Einingahús og hagkvæm bílastæði

Heimild: 

 

Smella á mynd til heyra og sjá umfjöllun á RÚV

Mars 2018

Hús með samtals fimm hundruð íbúðum fyrir ungt fólk, sem er að kaupa fyrstu íbúð, eiga að rísa á næstu árum í höfuðborginni. Markmiðið er að auðvelda þeim, sem ekki geta reitt fram mikið eigið fé, að komast í gott húsnæði. Borgin hyggst úthluta lóðum á sérkjörum og tryggja að íbúarnir njóti þess afsláttar.
 

Sjötíu hugmyndir bárust í hugmyndaleit að hagkvæmu húsnæði og var greint frá hluta þeirra á fundi í ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.

„Það er hugmyndin að setja inn í þetta lóðir fyrir fimm hundruð íbúðir,“ segir Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg.

Stefnt er að því að íbúðirnar verði miðaðar við þarfir þeirra sem ekki vilja eða geta lagt mikið fé í eigið húsnæði. Þetta geta verið einingahús, hús sniðin að bíllausum lífsstíl og hús þar sem íbúarnir nýta sameiginlega stóreldhús og einhver herbergi. Teiknistofa arkitekta vill byggja í svonefndu einingakerfi sem minnir einna helst á lego-kubba.

„Við erum með þrjár íbúðastærðir 40 fermetra, 70 fermetra og 100 fermetra. Þessum einingum er svo raðað saman þannig að þær henti aðstæðum og skipulagskröfum á hverjum stað fyrir sig. Þetta getur verið lítið 2-3ja hæða hús, þetta geta verið stórar blokkir, stórar einingar sem fylla stærri reiti í borginni,“ segir Jóhann Einar Jónsson, hjá Teiknistofu arkitekta.

Gert er ráð fyrir afturhvarfi til þess tíma þegar fólk flutti inn í hálfkláruð hús og tók svo nokkur ár í að múra, mála, leggja gólfefni og setja upp innréttingar.  Þá eiga íbúðir í þessari hugmynd að vera þannig að fólk getur sett upp fleiri veggi og fjölgað þannig herbergjum.

Bílastæðamál eru einnig útfærð í hugmyndum að hagkvæmu húsnæði. Eitt bílastæði á bílaplani kostar hálfa til eina milljón króna.

„En svo um leið og þú ferð að byggja bílastæði neðanjarðar þá eykst kostnaðurinn umtalsvert og getur farið allt upp í 6 milljónir króna per stæði,“ segir Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu.

Með því að lækka þennan kostnað er hægt að lækka íbúðaverð. Efla leggur því til að byggð verði bílastæðahús í miðju íbúðahverfi með stæðum ofan jarðar. „Undir mörgum kringumstæðum ferðast íbúar til vinnu á daginn, sumir hverjir á einkabíl. Það sama stæði getur verið nýtt fyrir þá sem vinna á svæðinu. Þannig hámarkarðu samnýtingu bílastæða með lækkun kostnaðar,“ segir Daði.

Lóðir á fimm svæðum verða eyrnamerktar fyrir hagkvæmt húsnæði, í Gufunesi, við Leirtjörn í Úlfarsárdal, á lóð Björgunar við Bryggjuhverfið, í Skerjafirði, á Veðurstofuhæð og á lóð Stýrimannaskólans og á Ártúnshöfða.

„Þannig að við getum bæði boðið upp á fjölbreytileika en líka hagkvæmt húsnæði þar sem lóðirnar eru boðnar á einhverjum sérkjörum,“ segir Hrólfur.

Reynt verði að tryggja að það verði ekki bara sá sem byggir sem njóti sérkjaranna. Skipulag hverfisins í Úlfarsárdal er lengst komið af svæðunum fimm og því viðbúið að fyrstu hagkvæmu húsin rísi þar eftir um tvö ár.

Fleira áhugavert: