Gas – Eru tengingar þéttar..
Ágúst 199
Gas er þægilegt en einnig hættuleg.t Það er engin ástæða til að forðast notkun á gasi, en það þarf að vera vel á verði og gæta þess, að allur búnaður sé í lagi og umfram allt allar tengingar þéttar.
Þegar landinn er á faraldsfæti með fellihýsin í eftirdragi eða tjaldið á toppnum, sumir lúta ekki að svo frumstæðum lifnaði en hvíla lúin bein í bændagistingu, á eddu- eða lyklahótelum.
Í farangri þeirra, sem tjaldbúskap stunda, er nokkuð víst að finna má prímus og gaskúta, sumir eru einnig með gasgrill til að steikja kjötið við rómantíska geisla kvöldsólarinnar. Prímus er eitt af þeim tökuorðum sem hafa unnið sér þegnrétt í íslenskri tungu. Í Orðabók Menningarsjóðs segir um prímus: „sérstakt lítið eldunartæki sem notar gas (eldri gerðir steinolíu sem þær breyta í gas)“. Það var einmitt þannig prímus sem sá þekkti prestur, Jón Prímus undir Jökli, notaði og enn er uppi fjöldi Íslendinga sem man að prímus var ómissandi tæki á engjum til kaffihitunar.
En nú er það ekki steinolían sem er notuð sem brennsluefni, í stað þess hefur komið gas sem fáanlegt er á öllum bensínstöðvum í litlum handhægum kútum, en þeir sem eiga tjaldvagna láta sér yfirleitt ekki nægja þessi litlu kríli, stærri kútar eru einnig fáanlegir.
Hættur og slys
Það er ekki út í hött að segja að Íslendingar umgangist gas af talsverðri léttúð og raunar má þakka fyrir að ekki hafa orðið fleiri og afdrifaríkari slys af völdum gass en raun ber vitni, en vissulega hafa orðið slys.
Mesta hættan af gasi er oftast slæmar tengingar gaskúta við brennslutæki, hvort sem það er grill, ofn, prímus eða gaslukt til lýsingar. Af slíkum vanköntum hafa orðið eldsvoðar og ekki fyrir löngu fuðraði upp tjaldhýsi vegna gasleka.
Það verður því seint nægjanlega brýnt fyrir öllum sem meðhöndla og nota gas að vera vel á verði, gæta þess sérstaklega að allar tengingar séu þéttar. Mikil aukning er hérlendis í notkun gass til eldunar, vart er til það veitingahús að ekki sé þar gastæki til matargerðar, en slík tæki eru nú einnig að verða algengari á heimilum. Gas er lofttegund sem finnst víða í miklu magni þar sem einnig er olía í jörðu og víða er gas leitt um borgir inn á hvert heimili, t.d. er nú unnið mikið gas úr botni Norðursjávar og er dreifikerfi frá þeim lindum í öllum borgum Skotlands og allt suður til Englands.
Þar hefur öryggið verið sett á oddinn og tekið föstum tökum, en áður en það var gert var gasið búið að taka sinn toll í mannslífum. Nú verða allir sem leggja gasleiðslur og tengja gastæki í Skotlandi að hafa til þess sérstök réttindi eftir ströng námskeið, þeir sem þau réttindi fá verða að bera á sér sérstök skírteini sem sanna réttindin og eftirlitsmenn geta birst fyrirvaralaust og krafið um skilríkin. Séu þau ekki í vasanum er viðkomandi vísað af vinnustað og við því liggja þung viðurlög geti hann ekki sannað réttindi sín.
Hér á landi höfum við verið æði kærulaus í þessum efnum, það er ekki útilokað að hægt sé að sjá utanhúss hvaða veitingahús nota gas til eldunar, gaskútar sjáanlegir í opnum skápum á húsveggjum, en sem betur fer utanhúss. Öllu alvarlegra er að á fjölda heimila eru komin gaseldunartæki þar sem gaskútarnir eru í sama borði og eldunartækin, kútarnir eru innanhúss. Það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef tengingar tækja við kúta eru óþéttar og í raun ættu allir gaskútar ætíð að vera utanhúss, en því miður eru gaskútar innanhúss leyfilegir samkvæmt reglugerð um gaslagnir sem Brunamálastofnun ríkisins hefur gefið út.
Þó sagt hafi verið að gas sé lofttegund er það ekki að öllu leyti rétt, undir þrýstingi verður gas fljótandi vökvi, en alltaf er það jafn hættulegt. Þrátt fyrir það er engin ástæða til að forðast notkun þess, aðeins að vera vel á verði og gæta þess að allur búnaður sé í lagi og umfram allt; allar tengingar þéttar. Og þá skellum við steikinni á grillið og etum af hjartans lyst í kvöldsólinni í fallegu skógarrjóðri.
Gaslogi getur verið til mikilla þæginda, en ef óvarlega er farið eru þægindin fljót að breytast í martröð.