Hönnun baðherbergja
Júní 1999
Hvað er hönnun?
Í flestum nýjum íbúðum er baðherbergið að lögun og niðurröðun tækja ákaflega hefðbundið, að minnsta kosti í fjölbýlishúsum . En þetta form er fyrir löngu búið að brjóta upp víða erlendis.
Í ORÐABÓK Menningarsjóðs segir ekki mikið um þetta nýyrði í íslenskri tungu, þó að það sé kvenkynsnafnorð og skýring orðsins er aðeins „það að hanna“. Það er aðeins um hálf öld síðan orðið hönnun fékk þegnrétt í málinu, en hvað þýðir það í raun og veru?
Hver og einn hefur sinn eigin skilning á merkingu orða, en hér er sett fram sá skilningur, sá þröngi skilningur, að orðið þýði frumsköpun. Arkitektinn hannar hús, verkfræðingurinn hannar lagnir og járnavirki, landslagsarkitektinn hannar garðinn og nánasta umhverfi utanhúss, hér eru upptalin nokkur svið af fjölmörgum þar sem hönnun kemur við sögu. Hver sá sem er hönnuður fær verðugt verkefni, víðtækt frelsi til sköpunar þar sem hann miðlar sérgáfu sinni og sérþekkingu til annarra, þeim til gagns og jafnvel gleði.
En því miður, þannig vinna hönnuðir ekki alltaf, oft á tíðum detta þeir í pytt vanans, hætta að hanna og gerast fjöldaframleiðendur, sitja fastir í endurtekningum.
Afhausa boðberana
Alls staðar eru til hefðir, einnig í lögnum, en hvert sækjum við íslendingar okkar lagnahefðir?
Að sumu leyti sækjum við þær til Þýskalands, eins og þar tíðkast erum við föst í því að tæknin skuli vera hulin. Miklu síður viljum við fara að fordæmi skandinava og láta lagnir vera sýnilegar og aðgengilegar, þó örlar á nokkurri þróun í þá átt.
En við höfum einnig skapað okkar eigin hefðir í lagnamálum og sé hefðin á komin hverfum við ekki svo léttilega frá henni. Þó að löngu sé sannað að hefðirnar skapi stórfelldan skaða og fjárútlát í nútíð, og þó einkum framtíð, höldum við áfram að berja höfðinu við steininn og lokum augunum fyrir staðreyndum.
Það er gífurlega mikið byggt á höfuðborgarsvæðinu, en í flestum þessara nýju og glæsilegu bygginga eru pípulagningamenn önnum kafnir við að fara eftir gallaðri hönnun, sem sé að leggja kaldavatnsrör úr galvaniseruðu stáli, sem allir vita að leiðir til ófarnaðar.
Æðstu menn lagnamála í höfuðborginni hafa, sumir hverjir, úthrópað þá sem varað hafa við þessari efnisnotkun sem menn ofstækis og undirróðurs og viljað draga þá til ábyrgðar fyrir að minnast á þessa hættu. Það er ekki nýtt að valdsmenn vilji aflífa boðbera válegra tíðinda.
Lausnir sem skila sér ekki
Arkitektar, og aðrir hönnuðir húsa, eiga nokkra sök á lélegri hönnun baðherbergja, þeirra hönnun kemur jú alltaf fyrst.
Í flestum nýjum íbúðum er baðherbergið að lögun og niðurröðun tækja ákaflega hefðbundið, a.m.k. í fjölbýlishúsum, en þetta form er fyrir löngu búið að brjóta upp víða erlendis.
Hérlendis erum við enn njörvuð niður í það að salernið og handlaugin verði að vera við einhvern af hinum fjóru útveggjum baðherbergisins og oftast er það vegna þess að hönnuðir telja að ekki sé hægt að koma leiðslum að tækjum séu þau staðsett öðruvísi.
Þetta er mikill misskilningur, það ætti að vera liðin tíð að leiðslur séu múraðar inni á bak við rammgerða veggi úr vikurplötum, það eru komin á markað heilu kerfin úr stálprófílum til að byggja upp leiðsluveggi, ýmist meðfram hinum fjórum útveggjum baðherbergisins, eða þá þvert út í rýmið, hornrétt á veggina eða með þeirri gráðu sem hugmyndaríkur hönnuður velur.
Þessar stálgrindur (eða álgrindur) eru síðan klæddar með plötum úr völdu efni og flíslagðar á hefðbundinn hátt, það er hægt að flísaleggja á fleira en stein. Hversvegna eru þessar lausnir ekki notaðar?
Vegna þess að hönnuðirnir, hvort sem þeir eru arkitektar, verkfræðingar, tæknifræðingar, byggingafræðingar eða aðrir fylgjast ekki nægjanlega vel með þróuninni og láta vanann fanga sig í sínar sterku greipar.
ÞESSAR tvær myndir, þar sem sjást bæði málsett grunnmynd og fjarvíddarmynd, gefa góðar hugmyndir um hvernig hægt er að brjóta upp hefðbundið form baðherbergja með því að byggja upp leiðsluveggi úr stál- (eða ál-) prófílum.
Í ÞÝSKALANDI er það á verksviði pípulagningamanna að setja upp leiðsluveggina, koma fyrir í þeim öllum leiðslum og klæða síðan.