Egyptaland – Gasið, gaslindir

Heimild:

.

Gasið í Egyptalandi

absim1.jpg

Absim – Smella á myndir til að stækka

Þegar maður var snáði voru sögurnar af Faraóunum með því mest spennandi sem maður las. Ekki var síður skemmtilegt að lesa um Aswan-stífluna, sem reist var í Egyptalandi á árunum 1960-70. Og um það hvernig risavaxnar fornminjarnar sem hefðu farið á kaf í uppistöðulónið voru sagaðar í sundur á vegum UNESCO og fluttar út fyrir lónstæðið.

Stíflan við Aswan hefur fyrst og fremst það hlutverk að stýra rennsli hinnar miklu Nílar. En að auki er þarna virkjun í ánni upp á meira en 2.000 MW. Þegar ráðist var í þessar framkvæmdir þýddi það rafvæðingu sem á þeim tíma náði til um helmings egypsku þjóðarinnar. En í dag stendur raforkan frá Aswan einungis undir um 15% af raforkuþörf Egypta. Sem er til marks um þá gríðarlegu fólksfjölgun, sem orðið hefur í Egyptalandi eins og svo mörgum öðrum þróunarríkjum.

Þrátt fyrir að egypska lýðveldið sé orðið nærri 60 ára hafa einungis þrír forsetar ríkt yfir landinu á þessum tíma (ef við leyfum okkur að sleppa fyrsta forsetanum sem sat einungis í eitt ár). Þessir þrír voru Nasser (1956-70) sem þjóðnýtti Súez-skurðinn, Sadat (1970-81) sem samdi frið við Ísrael og svo Mubarak (1981-2011).

sadat-mubarak.jpg

sadat-mubarak

Þarna er í reynd um að ræða eina samfellu, því bæði Sadat og Mubarak höfðu áður verið varaforsetar. Mubarak varð forseti landsins þegar Sadat var myrtur 1981 (myndin hér til hliðar mun hafa verið tekin örfáum andartökum áður en skothríðin buldi á Sadat; Mubarak slapp lítið særður). Sadat var hataður af mörgum leiðtogum annarra Arabaríkja fyrir friðarsamningana við Ísrael og um skeið var Egyptalandi vísað úr Arababandalaginu. En í staðinn varð Egyptaland einn helsti bandamaður Vesturlanda í Arabaheiminum.

Mubarak viðhélt hinum kalda friði við Ísrael og þar með vinskap við Bandaríkin. Þrátt fyrir þjóðþing og lýðræði að nafninu til, var hann í reynd nær einráður; einræðisherra sem ríkti í skjóli „neyðarlaga“ með aðstoð hersins og lögreglunnar. Hann hafði verið í forsetaembættinu í um þrjá áratugi nú þegar egypska þjóðin sagði hingað og ekki lengra og Mubarak mátti segja af sér með skömm.

egypt_petroleum-net.png

egypt_petroleum-net

En það er vandséð að lýðræði eins og við skiljum það hugtak komist á í Egyptalandi. Og það blasa risavaxin vandamál við þjóðinni. Hún er afar fjölmenn – um 80 milljónir manna – og stór hluti hennar býr við sára fátækt. Opinberar tölur um atvinnuleysi segja það vera um 10%, en skv. sumum heimildum er það miklu meira. Verðbólga er einnig mikil; um 15% skv. tölum hins opinbera.

Við þetta bætist svo að Egyptar eru ekki lengur sjálfum sér nógir um olíu. Þó svo Egyptaland sé verulegur olíuframleiðandi – einn af þeim stærri í Afríku – er nú svo komið að framleiðslan stendur ekki lengur undir olíuþörf þessarar fjölmennu þjóðar.

Fyrir um 15 árum náði framleiðslan um milljón tunnum á dag, en slefar nú varla í 600 þúsund tunnur vegna hnignandi olíulinda. Það er nánast sama magn eins og þjóðin notar og því blasir við að senn muni olían ekki lengur skila Egyptum útflutningstekjum. Þvert á móti mun þessi fátæka þjóð senn þurfa að flytja inn olíuafurðir. Og keppa um þær á heimsmarkaði við okkur í vestrinu og aðra sem munu alltaf vera tilbúnir að yfirbjóða Egypta og aðrar snauðar þjóðir.

egypt_small.png

egypt_small

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Undanfarin ár hafa fundist miklar gaslindir út af óshólmum Nílar. Egyptaland hefur fyrir vikið stóraukið gasframleiðslu sína og útflutning á gasi. Svo gæti farið að landið verði einn af mikilvægustu gasbirgjum Evrópu. Löngu orðið tímabært að ESB tengist N-Afríkuríkjunum nánari böndum.

Einn af allra nýjustu gasvinnslu-samningunum sem egypsk stjórnvöld gerðu var nettur samningur við BP og þýska RWE upp á 9 milljarða USD. Undir hann var párað um mitt síðasta ár (2010). Og svo má ímynda sér hvort eitthvað lítilræði af þessum milljörðum dollara hafa runnið inn á reikninga í eigu Mubarak's í einhverjum ónefndum banka í ónefndu landi?

Fleira áhugavert: