan og þær prófanir sem þegar hafa verið gerðar í raunveruleikanum séu ekki mikils virði.
Um árabil höfum við búið við það að haldið hefur verið dauðahaldi í hefðbundin lagnaefni, svo sem galvaniserað stál fyrir kalt vatn og upphitað vatn, hvort tveggja með næstum skelfilegum afleiðingum, en jafnframt hefur verið staðið gegn öllum nýjum lausnum.
Fyrrnefnd ráðstefna Samorku var tímamótaráðstefna, þar voru ný lagnaefni, svo sem hin fjölbreytta fjóla plaströra, ryðfrí rör og álplaströr, viðurkennd sem kostur við val á lagnaefnum.
Nokkur umræða varð um ryðfrítt stál og var það vissulega tímabært því nokkuð hefur borið á því að litið hefur verið á ryðfrítt stál sem efni sem mætti bjóða allt, á líkan hátt og stundum var litið á plastið fyrr á árum.
En enn einu sinni sannast að það er ekkert lagnaefni til sem „bjóða má allt“. Það ætti t.d. enginn að leggja miðstöðvarlögn eða lögn fyrir heitt neysluvatn úr ryðfríu stáli með því að leggja rörin einangruð inn í veggi eða gólf. Þetta gæti skapað hættu á spennutæringu, sem orsakast af utanaðkomandi raka á rörinu jafnframt því að rörið sé yfir 65 C hita. Þetta þýðir hins vegar engan veginn að ekki megi nota ryðfrí stálrör fyrir meiri hita en 65 C, það er valið á lagnaleiðum og umhverfi sem ræður úrslitum. Þess vegna eru utanáliggjandi lagnir úr ryðfríu stáli góður kostur, en umfram allt þarf að tryggja að ekki liggi raki stöðugt á rörunum, ef hiti fer upp fyrir fyrrnefnd mörk. En svo er rétt að muna að það er ekki aðeins til ein tegund ef ryðfríu stáli, þar er til fjölmenn fjölskylda eins og í plastinu.
Ryðfrí rör úr sömu blöndu og ryðfríir eldhúsvaskar og voru fjarlægð úr sundlaug, þó ekki hérlendis, vegna ytri tæringar á byrjunarstigi. Ryðfrí stálrör úr annarri efnablöndu hefðu kannski þolað umhverfið betur.