Hvað geta veirur lifað lengi?

Heimild:

.

Mars 2020

Veiran getur lifað lengi

Vísindamenn á vegum bandarískra heilbrigðisyfirvalda hafa rannsakað hve lengi Covid-19 veiran lifir í lofti, á ryðfríu stáli, plasti og pappa. Rannsóknina má lesa um á vefnum medrxiv.

Samkvæmt rannsókninni getur veiran lifað í loftinu í allt að þrjár klukkustundir. Til samanburðar geta aðrir flensuvírusar lifað í eina klukkustund í loftinu. Vírusinn getur lifað á pappa í allt að einn sólarhring en lengst lifir hann á plasti og stáli eða í allt að þrjá daga, að því er greint er frá á norska vefnum forskning.no. Þetta þýðir að veiran getur verið lengi lifandi á ýmsum hlutum, svo sem pappakössum, krönum eða borðplötum svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta er mikilvægt þekking til að meta hvernig veiran getur smitað og hvaða ráðstafanir eru mikilvægar,“ segir Gunnveig Grødeland, vísindamaður við ónæmisfræðideild háskólans í Ósló. „Þetta undirstrikar enn frekar hversu mikilvægt það er að þvo hendur oft. Ekki er vitað hversu lengi vírusinn lifir á höndum en vitað er að fólk fer oft með hendur í andlit sitt á hverri klukkustund. Fólk getur smitast af veirunni frá yfirborðshlutum,“ segir Gunnveig.

Vísindamennirnir sem stóðu að baki nýju rannsókninni settu raunhæft magn vírusa á mismunandi efni á rannsóknarstofu auk þess að úða veiruögnum með úðabrúsa út í loftið. Allar prófanir voru gerðar í 21-23°C hita með 40 prósent raka. Vitað er að veiran lifir mislengi eftir hitastigi og við meiri hita lifir hún skemur en lengur í meiri kulda. Vísindamennirnir báru saman Covid-19 við SARS-vírusinn og kom í ljós að getan til að lifa er nokkuð svipuð hjá þessum tveimur tegundum vírusa. Covid-19 vírusinn hegðar sér svipað og aðrir þekktir vírusar varðandi dreifingu. „Venjulegir flensuvírusar geta lifað á yfirborði í nokkra daga. Það er gott til þess að vita að þessi nýi vírus hegðar sér svipað og aðrar tegundir. Ef hann hegðaði sér frábrugðið öðrum hefði það verið mikið áhyggjuefni,“ segir Gunnveig og bætir við að róttækar aðgerðir eins og sóttkví og lokanir fyrirtækja hafi verið settar á hárréttum tíma til að koma í veg fyrir frekari smit. „Mögulega þarf að fara í enn meiri aðgerðir,“ segir hún, en skólar og leikskólar í Noregi voru lokaðir í síðustu viku og verða það til 26. mars.

„Það er afar mikilvægt að þvo hendur oft en jafnframt halda heimilinu og vinnustaðnum hreinum. Það þarf að þrífa vel borð og aðra þá hluti sem margir snerta. Ef einhver veikist á heimilinu þarf að þvo fatnað og sængurföt oft á minnst 60°C hita, helst á 95°C. Ekki geyma fatnað af hinum veika í þvottakörfu heldur þvoið strax. Best er að vera eingöngu í fatnaði sem þolir mikinn hita í þvotti finni fólk fyrir einkennum vírussins.“

Fleira áhugavert: