Vottun lagnaefna – Vandinn er nokkuð stór..

Heimild: 

 

Október 2000

Vottun lagnaefna

Kristján Ottósson

Aðeins 33 vottanir hafa verið gefnar út af Rb, en fjöldi lagnaefna til nota í byggingum skiptir þúsundum, segir Kristján Ottósson, framkvæmdastjóri Lagnafélags Íslands. Á þessu sést, að vandinn er nokkuð stór.

FUNDUR um vottun lagnaefna var haldinn fyrir skömmu af Lagnafélagi Íslands í samvinnu við Umhverfisráðuneytið, Iðnaðarráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, innflytjendur og seljendur lagnaefna, framleiðendur lagnaefna, Verkfræðingafélag Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands og Lagnakerfamiðstöð Íslands.

Fundinn sóttu um níutíu manns og margir tóku til máls.

Fyrirspurnum rigndi frá fundarmönnum, en fátt var um svör því menn virtust vera ringlaðir og ráðalausir.

Það kom fram á fundinum að nær enginn, hvorki hönnuðir, iðnaðarmenn, byggingarfulltrúar, seljendur- og framleiðendur lagnaefna, hafahugsað um að hafa þessi mál í lagi, það er að segja að fara eftir byggingarreglugerð í starfi sínu.

Í Byggingarreglugerðinni nr. 441/1998 mælir svo fyrir:

120. gr. Byggingarvörur

120.1 Byggingarvörur á markaði skulu uppfylla ákvæði reglugerðar um viðskipti með byggingarvörur. Ákvæði þeirrar reglugerðar um merkingar, samræmisvottorð og samræmisyfirlýsingar skulu uppfyllt, svo m.a. sé unnt á fullnægjandi hátt að meta notkunarsvið vörunnar.

120.2 Á meðan ekki eru til staðlar og/eða tæknisamþykki fyrir viðkomandi vöru til þess að ákvæði mgr. 120.1 verði virk skal krafist vottorða/umsagna um notkunarsvið vöru frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Brunamálastofnun ríkisins eða öðrum þar til bærum aðilum sem umhverfisráðuneytið viðurkennir.

Samkvæmt þessu segir byggingarreglugerðin okkur svo ekki verður um villst að allt lagnaefni á að vera vottað af Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Það var upplýst á fundinum að aðeins 33 vottanir hafa verið gefnar út af Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, en fjöldi lagnaefna til nota í byggingum skiptir þúsundum.

Á þessu sést að vandinn er nokkuð stór, efnissalar virðast ekki sækjast eftir að fá vottun og komast upp með það ásamt framkvæmdar- og eftirlitsaðilum.

Hvað höfum við að gera með ákvæði í byggingarreglugerð sem ekki er hægt að framfylgja? Er ekki orðið tímabært að skoða þessi mál með ábyrgð að markmiði.

Hverju eigum við að líkja þessu við, ganga niður Laugaveg og brjóta aðra hverja rúðu og allir láta sem þeir sjái það ekki? Hver borgar kostnaðinn?

Það var athyglisvert að stjórn Félags byggingarfulltrúa hafnaði þeirri beiðni undurbúningshópsins að taka þátt í fundinum.

Í skýrslu frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sem unnin var í samvinnu við tryggingarfélögin segir að vatnsskaðar á hverju ári nemi einum milljarði króna, hvers vegna?

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík er eini byggingarfulltrúinn sem gengið hefur fram fyrir skjöldu og viðurkennt vandann og neitar að skrifa upp á teikningar og taka út lagnakerfi frá og með 1. desember 2000 nema sannað sé að í þeim séu vottuð lagnaefni.

Það þýðir að umhverfisráðuneytið þarf að gera breytingu til bráðabirgða á byggingarreglugerðinni á því ákvæði er varðar vottanir t.d. í eitt ár. Þann tíma þarf að nota vel til vinnu við lagfæringu á vottunarmálum í byggingarreglugerðinni.

Fleira áhugavert: