Enn þá fáar konur í iðngreinum..

Heimild: 

 

Janúar 2014

Ekki ein af strákunum heldur stelpan í hópnum

Soffía Anna Sveinsdóttir tók stúdentspróf af félagsvísindabraut. Ekki af því að hún hefði sérstakan áhuga á félagsgreinum, heldur af því að hún átti erfitt með stærðfræði. Að loknu stúdentsprófi bjuggust vinir hennar og vandamenn við að hún færi í íslenskunám. Það kom því flestum á óvart þegar hún hóf þess í stað nám í pípulögnum. Hún lauk sveinsprófi 2009, og meistaraprófi 2012. Hún stundar nú nám í vél- og orkutæknifræði við Háskólann í Reykjavík. Ég tók Soffíu tali og spurði hana út í reynslu sína af karlastörfum.

 

Enn þá fáar konur í iðngreinum

Soffía Anna Sveinsdóttir

Eva: Ég þekki enga aðra konu sem hefur lært pípulagnir. Er konum að fjölga í hefðbundnum karlagreinum?

Soffía: Ég vona það en við erum mjög fáar enn þá, að minnsta kosti í mínum greinum. Ég veit um eina konu sem lauk meistaranámi í pípulögnum nítján árum á undan mér og eina eða tvær sem hafa lokið sveinsprófi síðan. Ég hef líka áhuga á vatnsaflsvirkjunum svo nú er ég byrjuð í námi í vél- og orkutæknifræði og þar er ég eina konan.

Eva: Margir telja að það skipti máli að fólk af báðum kynjum leggi stund á félagsvísindi af því að kynin hafi ólíkar áherslur. Heldurðu að tæknigreinar myndu græða á því ef fleiri konur sýndu þeim áhuga?

Soffía: Ég yrði ekki hissa á því. Þótt eðlisfræðilögmál séu óháð kyni er hönnun stór hluti af öllum iðnaði og þar skiptir máli hvaða leiðir við sjáum til að leysa vandamál.

 

Langaði ekki í illa launað kvennastarf

Eva: Þú elst upp við þá hugmynd að vinna við pípulagnir og virkjanir séu karlastörf. Manstu hvernig áhugi þinn á þessum greinum vaknaði?

Soffía: Ég hef haft áhuga á vatni síðan ég var barn. Mér finnst gaman að horfa á fallega fossa en hins vegar heillast ég líka af möguleikanum á því að beisla allan þennan kraft. Ég upplifi stundum togstreitu milli þessara hugmynda. Ég hef líka gaman af vélum. Ef ég hefði verið strákur hefði ég hugleitt möguleikann á því að læra eitthvað tengt vélum mun fyrr en skólakerfið átti drjúgan þátt í því að eyðileggja áhuga minn á tækni og iðnnámi. Kannski hefur það líka mótað mig að einhverju leyti að ég ólst upp með strákum fyrstu ár ævi minnar. Lék mér mest að playmo og öðru dóti sem er flokkað sem strákaleikföng.

Pabba leist ekkert á að ég yrði pípari.

Ég ákvað að læra pípulagnir bæði af því að ég hafði ekki áhuga á hefðbundnum kvennagreinum og svo skiptir fjárhagslegt sjálfstæði mig miklu máli. Ég hafði ekki sérstakan áhuga á félagsgreinum en fór á félagsvísindabraut í framhaldsskóla, aðallega af því að ég hélt að ég réði ekki við stærðfræði. Mér fannst svo liggja beint við að fara í háskólanám í íslensku því mér hafði gengið vel í henni. En þegar ég velti því fyrir mér hvað ég ætlaði að vinna við í framtíðinni þóttu mér möguleikarnir sem íslenskan býður upp á ekki spennandi. Ég hafði unnið við afgreiðslu, heimaþjónustu og önnur illa launuð kvennastörf og mig langaði bæði að vinna skemmtilegt starf og hafa góðar tekjur. Faðir minn er pípari og bræður mínir höfðu unnið með honum svo ég hugsaði að ég gæti alveg eins farið þá leið eins og að fara í íslensku bara til að gera eitthvað.

Eva: Varðstu pípari fyrir áhrif frá fjölskyldunni?

Soffía: Ekki í þeim skilningi að ég hafi fengið hvatningu til að verða pípari. Satt að segja leist pabba ekki meira en svo á þegar ég nefndi þetta við hann fyrst. Hann lét mig skila inn formlegri umsókn og ég fór í formlegt viðtal hjá honum þar sem hann gerði mér grein fyrir því að þetta væri misskemmtilegt og ég yrði að vera tilbúin til að taka allan pakkann. Ég efast um að hann hafi haft áhyggjur af því að bróðir minn sem lærði líka hjá honum myndi gefast upp á erfiðum verkefnum. En ég er ekkert sérhlífnari en strákarnir enda gekk mér bara vel.

 

Konur hafa fordóma gagnvart karlagreinum og karlar fordóma gegn konum

Eva: Hefurðu orðið fyrir kynjafordómum í tengslum við námsval þitt?

Soffía: Jájá. Þegar ég vinn með körlum hnussa sumir yfir því að kvenmaður sé í þessu fagi en öðrum finnst það rosalega töff. Allir hafa einhverja skoðun á því. Ég verð líka fyrir karlrembulstælum. Fæ á mig pillur fyrir að vera kona og sumir reyna að ganga fram af mér með ruddalegum húmor eða reyna gagngert að espa mig upp. En þeir hætta þessu þegar þeir sjá að maður lætur þetta ekki á sig fá. Þetta er ekki kvenhatur, frekar dálítið óöryggi sem brýst út í svona asnaskap. Ég myndi auðvitað ekki láta hvað sem er yfir mig ganga en held að það sé árangursríkast að takast á við fordóma karla með því að líta á þá sem jafningja. Ef ég verð pirruð segi ég sjálfri mér að það segi ekkert um mig þótt einhver karl sé kjáni eða ruddi.

Ég verð fyrir karlrembustælum.

Sumir reyna að ganga fram af mér með ruddalegum húmor eða reyna gagngert að espa mig upp.

Ég hef líka verið spurð hvort ég sé lessa. Einu sinni spurði karl mig hvort ég væri þá “svona trukkalessa” og annar svaraði honum og sagði að ég liti ekki út fyrir að vera lessa. Mjög staðlaðar hugmyndir um konur og ekki síst lessur.

Eva: Finnurðu meira fyrir fordómum frá körlum en konum?

Soffía: Já, konur hafa frekar fordóma gagnvart karlastörfum en því að kona gegni þeim. Yfirleitt finnst konum bara flott hjá mér að gera það sem mig langar en margar bæta því við að þær gætu ekki hugsað sér að vera píparar sjálfar. Þær sjá þá kannski fyrir sér mikið líkamlegt erfiði og sóðaskap.

 

Konur halda að þessi störf séu erfiðari en þau eru

Eva: En er það misskilningur? Þetta er líkamleg vinna, er það ekki?

Soffía: Jú, þetta er líkamleg vinna og að nokkru leyti erfið. Maður þarf stundum að rogast með ofna og annað þungt dót. En konur halda að karlastörf séu erfiðari en þau eru. Verkakonur vinna líka erfiðisvinnu og ég er frekar lítil en þarf samt ekkert að kalla á strákana til að hjálpa mér. Oft er maður líka að vinna með létt efni og þá er þetta ekkert erfitt. Konur halda líka oft að vinna við holræsi sé mjög ógeðsleg, allt fullt af rottum og kúk. Nú hef ég unnið við pípulagnir í 10 ár en ég hef enn ekki séð rottu og það er heldur ekkert mikið um kúk. Konur sem vinna á elliheimilum sjá kúk á hverjum degi.

Eva: Heldurðu að þessi karlrembumórall sem þú talar um fæli konur frá því að fara í karlastörf?

Konur sem vinna á elliheimilum sjá kúk á hverjum degi.

Soffía: Ég get vel trúað að konur verði minna spenntar fyrir að vinna á karlavinnustöðum þegar þær finna fyrir kynjafordómum en eina leiðin til að breyta þessu er sú að fleiri konur láti á það reyna. Þetta breytist ekkert með því að ein og ein kona komi inn og reyni að segja körlunum hvernig þeir eigi að hegða sér. Maður lætur auðvitað ekki vaða yfir sig en þessi grófi húmor og fyrirgangur sem einkennir karlavinnustaði er bara hluti af pakkanum.

 

Trúi ekki að bara ein kona af þúsund hafi áhuga á vélum og tækni

Eva: Hafa kynjaímyndir áhrif á það hversu fáar konur sækja í iðngreinar?

Soffía: Ég held reyndar að kynin séu ólík að eðlisfari og fleiri konur hafi þessvegna áhuga á umönnunarstörfum. En ég hef enga trú á því að aðeins ein af hverjum þúsund hafi áhuga á vélum og tækni svo ég held að menningin ráði mjög miklu um þetta kynbundna val. Við sjáum hefðbundin kynhlutverk í leikföngum, teiknimyndum og bara alls staðar. Fyrirmyndir stúlkna eru ekki í iðngreinum og á sama hátt eru fyrirmyndir drengja ekki í hjúkrun.

Eva: Heldurðu að þetta sé vítahringur, að kynjahallinn fæli konur frá að sækja um?

Kynjahallinn hefur áreiðanlega áhrif þótt hann skýri ekki allt. Það er allt öðruvísi andi á karlavinnustöðum en kvennavinnustöðum, sem reyndar styður þá kenningu að kynin séu ólík. Karlar afgreiða ágreiningsmál oft ruddalega en svo er það bara gleymt í næsta kaffitíma. Konur eru kurteisari en ef þeim sinnast getur það haft í för með sér langvarandi leiðindi, eins og að þær tali ekki saman eða skiptist í lið. Það er samt útbreiddur misskilningur að konur séu forvitnari um náungann en karlar. Samkvæmt minni reynslu eru karlar alveg jafn mikið fyrir slúður og konur.

Get ekki hringt í strákana ef mig vantar félagsskap.

Tengslin við vinnufélagana skipta líka flest fólk máli. Ég er í góðum og samheldnum hóp í skólanum en ég hef engin samskipti við konur. Þetta eru fínir strákar en ég er ekki ein af strákunum heldur stelpan í hópnum og tengsl mín við félagana mótast af því. Ég get ekki hringt í strákana ef mig vantar félagsskap. Konunum þeirra gæti þótt það óþægilegt og það er hætta á að einhleypur maður myndi misskilja það. Ef væru stelpur með mér í námi myndi ég ekki hika við að eiga samskipti við þær utan skóla.

 

Grunnskólinn skemmdi áhugann á iðnnámi

Eva: Þú sagðir áðan að skólinn hefði eyðilagt áhuga þinn á iðngreinum. Viltu segja mér nánar frá því?

Soffía: Grunnskólinn einkennist af slæmu viðhorfi til iðngreina. Það er talað um verkgreinar sem „aukagreinar” og oft er talað um iðnnám eins og það sé ruslakista fyrir þá sem eiga erfitt með bóknám, sem er algjör vitleysa. Skólinn vekur heldur ekki áhuga á raungreinum, drepur hann frekar niður. Krakkar sem eiga erfitt með raungreinar eru ekki hvattir til að leggja meira á sig og þegar manni gengur illa missir maður áhugann.

Í tæknigreinum þarf maður að kunna stærðfræði til að geta verið skapandi.

Kannski er kennaranám bara ekki nógu gott. Of margir kennarar hafa ekki það vald á stærðfræði og eðlisfræði sem þarf til að vekja áhuga krakka á þessum greinum. Nú virðist kennaranám ganga mikið út á sköpun. Ég veit dæmi þess að kennaranemar fái verkefni sem felast í því að baka kökur og segja sögur. Hönnun skiptir ekki síður máli í tæknigreinum en þar verður maður að kunna stærðfræði til þess að geta verið skapandi. Það er fráleitt að þeir sem hafa mikla sköpunargáfu þurfi ekki að leggja áherslu á raungreinar en raunin er sú að stelpur sem eiga erfitt stærðfræðina í grunnskólum eru hvattar til að fara í tungumál og félagsgreinar í framhaldsskóla fremur en að sé litið á slaka stærðfræðikunnáttu íslenskra barna sem merki um að það sé eitthvað að skólakerfinu.

 

Úreltar hugmyndir um mismunandi tekjuþörf kynjanna

Eva: En nú er það ekkert bundið við stelpur að þurfa mikið að hafa fyrir stærðfræðinámi. Heldurðu að sé öðruvísi tekið á strákum?

Soffía: Skólakerfið bregst strákum enn þá meira en stelpum. Þegar strák gengur illa í skóla er hann hvattur til að fara í iðnskóla en ekki hjúkrun eða kennslu sem myndi henta mörgum þeirra betur. Það hefur kannski einhver áhrif að enn þá eru undirliggjandi úreltar hugmyndir um að karlmenn þurfi að hafa hærri tekjur en konur. Mér finnst líka oft skína í gegn það viðhorf að stelpur eigi ekki að þurfa að hafa eins mikið fyrir hlutunum og strákar. Stelpur eru hvattar til að læra það sem þeim finnst skemmtilegt en kannski frekar álitið eðilegt að strákar þrælist í gegnum erfiðu fögin í von um hærri tekjur.

Stelpur spyrja fyrst og vinna svo en margir strákar halda að þeir hafi fengið verkvitið í vöggugjöf.

Svo getur líka verið að kynjamunur hafi áhrif á líkurnar á því að maður takist á við eitthvað erfitt. Stelpur vanmeta oft færni sína og halda að þær þurfi að hafa meira fyrir þessu en strákarnir. Karlar eru áræðnari að eðlisfari og ég hef oft rekist á það sjálf að strákar ætla að fara að kenna mér eitthvað en svo kemur í ljós að þeir hafa ekkert betra vald á því en ég sjálf. Stelpur spyrja fyrst og vinna svo en margir strákar halda að þeir hafi fengið verkvitið í vöggugjöf. Skólinn þyrfti að viðurkenna þennan kynjamun og takast á við hann.

Eva: Nú er mikið talað um að strákar eigi erfitt uppdráttar í skólum og að hluti vandans sé skortur á karlkennurum. Myndi þetta breytast ef fleiri karlar færu í kennslu og myndu fleiri karlkennarar skipta máli fyrir stelpur sem hafa áhuga á raungreinum?

Soffía: Ég efast um að það myndi breyta miklu fyrir stelpur sem hafa áhuga á sviði tækni og raungreina. Fáir grunnskólakennarar hafa menntun á þeim sviðum. Framhaldsskólarnir bjóða heldur ekki upp á fyrirmyndir fyrir þá krakka sem hafa áhuga á sviði hins kynsins þótt þar sé hærra hlutfall karla. Svo eru flestir raungreinakennarar í framhaldsskólum karlar og kannski ná þeir ekki sama sambandi við stelpurnar og kvenkennarar. Nú er ég í námi í grein þar sem karlar eru ríkjandi og ég veit bara um tvær konur sem munu kenna mér á þremur árum.

 

Þurfum að horfa minna á kyn en meira á einstaklingsmun

Eva: Hvernig líst þér á hugmyndir um stjórnvaldsaðgerðir til að hvetja stelpur til að fara í karlagreinar eða að fyrirtæki og stofnanir veiti kynbundna námsstyrki?

Soffía: Orkuveitan styrkir fjórar konur á ári til náms. Ég naut sjálf góðs af því. Ég efast samt um að styrkir ráði úrslitum um það hvort fólk fer í nám. Ég hef líka hugsað um það hvort sérstakur stuðningur við konur efli þá hugmynd að konur séu hjálparvana. Það er gott að fá hjálp til að láta drauma sína rætast en styrkir breyta ekki þeirri almennu hugmynd að konur eigi lítið erindi í tækni og iðnað og þar er rót vandans. Við þurfum að horfa minna á kyn en meira á einstaklingsmun.

Eva: Væri hægt að breyta þessu með uppeldinu? Með því að hætta að velja börnum fatnað og leikföng eftir kyni?

Ég klæðist alltaf pilsi eða kjól nema þegar ég er í vinnugallanum.

Soffia: Mér finnst ekki ástæða til að reyna að má kynjamuninn út og það er heldur ekki raunhæft. Við breytum ekki börnum í kynlausar verur með því að hætta að klæða stráka í blátt og stelpur í bleikt. Ég er kona þótt ég sé pípari. Ég klæðist t.d. alltaf pilsi eða kjól nema þegar ég er í vinnugallanum. Við ættum frekar að leggja áherslu á það að hver og einn sé einstakur og allir megi gera það sem þá langar, óháð kyni.

Eva: Hvað myndir þú ráðleggja stelpum og ungum konum sem hafa áhuga á iðnnámi en telja kannski að þetta karlaumhverfi henti sér ekki?

Soffía: Ég ráðlegg þeim að taka iðngrein og jafnframt stúdentspróf. Þótt kynjahallinn sé svona mikill í dag þá getur margt átt eftir að breytast og þegar þú ferð að vinna með körlum getur vel verið að það sé ekki jafn fráhrindandi og þú hélst. Ég ráðlegg þeim líka að leggja sem mesta áherslu á raungreinar. Ef maður hefur góðan grunn í stærðfræði þá standa allar dyr opnar en það er erfiðara að fara í raungreinanám ef maður hefur útskrifast af félagsvísindabraut.

Fleira áhugavert: