Blöndunartæki – Handvirk tæki út..

Heimild: 

 

Desember 1998

Handvirkt blöndunartæki

Það kann að vera slysagildra á þínu heimili Það eru ótrúlega víða í notkun afgömul blöndunartæki í eldra húsnæði, að sjálfsögðu handvirk en ekki sjálfvirk. Notkun slíkra tækja er ekkert annað en stórhættuleg slysagildra.

HVAÐ mætir pípulagningamanni þegar hann kemur inn í eldri íbúðir hérlendis til að kanna ástand lagna og tækja? Fyrir það fyrsta er það næstum öruggt að hann kemur ekki til þeirrar athugunar nema eitthvað hafi bilað, eitthvað hafi farið úrskeiðis, einhvers staðar sé leki á lögn eða tæki. Skipulegt viðhald húsnæðis hérlendis er í molum og það á við um lagnir í íbúðarhúsum og raunar í hvers konar húsnæði. Þó má segja að skipulegt viðhald lagna og húsnæðis sé að feta sín fyrstu spor hjá opinberum aðilum, t.d. Reykjavíkurborg. Það má kannski segja að okkur hérlendis sé nokkur vorkunn, hefðir skapast ekki nema á löngum tíma og það er svo stutt síðan við komum út úr torfbæjunum, bygging varanlegs húsnæðis með lögnum fyrir hita, vatn og frárennsli hefst ekki að marki fyrr en undir miðja öldina. Þá kemst sú ranghugmynd inn hjá fólki að það sé komið í umhverfi sem sé „eilíft“ allt sé gert úr óforgengilegum efnum. En reynslan hefur sýnt allt aðra þróun, sem eðlilegt er.

Blöndunartæki 

Skoðum fyrst hvernig ástandið er í baðherbergjum húsa sem eru u.þ.b. 30 ára og eldri. Þetta er flokkur sem er æði stór og til viðmiðunar má benda á að undir hann fellur mikill hluti af íbúðabyggð innan Hringbrautar og Snorrabrautar en einnig Hlíðarnar, Melarnir, Kleppsholtið, já, raunar mestöll byggð vestan Elliðaánna. Það hefur ekki verið unnið markvisst að endurbyggingu húsnæðis á þessu svæði þó einstakir húseigendur hafi látið endurnýja einstaka húshluta og þá oftast baðherbergi og eldhús og við þá endurnýjun hafi stundum verið endurnýjaðar leiðslur en ekki nándar nærri alltaf, en tæki í flestum tilfellum eða öllum.

Hvernig er ástand tækja? 

Það eru ótrúlega víða í notkun afgömul blöndunartæki, að sjálfsögðu handvirk, ekki sjálfvirk, í eldra húsnæði. Notkun slíkra tækja er ekkert annað en stórhættuleg slysagildra, slíkar slysagildrur eru mjög víða í eldri húsum hér á landi.

Hver ber ábyrgðina? 

Ábyrgðin hlýtur ætíð að vera á herðum húseigandans, nákvæmlega á sama hátt og ef grýlukerti skaða vegfaranda eða ef hann fellur á hálkubletti á gangstétt. En því miður verður að segja það að lagnamenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa ekki upplýst almenning og þá sérstaklega húseigendur um þetta grafalvarlega mál; að þeir fóstra slysagildrur á heimilum sínum.

Í hverju liggur hættan? 

Í fyrsta lagi er alltaf hættulegt að fara í sturtu þar sem blöndunartækið er handvirkt, burtséð frá því hvort tækið er nýtt eða gamalt, þar sem hitastig heita vatnsins er yfir 50 C eins og er nánast alls staðar þar sem hitaveita er byggð á jarðvarma. Þetta byggist á því að þarna er verðið að blanda saman vatni frá tveimur veitum sem vinna, hvor eftir sínum forsendum. Skyndilegar þrýstingsbreytingar, sem eru algengar, geta haft þær afleiðingar að skyndilega steypist yfir þann sem í sturtunni stendur mjög kalt vatn óskaðlegt en óþægilegt, eða alltof heitt og ekki aðeins óþægilegt heldur lífshættulegt eins og dæmin sanna. Gegn þessu er hægt að vinna með góðri samræmdri þrýstijöfnun, sem á að vera sjálfsögð ekki síður þó um sjálfvirk blöndunartæki sé að ræða.

Sjálvirkt/hitastýrt blöndunartæki

Niðurstaðan er því þessi: það á aldrei að nota handvirk blöndunartæki í sturtum eða við baðker, alltaf sjálfvirk blöndunartæki.

Þessi regla á að gilda jafnt í húsum þar sem hiti á kranavatni hefur verið lækkaður umtalsvert, segjum niður í 60 C. Það er hægt að skaðast lífshættulega í slíku vatni, þetta ættu allir að gera sér ljóst.

Augljósasta dæmið er „heiti potturinn“, það þarf jafnvel átak til að fara í pottinn þegar vatnið er lítið eitt yfir 40 C. Hvaða heilvita maður mundi reyna að fara í pott sem er með 60 C heitu vatni?

Mesta hættan af gömlum blöndunartækjum er vegna slits

Samkvæmt okkar þjóðarvenju er ekkert skipulagt viðhald á blöndunartækjum, frekar en á öðrum lagnatækjum eða lögnum. Blöndunartæki, sem eru tengd við kerfi þar sem jarðvarmavatn er notað, ganga úr sér á tvennan hátt;

venjubundið slit vegna notkunar

útfellingar úr heita vatninu

Afleiðingarnar geta orðið þær að spindillinn með pakkningunni skrúfast alfarið út úr blöndunartækinu eða það verður fast á því stigi að ekki sé hægt að loka fyrir heita vatnið. Þetta er sérstaklega hættulegt fyrir eldra fólk og/eða hreyfihamlað.

Þó hér hafi verið sérstaklega fjallað um blöndunartæki í sturtum gildir nánast það sama um blöndunartæki við baðker og minna má á að banaslys á s.l. ári varð vegna þess að spindill í blöndunartæki við baðker skrúfaðist út í heilu lagi og heita vatnið rann út af fullum krafti.

Niðurstaða er þessi: 

Það verður að gera stórátak í því að uppræta gömul blöndunartæki í eldri íbúðum og skipta út öllum handvirkum blöndunartækjum við böð og í sturtum, hvort sem er í eldri eða yngri byggingum.

Fleira áhugavert: