Vindorkuver – Ekki á verndarsvæðum?
Febrúar 2018
Ekki á að reisa vindorkuvirkjanir á verndarsvæðum eða öðrum sambærilegum svæðum, jafnvel þó að þau njóti ekki verndar samkvæmt lögum. Þetta er mat Landverndar og kemur fram í stefnumótunar- og leiðbeiningaritinu Virkjun vindorku á Íslandi, sem samtökin gefa út og afhentu þau í dag Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrsta eintakið. Ritið var einnig sent til allra sveitarfélaga á landinu og verður auk þess gert aðgengilegt á vef samtakanna.
Hvetja samtökin stjórnvöld til að marka sér stefnu um nýtingu vindorku og sveitarfélög til að marka sér langtímastefnu um vindorkuver í skipulagi sínu, og að tryggja um leið aðkomu almennings að ákvarðanatöku á fyrstu stigum ferlisins. Ekki liggur fyrir stefna um vindorkuvirkjanir í landsskipulagi og sveitarfélög hafa heldur almennt ekki markað stefnu um þær í skipulagi sínu, hvorki í svæðis-, aðal- né deiliskipulagi.
Tekið verði tillit til fuglavarps og vindhraðadreifingar
Þóroddur F. Þóroddsson, sem áður starfaði hjá Skipulagsstofnun við mat á umhverfisáhrifum, er höfundur ritsins. Hann segir segir fulla ástæðu fyrir Íslendinga að skoða þessi mál betur og að ekki sé alltaf verið að taka afstöðu til hvers máls fyrir sig. Sagan sýni að það borgi sig að reyna að grípa inn í fyrr. „Það er algjört lykilatriði að almenningur og þeir sem málið varðar beinlínis komi að umræðunni strax í byrjun, áður en búið er að fara með þetta langt í ferli og eyða bæði fé, tíma og fyrirhöfn í undirbúning,“ segir Þóroddur í samtali við mbl.is.
Vísar Þóroddur þar í gátlista með 36 efnisatriðum sem sveitarstjórnum er bent á að hafa megi í huga í umræðum við væntanlega framkvæmdaaðila vindorkuvera og -virkjana. Er þar m.a. bent á að huga þurfi að nálægð við byggð, mögulegri hljóð- og sjónmengun, að kanna þurfi varp og farleiðir fugla, og gera þurfi veðurfarsrannsóknir á vindstefnu, -styrk og vindhraðadreifingu svo fátt eitt sé nefnt.
„Þessi seinni hluti er í og með leiðbeiningar til sveitarstjórna og þar gengum við lengra en við höfðum fyrirmyndir um frá Norðurlöndunum,“ segir Þóroddur. „Við vonum hins vegar að það hjálpi bæði sveitarstjórnarmönnum og framkvæmdaaðilum að átta sig á hvað þarf að skoða sérstaklega.“
Vilja lágmarka neikvæð áhrif framkvæmda
Engin stefna hefur enn verið mörkuð um vindorkuvirkjanir á Íslandi, hvort sem er af hálfu stjórnvalda, Alþingis eða sveitarstjórna og vonast Landvernd til að með ritinu megi lágmarka neikvæð áhrif slíkra framkvæmda. „Til að koma í veg fyrir að ráðist verði í byggingu vindorkuvirkjana á svæðum þar sem miklar líkur eru á að þær hafi veruleg neikvæð áhrif á viðkvæma náttúru landsins,“ eins og segir í fréttatilkynningu samtakanna.
Landvernd bendir enn fremur á að takmörkuð fræðsla liggi einnig fyrir af hálfu Skipulagsstofnunar fyrir sveitarstjórnir „til að byggja á umfjöllun og mótun afstöðu til slíkra fyrirspurna“.