Brunavarnir – Verksvið lagnamanna

Heimild: 

 

Mars 1999

Eldvarnir eiga að vera á verksviði pípulagningamanna

Á árum áður hugsuðu lagnamenn ekki svo mikið um brunavarnir. Á þessu er vonandi að verða breyting. Á hverju ári verða gífurleg eignatjón í eldsvoðum, tjón sem að lokum enda á herðum hvers og eins í þjóðfélaginu.

Það virðist seint verða hægt að vinna bug á sinnuleysinu, þeir virðast vera allt of margir sem kæra sig kollótta, en því miður að lokum lenda í þeim hremmingum að horfa upp á eigur, jafnvel lífsstarf, fuðra upp á einni nóttu. Nú er búið að fella brunamálareglugerð inn í byggingarreglugerð og ætti það að verða til að herða á forvörnum við nýbyggingar, en eins og oft vill verða er eins og reglugerðir virki fælandi, sumir líta á þær sem óværu sem séu til þess eins að gera mönnum lífið leitt.

Brunavarnir birtast í margskonar myndum, eitt er að skipta byggingum niður í brunahólf. Með því eru byggðir upp varnarveggir, ef eldur kemur upp í einu hólfi á að vera mögulegt fyrir vel búið slökkvilið að verja þau næstu, ef öllum reglum hefur verið fylgt.

Önnur magnaðasta vörnin eru vatnsúðakerfi og þess eru dæmi að slík kerfi hafa bjargað miklum verðmætum við bruna.

Eftir hvern bruna fer fram nákvæm rannsókn á upptökum hans og í flestum tilfellum geta færir rannsóknarmenn fundið út hver var orsökin.

En það virðist skorta á að skýrslur um brunarannsóknir séu gerðar nægilegar opinberar, það á að skýra frá því af hverju kviknaði í og ekki síður af hverju urðu afleiðingarnar þær sem þær urðu. Af hverju brann húsið til grunna, af hverju tókst að varna því að eldurinn breiddist út og ekki síst; af hverju kafnaði eldurinn í fæðingunni og tjónið varð óverulegt?

Eldurinn er lævís

En nú er það svo að það er ekki nóg að skipta byggingu niður í brunahólf með rammgerðum steinveggjum, það verður að tryggja að nauðsynleg op á þeim veggjum séu sómasamlega frágengin. Ekki er hægt að komast hjá því að fara á milli brunahólfa, en þá verður að ganga þannig frá hurðum í öllum dyraopum að þær séu eldverjandi, jafnvel með sjálfvirkum hitastýrðum lokunarbúnaði. En það er fleira sem þarf að fara á milli brunahólfa en fólk eða vörur, milli brunahólfa verður oft að fara með lagnir sem flytja heitt og kalt vatn eða flytja frárennsli á milli hæða.

Þarna er oft pottur brotinn og það er vel að nú eru yfirvöld brunamála að taka þessi mál í gegn í eldra atvinnuhúsnæði.

Á árum áður hugsuðu lagnamenn ekki svo mikið um brunavarnir, en á þessu er vonandi að verða breyting. Pípulagningamenn verða héðan í frá að gera sér ljóst að það er í þeirra verkahring að sinna brunavörnum þar sem lagnir fara í gegnum veggi eða gólf.

Það er talandi tákn um það hve mönnum er þetta framandi, að ef spurst er fyrir um brunavarnaefni í þeim verslunum sem selja rör og annað lagnaefni, koma menn af fjöllum. Ekki ein einasta slík verslun virðist hafa gert sér grein fyrir nauðsyn þess að hafa á boðstólum eldvarnarhólka, til að setja utan um rör. Þetta er oft nauðsynlegt t. d. þegar frárennslisrör úr plasti fara á milli hæða. Slíkt eldvarnarefni er einnig til í túbum eða sem sérstök steypa, sem hellt er í úrtök í steinsteyptum plötum utanum rör. Eldvörnin byggist á því að efnið þenst út við hita og lokar plaströrinu, annars er hætta á að eldur hlaupi upp eftir rörinu. En því miður verða starfsmenn lagnaverslana langeygir ef þeir eru spurðir um slíka vöru, sem eldvarnarhólka, eldvarnarkítti eða eldvarnarsteypu, ­ því miður ekki til.

Fleira áhugavert: