Nytjavatn – Nær eingöngu grunnvatn..
Nytjavatn tekur til hvers konar vatns sem nýtt er til neyslu og annarra beinna þarfa, svo sem vökvunar í garðyrkju, kælingar í iðnaði, hitunar húsa með eða án varmaskipta, eða til fiskeldis. Á Íslandi er nytjavatn nær eingöngu ættað úr grunnvatni, en aðeins örfá prósent þess koma úr yfirborðsvatni. Grunnvatn getur verið ferskt, ísalt eða salt sem sjór.
Neysluvatn er ferskvatn til neyslu og matvælaframleiðslu, sem uppfyllir tilskildar kröfur um hreinleika og hollustu. Neysluvatn er manninum lífsnauðsyn og er skilgreint sem matvæli að gæðum til samkvæmt lögum og reglugerðum þar að lútandi. Ekki er litið á hitaveituvatn sem neysluvatn, og þarf það því ekki að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru um matvæli. Neysluvatnsauðlindin er allt það vatn, sem nýta má sem neysluvatn á skynsamlegan og hagkvæman hátt.
Neysluvatnstaka til almannanota í vatnsveitum og til heimilis- og búsþarfa úr einkavatnsbólum nemur um 2,7 m3/s að meðaltali, af því eru nærri 97 % úr grunnvatni. Um 2,9 m3/s af ferskvatni eru nýtt til húshitunar í kjölfar upphitunar í jarðvarmavirkjunum. Til fiskeldis eru nýttir um 3,1 m3/s af ferskvatni. Til annarra nota, einkum iðnaðar, eru teknir 1,1 m3/s af ferskvatni Ferskvatnstaka í heild nemur því tæplega 10 m3/s, eða sem samsvarar um tvöföldu rennsli Elliðaánna. Það magn er þó minna en 1 % af auðgi auðlindarinnar á landinu. Þessu til viðbótar eru nýttar rúmlega einar Elliðaár, eða um 5,7 m3/s, af jarðhitavatni til húshitunar. Skv. auðlindalögum er þó fyrst og fremst litið á það sem orkugjafa, en ekki sem grunnvatn.
Neysluvatnsauðlindin er að langmestu leyti innifalin í grunnvatnsauðlindinni. Umsjá hennar og stýring er á höndum iðnaðarráðherra innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu nr. 57/1998 („auðlindalög“), og er Orkustofnun umsýslustofnun ráðherra í þeim efnum og annast m.a. leyfisgjöf og eftirlit.