Hverahlíðarlögn – Efla þurfti gufuöflun..
September 2014
Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá þrívíddarlíkan sem gert var af lögninni til að nota við hönnun hennar svo draga mætti úr sýnileika lagnarinnar. Í myndbandinu sjást einnig mannvirki við Hverahlíð. Lagning gufulagnar tengir jarðhitasvæðið í Hverahlíð á Hellisheiði við Hellisheiðarvirkjun. Lögnin var tekinn í notkun í árslok 2015 og var fullnaðarfrágangi lokið á árinu 2016.
Lögning er 5 kílómetra löng og hljóðaði lægsta tilboð upp á tæpa 2,5 milljarða króna. Leið lagnarinnar var valin með tilliti til þess að hún yrði sem minnst sýnileg frá þjóðveginum og sem minnst rask yrði. Þá var lagt kapp á að svæðið geti nýst áfram til útivistar. Þannig verður hægt að komast yfir nýju lögnina á fimm stöðum. Skiltum með upplýsingum um hvar hægt verður að komast yfir lögnina ásamt merktum gönguleiðum á svæðinu verður komið fyrir á völdum stöðum, til dæmis á bílastæði við Hellisheiðarvirkjun, á bílastæði við gatnamót Suðurlandsvegar og Gígahnúksvegar og á áningarstað sem Orka náttúrunnar fyrirhugar að koma upp á móts við Gígahnúk.
Hagkvæmasta og öruggasta leiðin til að afla gufu
Greint var frá því í júní 2013 að efla þyrfti gufuöflun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni í Hellisheiðarvirkjun. Afráðið var að nýta borholur, sem þegar höfðu verið boraðar við Hverahlíð, frekar en að bora nýjar nær virkjuninni. Þar væri ekki á vísan að róa og skynsamlegra að nýta þá fjárfestingu sem fyrir var. Borholurnar undir Hverahlíð voru boraðar á árunum 2007 og 2008 og virðast öflugar. Hellisheiðarvirkjun var fullbyggð árið 2011. Það er kostur að gufan í Hverahlíð er þurrari en á núverandi vinnslusvæði og dregur það úr þörf á niðurrennsli vinnsluvatns. Tengingin hefur engin áhrif á útblástur frá virkjuninni þar sem ekki er verið að auka afköst hennar. Stjórn Orkuveitunnar ákvað síðasta haust að ráðast í verkið, að undangenginni umræðu í sveitarstjórnum eigenda. Skipulagsvinnu vegna tengingarinnar er lokið. Orka náttúrunnar, sem tók við virkjanarekstri og raforkusölu OR um síðustu áramót, bauð verkið út í vor. Það felur í sér lagningu gufu- og skiljuvatnslagna um fimm kílómetra leið á milli Hverahlíðar og Hellisheiðarvirkjunar, lagningu raf- og stýristrengja sömu leið auk byggingar skiljustöðvar.