Gagnaver – Lítið áhugaverð á Íslandi?
Febrúar 2015
Gagnaver lítt áhugaverð á Íslandi…
Margir telja að mjög áhugavert sé að gagnaver rísi á Íslandi, þetta séu merkilegar stofnanir sem veiti fjölda vel menntaðra vinnu við hæfi. Er það svo?
Svarið er einfaldlega: Nei.
Í raun eru þetta lítið annað en kæligeymslur sem hýsa ótrúlegan fjölda netþjóna sem eru ekkert annað en tölvur með stórum diskageymslum. Þessar tölvur eru knúnar rafmagni sem fyrst og fremst umbreytist í hita sem þarf að losna við. Þess vegna er kælibúnaðurinn mjög fyrirferðamikill. Hvinurinn í viftunum ærandi.
Þarna starfar fólk sem sinnir eftirlitsstörfum og fyrirbyggjandi viðhaldi. Sérþjálfað fólk sinnir einhæfu starfi við að skipta út einingum í endalausum skáparöðum. Bilaðar einingar eru settar í kassa og sendar úr landi, og nýjar einingar teknar úr kössum. Þarna starfar enginn við skapandi störf. Engöngu rútínuvinnu við að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi og bíða eftir að eitthvað bili. Sama verkið dag eftir dag. Dag eftir dag. Árið um kring. Dag og nótt…
Starfa einhverjir tölvunarfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar o.s.frv. á svona stað? Það er lítil þörf á þeim, og ef einhverjir slysast til þess, þá sinna þeir ekki skapandi störfum. Taka þátt í ótrúlega einhæfu og leiðinlegu viðhaldi. Allur tölvubúnaðurinn kemur til landsins tilbúinn í skápum sem raðað er saman, eða jafnvel heilu gámunum sem einfaldlega er staflað upp í kæligeymslunni stóru.
Svo er öllu auðvitað fjarstýrt frá útlöndum.
Auðvitað starfar þarna líka fólk við að hella upp á kaffið sem nauðsynlegt er til að halda starfsfólkinu vakandi. Líklega eru þó sjálfvirkar kaffivélar notaðar. Þarna starfa væntanlega húsverðir og öryggisverðir sem gæta þess að óvikomandi komi ekki nærri búnaðinum og þarna starfar fólk sem sópar ryki af gólfi.
Eftirsóknarverður staður til að starfa? Varla.
Veita gagnaver mörgum störf: Eru 30 margir? Sumum finnst það. En 50 manns?
Hvað er þá svona merkilegt við gagnaver? Jú, margir halda að þau séu einstaklega merkileg. Það er jú merkilegt í sjálfu sér.
Svo þurfa þau mikla raforku sem fer í ekkert annað er að knýja tölvurnar og hörðu diskana ógnarstóru og svo auðvitað kæla þær því þær hitna ógurlega. Kælikerfin og blásararnir gleypa mikla orku. Það merkilega er að öll þessi raforka fer bara í að hita rafeindabúnað og kæla hann aftur. Engin vinna er framkvæmd. Engin afurð. Öll raforkan, segjum 30 MW, endar í umhverfi gagnaversins, sem er auðvitað notalegt fyrir fugla himinsins.
Stórmerkilegt…
Má ég þá heldur biðja um eitthvað annað. Eitthvað sem skapar störf fyrir viti borið fólk…
Svo er það hin hliðin á málinu: Ef gagnaver er langt frá notendum verður svartíminn of langur. Ísland er langt frá Ameríku og meginlandi Evrópu. Það gerir staðsetningu gagnavera á Íslandi minna áhugaverð fyrir eigendur þeirra.